Baldvin Steindórsson fæddist 20. janúar 1928. Hann lést 13. desember 2014. Útför Baldvins fór fram 19. desember 2014.

Á miðri aðventu á fallegu desemberkvöldi kveður minn elskulegi tengdafaðir Baldvin Steindórsson. Það er eitthvað svo táknrænt fyrir hann. Þessi tími sem er tími ljóss og friðar, fæðingarhátíð frelsarans.

Ég kom inn í fjölskylduna fyrir tæpum 27 árum, feimin og óörugg. Áhyggjur hurfu fljótt því að Baldvin og Lilja tóku mér, þessari nýju stelpu, afskaplega vel og ég fann mig velkomna í fjölskylduna. Baldvin var hæglátur, hógvær maður en jafnframt ákveðinn og hafði sterkar skoðanir, gat líka verið þrjóskur ef svo bar undir.

Ég er nokkuð viss um að fjölskyldan öll hefur alla tíð verið borin á bænarörmum þeirra hjóna en bæði Baldvin og Lilja voru virkir félagsmenn í kristniboðsfélögum karla og kvenna og áttu þau bæði einlæga trú á Jesú.

Baldvin var handlaginn með eindæmum og útsjónarsamur. Hann var eiginlega „altmuligmand“, bílasmiður, húsasmiður og auðvitað rafvirki en það var sú iðngrein sem hann tók próf í, hitt voru bara aukaverkefni. Þessir kostir komu í góðar þarfir á fyrstu hjúskaparárum Baldvins og Lilju þegar lítið var um efni til bygginga og miklu máli skipti að nýta allt sem hægt var. Ótrúlegt er fyrir mína kynslóð að ímynda sér að einn maður gæti smíðað sér bíl en það gerði hann tengdapabbi, smíðaði Willys-jeppa ásamt því að byggja hús fyrir fjölskyldu sína. Í þá daga þurftu menn að bjarga sér, það var ekki um að ræða að hlaupa í næstu verslun að kaupa það sem vantaði, ekki einu sinni brot af því sem til er í dag. Ef ekki voru til tæki eða verkfæri þá bara voru þau hönnuð og búin til af þessum hagleiksmönnum eins og tengdapabba. Geri ég ráð fyrir að sú kynslóð sé að mestu horfin.

Það er eiginlega ekki hægt að nefna Baldvin á nafn án þess að nefna Lilju líka, þau voru afskaplega samhent hjón enda búin að vera tæplega 65 ár í hjónabandi. Þau hafa verið samstiga í gegnum lífið og máttu vart hvort af öðru sjá. Þau voru ekki bara foreldrar og tengdaforeldrar, þau voru líka alveg yndisleg afi og amma. Andrea Rut og Jóhann Frank sakna afa mikið en eru líka þakklát fyrir þau forréttindi að hafa átt hann afa Kalda að.

Á síðustu árum hefur fennt yfir margar minningar þeirra hjóna Baldvins og Lilju. En efst í huga mínum er þakklæti fyrir að þau gátu verið saman til hinsta dags Baldvins, það var öllum í fjölskyldunni mikils virði. Því að þótt þau sætu hlið við hlið og töluðu ekki mikið saman þá var nærveran svo mikilvæg og að geta horft hvort á annað. Og það var yndislegt að sjá, ástin enn til staðar og væntumþykjan svo augljós.

Söknuður Lilju minnar er mikill og erfitt að horfa upp á móður/tengdamóður vera að missa tengslin og tökin á tilverunni.

Ég bið góðan Guð að gefa henni styrk og umvefja hana með kærleik sínum.

Ég þakka Baldvini tengdaföður mínum samfylgdina og einstaka umhyggju í minn garð og bið Guð að blessa kærar minningar. Þín

Katrín.