Bjarni Jónsson fæddist 23.10. 1927. Hann lést 13.12. 2014. Útför Bjarna fór fram 30.12. 2014.

Mig langar að minnast Bjarna Jónssonar vinar míns með fáeinum orðum. Ég kynntist Bjarna fyrir rúmum þrjátíu árum þegar ég byrjaði að kenna við Verzlunarskólann en þar hafði Bjarni þá kennt í um það bil tuttugu ár. Bjarni tók nýliðum vel enda var hann sérlega elskulegur í viðmóti við samstarfsfólk sitt alla tíð. Hann var háttvís maður og mikið prúðmenni en hafði til að bera gott skopskyn eins og frændur hans margir frá Steinnesi í Þingi. Þegar fátt var á kennarastofunni í gamla skólanum við Grundarstíginn átti Bjarni það stundum til að skemmta okkur með kátlegum lýsingum á einhverju skoplegu sem fyrir hann hafði borið á lífsleiðinni. Það voru eftirminnilegar stundir.

Bjarni kenndi einkum ensku en hafði einnig lært frönsku og spænsku á háskólaárum sínum. Kennsla lét Bjarna vel enda var hann samviskusamur maður og vann verk sín af trúmennsku enda ástsæll og virtur kennari.

Sjóndeildarhringur Bjarna var víður og hann hafði góðan smekk fyrir máli og bókmenntum og yndi af tónlist. Mér er minnisstætt að Bjarni ræddi stundum við mig um Laxdælu sem nemendur lásu á þessum árum í skólanum. Hann talaði um að það væri saga sem hann hefði sérstakar mætur á – blær sögunnar væri svo þýður, eins og hann tók til orða, og mál hennar einkar fallegt. Þetta lýsir Bjarna vel að mínu viti. Hann var næmur á það sem fagurt er og hafið yfir hið hversdagslega. Oft varð þess líka vart þegar talið barst að þjóðmálum að hann hafði samúð með þeim sem minna máttu sín og stóð greinilega þeim megin að.

Fundum okkar bar of sjaldan saman eftir að Bjarni hætti kennslu en þó hittumst við alloft á förnum vegi og áttum tal saman. Spjall við Bjarna var ævinlega ánægjulegt og yljað gamalkunnri kímni hans og hnyttni.

Ég þakka mínum gamla vini góð kynni og sendi ástvinum hans mínar bestu samúðarkveðjur.

Gunnar Skarphéðinsson.