Guðmundur G. Þórarinsson
Guðmundur G. Þórarinsson — Morgunblaðið/Golli
Eftir Guðmund G. Þórarinsson: "Loftárásir gagna ekki nema takmarkað, rétt til að sporna við frekari landvinningum."

IS sker sig frá öðrum hryðjuverkasamtökum s.s. Al-quaida og Boko Haram. Þeir ráða nú yfir landsvæði sem er stærra en Bretland. Ekki er um venjuleg hryðjuverkasamtök að ræða, um er að ræða skipulögð samtök sem hafa stofnað ríki þar sem stærstu borgum er stjórnað með skipulögðum hætti, lögregla starfar, sjúkrahús og einskonar réttarkerfi. Tekjuöflun þeirra er næsta örugg, þeir ráða yfir olíulindum og afla gríðarlegra tekna á svarta markaðnum. Samtökin byggjast á hugmyndagrundvelli sem virðist höfða sterklega til ungra múslima. Hundruð ungra manna og kvenna flykkjast í hóp þeirra á hverjum degi. Stór hluti frá vestrænum ríkjum, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Frakklandi, Danmörku o.s.frv., sem telja sig ekki falla inn í þjóðfélög vestrænna ríkja, telja að sér sé haldið utan við allt, eigi enga möguleika til að lifa eðlilegu lífi, litið sé niður á þá af þjóðfélaginu og eðlilegt líf sé ekki framundan. Ekki bara það, talsverður hluti kemur frá millistéttum, jafnvel háskólamenntaðir menn með möguleika á að vinna sig upp í þjóðfélaginu. Óska jafnvel eftir að deyja píslarvættisdauða og fara til himna í ríki Allah. Þetta unga fólk flykkist til fylgis við IS, hundruðum saman á hverjum degi.

Barátta vestrænna ríkja er ekki bara við hryðjuverkamenn, hún er gegn hugmyndafræði. Hugmyndafræði sem byggist á hörmulegum grimmdarverkum, morðum á heilum þjóðfélagshópum. Hugmyndir verða ekki sigraðar með vopnum. Loftárásir gagna ekki nema takmarkað, rétt til að sporna við frekari landvinningum. Í milljónaborgum sínum búa IS-liðar dreifðir meðal íbúanna, ekki verður tekist á við það með loftárásum. IS-liðar eru gagnteknir af hugmyndafræði, trúa því að þeir sigri. Þeir hafa það framyfir aðra hryðjuverkahópa að þeir ráða yfir fjölmiðlum, netinu og draga stöðugt til sín ungt fólk með öflugum áróðri. Sumir telja að myndbönd þeirra af aftökum gísla og fjölmiðlamanna stefni að því að draga vesturveldin með fótgönguliða á baráttusvæðið því þeir vilji berjast við þá.

Ekki er unnt að loka tekjuöflunarleiðum þeirra og beita svipuðum aðferðum og leiddu til hruns Sovétríkjanna. Svo virðist sem hópar starfi í vestrænum borgum og geri þar í auknum mæli árásir. Sjálfsagt er árás Bandaríkjamanna á Írak og stuðningur þeirra við Ísrael aflvaki í hugmyndafræði IS.

Berjast verður við hugmyndir með hugmyndum. Koma þarf því til skila að barátta IS á ekkert skylt við íslam og Kóraninn.

Vesturlönd þurfa líka að beina sjónum sínum inn á við. Þjóðfélög Vesturlanda byggjast á samkeppni, ágóðavonin er aflvaki hagkerfanna. Gróðavonin er hvatinn. Áherslan er meira á því að hafa en að vera. Þunglyndi og örvænting fyllir hug þeirra sem ekki eru færir um að standa í þeirri samkeppni og verða undir. Hin óábyrga hönd markaðarins sem segir í hinum kapítalísku löndum: Ég er drottinn guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa, leiðir af sér gríðarlegt efnalegt misrétti. Allir þurfa að lifa og eiga rétt á mannréttindum og hamingju. Hagvaxtardýrkunin skilur okkar minnstu bræður og systur eftir í eyðimörkinni.

Á hvaða leið erum við? Hugmyndafræði IS er einhver alvarlegasta ógnin sem við stöndum frammi fyrir. Í fornum bókum okkar segir: „Á skal að ósi stemma.“ Verða menn ekki að beina sjónum sínum að orsökinni?

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Guðmund G. Þórarinsson