Salvör Ásta Sigurðardóttir fæddist á Grettisgötu 30 í Reykjavík 18. desember 1919. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 6. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólína Eysteinsdóttir frá Hraunsholti í Garðabæ og Sigurður Jónsson frá Stóru-Borg í Grímsnesi.

Salvör var yngst fjögurra systkina en þau voru: Jón, f. 1908, d. 1982, Kristmunda, f. 1908, d. 1998, og Laufey, f. 1918, d. 2010.

Salvör gekk í Barnaskóla Austurbæjar og Kvennaskólann.

Hún giftist 1946 Ólafi Þorsteinssyni, f. 1906, d. 2001, og stofnuðu þau og ráku fyrirtækið Ólafur Þorsteinsson & Co.

Útför Salvarar fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 14. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 15.

Látin er ömmusystir mín Salvör Ásta Sigurðardóttir.

Salla var litríkur og sterkur persónuleiki og eiga minningar um hana eftir að ylja okkur í fjölskyldunni um ókomin ár. Hún var ótrúlega minnug á menn og málefni, fljót að tengja og rekja ættir, og þekkti vel til sögu Reykjavíkur allt frá öndverðri síðustu öld. Með fráfalli hennar verða nú ákveðin vatnaskil, þar sem hún er sú síðasta af þeim systrum, ömmu Laufeyju og Mundu og þeirra mönnum til að kveðja okkur. Hvað mig varðar gæti ég ekki verið þakklátari eða heppnari en að alast upp í faðmi þessa hóps, og honum tengjast margar bernskuminningar mínar.

Salla var gift Ólafi Þorsteinssyni, og ráku þau Óli saman heildsöluna Ólafur Þorsteinsson og co. Þeim varð ekki barna auðið. Það lá því í hlutarins eðli að þau fengju okkur systkinin „að láni“ ef svo bar undir. Ég minnist þess að hafa farið með þeim í ýmis jólaboð á vegum Lions, veiðiferðir upp í Brennu, ótal skauta- og skíðaferðir og þar fram eftir götunum. Allar eru þessar minningar skemmtilegar, og ég minnist þess að ýmis töfrabrögð voru framin. Ófá samkvæmi voru haldin í Drápuhlíðinni.

Óli kenndi mér að tefla og hafsjó af bókum á ég frá þeim hjónum. Ég minnist þess á hinn bóginn að sem barni þótti mér ekki mikið til hinnar árlegu jólagjafar frá þeim hjónum koma. Alltaf silfurskeið. Nú, 40 árum seinna, er ekki haldið ærlegt matarboð á mínu heimili án þess að þessar fallegu eftirréttarskeiðar séu dregnar fram, hver með sínu ártali.

Hin síðari ár bjó Salla í Naustahlein í Garðabæ og þaðan flutti hún nýlega inn á Hrafnistu í Hafnarfirði. Eftir að ég flutti til Bandaríkjanna árið 2010, sló ég á þráðinn til Söllu einu sinni í mánuði. Þótt komin væri á tíræðisaldur kom ég ekki að tómum kofunum hjá henni þegar málefni líðandi stundar bar á góma. Hún fór reglulega í göngutúr og „púttaði“ svolítið þegar veður gafst til, enda fyrrverandi Reykjavíkurmeistari í golfi.

Við fjölskyldan komum í jólafrí til Íslands nú í desember, og var okkar fyrsta verk að heimsækja Söllu. Augljóslega hafði henni hrakað líkamlega, þótt hugurinn væri ennþá skýr. Þessar tvær vikur sem við vorum á landinu tók þó að draga af henni jafnt og þétt. Við áttum ágætt tal um lífið og dauðann og ljóst var að hún var södd lífdaga. Við fjölskyldan flugum aftur út laugardaginn 3. janúar og fórum og kvöddum Söllu á leiðinni út á flugvöll. Okkur var öllum ljóst að ólíklegt væri að við hittumst aftur hérna megin grafar. Við kvöddumst og sögðum það sem segja þurfti. Hún faðmaði okkur Guðrúnu og börnin. Þremur dögum síðar var hún öll. Eftir sitjum við með minningar um „bestu ömmusystur í heimi“ eins og hún kallaði stundum sjálfa sig í gríni. Blessuð sé minning hennar.

Sigurður Böðvarsson.

Í dag kveðjum við eftirminnilega konu, Salvöru Ástu, ömmusystur mína. Salla, eins og hún var gjarnan kölluð, lá ekki á skoðunum sínum og gat rakið ættir flestra sem hún kynntist. Hún fylgdist vel með málefnum líðandi stundar og var skýr allt þar til yfir lauk.

Hún og amma mín, Laufey, voru mjög nánar, því var Salla mér nokkurs konar aukaamma. Í veislum var hún gjarnan hrókur alls fagnaðar, tók dansspor, söng og fékk svo gjarnan hláturskast sem smitaði alla sem í kringum hana voru.

Salla og Óli voru samrýnd hjón og alltaf var gaman að koma til þeirra, þá bakaði Salla gjarnan pönnukökur og Óli gaf okkur systrum sykurmola. Síðan voru tekin upp spil eða okkur kennt hvernig halda ætti á golfkylfu og pútta. Þau voru dugleg að ferðast bæði innan lands og utan, Salla gat því gefið mér góð ráð þegar ég fór að ferðast um landið með mína fjölskyldu.

Salla var alla tíð dugleg að hreyfa sig, gekk mikið og var mjög hraust bæði til líkama og sálar. Hún fylgdist vel með fólkinu í kringum sig og hafði samband til að fá fregnir. Hún hafði mikinn áhuga á stelpunum mínum, spurði þær alltaf bæði um vinina og fótboltann.

Ég og maðurinn minn, Hjalti Már, erum þakklát fyrir það sem Salla hefur verið okkur fjölskyldunni og varðveitum minningu um góða konu.

Blessuð sé minning kærrar ömmusystur minnar, Salvarar Ástu.

Anna Ýr Böðvarsdóttir.

Salvör Ásta, eða Salla eins og hún var alltaf kölluð, var nátengd fjölskyldu minni og þá sérstaklega á meðan konan mín, Björk heitin, var á lífi. Söllu þótti mjög vænt um Björk enda var hún hjá Söllu sem ungbarn á meðan Laufey, systir Söllu og móðir Bjarkar, dvaldist í Bandaríkjunum í tæpt ár. Salla reyndist Björk mjög vel bæði sem barni, unglingi og fullorðinni konu. Fyrsta vinna Bjarkar var hjá þeim Söllu og eiginmanni hennar Ólafi Þorsteinssyni, en þar var hún sendill á unglingsárunum. Björk þótti mjög vænt um Söllu og talaði fallega um hana.

Salla ólst upp í Reykjavík. Sigurður faðir hennar var sjómaður og netagerðarmaður. Salla kynntist þannig starfi sjómanna og kom oft á netaverkstæðið hjá föður sínum. Hún var gáfuð, minnug og þótti gaman að segja frá.

Sem barn dvaldi Salla á sumrin á Efra Apavatni hjá frændfólki sínu og kynntist þar landbúnaðarstörfum. Þá lá ekki vegur milli Svínavatns og Laugarvatns svo hún var sótt á hestum síðasta spölinn frá Svínavatni. Hún hafði mjög gaman af að segja sögur þaðan og frá æsku sinni og talaði oft um hvað vatnasýn og sjávarsýn skipti sig miklu. Sem unglingur vann Salla í bakaríi við Ingólfstorg og hún var fljót að læra að reikna út verð á vöru í huganum. Hún hneykslaðist oft á unglingum nútímans sem þurfa alltaf að draga upp reiknivélina til þess t.d. að reikna afslátt af vöru í verslunum en það sá hún þá gera oft.

Salla og Ólafur ferðuðust mikið saman bæði erlendis og um Ísland. Á sínum yngri árum fóru þau í jöklaferðir sem var ekki algengt þá og sváfu í tjaldi á jöklum. Þau fóru mikið saman á skíði bæði innanlands og erlendis og saman ferðuðust þau víða um heim með Lionsklúbbi Ólafs.

Ólafur og Salla ráku saman heildverslun með pappír. Salla kynntist mörgum gegnum starf sitt og einnig í félagsstörfum með Ólafi. Hún var mannglögg og þekkti marga með nafni og einnig afkomendur þeirra.

Dögg á margar góðar minningar um Söllu síðan hún var barn. Salla var mér alltaf yndislega góð – það vantaði ekki fjörið í kringum Söllu! Ýmislegt kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Söllu og Óla. Dýrindis mandarínulykt á jólunum af mandarínukassanum í Drápuhlíðinni þar sem þau bjuggu lengst af. Eins fékk ég að fara með á jólaböll sem Lions-hreyfingin hélt fyrir börn og meðal annars leita að möndlunni í möndlugrautnum ár eftir ár. Salla var líka einstaklega lagin við að „stela nebbanum“ af okkur krökkunum (og seinna börnunum okkar) með þumlinum sínum.

Í einni af ferðum ömmu Laufeyjar til Daggar í London, á meðan hún bjó þar, slóst Salla með í för. Dögg skipulagði ýmislegt skemmtilegt og þar fóru þær systur á kostum! Það var einstaklega gaman að vera með þeim, rölta um borgina, drekka gin og tonic, rifja upp gamlar góðar sögur og var mikið hlegið. Eins er ofarlega í huga Kaupmannahafnarferð sem við Salla fórum í með ömmu, Lísu, Laufeyju, Bryndísi og Láru. Þá var, eins og svo oft, mikið kjaftað, hlegið og lífsins notið út í ystu æsar.

Minning Söllu mun lifa lengi með okkur.

Dögg, Arndís og Auðun.