Úti Það reyndi á skátana um helgina enda mikil áskorun að tjalda í frosti og fimbulkulda. Þó er ekki annað að sjá en þátttakendur hafi notið sín.
Úti Það reyndi á skátana um helgina enda mikil áskorun að tjalda í frosti og fimbulkulda. Þó er ekki annað að sjá en þátttakendur hafi notið sín. — Skátamál.is
Um síðustu helgi tóku nær 20 skátar á aldrinum 14-15 ára þátt í svokallaðri Vetraráskorun og sváfu í tjöldum.

Um síðustu helgi tóku nær 20 skátar á aldrinum 14-15 ára þátt í svokallaðri Vetraráskorun og sváfu í tjöldum. Helgin var upphitun fyrir stóru stundina, sem verður þegar um þrjátíu írskir skátar koma til landsins og hópurinn allur tekur þátt í vikulangri dagskrá sem verður í Útilífsskólanum á Úlfljótsvatni og á Hellisheiði 13.-20. febrúar. Í tilkynningu frá skátunum segir að býsna kalt hafi verið um helgina „og því óhætt að segja að veðrið hafi reynt á þolrifin og búnaðinn þegar gist var í tjöldum eina nótt. Engum varð þó meint af.“

Nú um helgina var eins og fyrri undirbúningshelgina hjá íslenska hópnum lögð áhersla á fræðslu um rétta hegðun á fjöllum og góðan búnað. Þá er mikilvægt að læra að haga ferðum sínum eftir veðri og reynslu þátttakenda. Fyrsta áætlun gerði ráð fyrir að tjalda á Hellisheiði en ferðaáætlun var breytt og var því sofið í tjöldum í nágrenni við Lækjarbotna.

Vetraráskorunin er samstarfsverkefni íslenskra skáta, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og írskra skáta. Þátttakendur sem eru á aldrinum 14 og 15 ára koma frá Íslandi og Írlandi. Segir í tilkynningunni að Vetraráskorunin heiti fullu nafni „Vetraráskorun Crean og er hún tileinkuð Tom Crean írskum landkönnuði og tekur dagskráin mið af því. Gerð eru snjóhús eða skýli, sofið í tjöldum og æfð er fjallabjörgun svo fátt eitt sé nefnt. Þátttakendur undirbúa sig fyrst hver í sínu heimalandi en í febrúar er síðan sameiginleg vikudvöl á Hellisheiði og á Útilífsskóla skáta á Úlfljótsvatni.“

Aðeins takmarkaður fjöldi getur tekið þátt í Vetraráskorun Crean hverju sinni og í ár eru 19 þátttakendur frá Íslandi og eru þau fædd 1999 og 2000. Í hópnum eru 14 skátar frá nokkrum skátafélögum og 5 félagar frá ungmennasveitum Landsbjargar. Frá Írlandi koma svo um 20 þátttakendur en nánari upplýsingar er að finna á vefnum www.skatamal.is og þar er einnig að finna fjölda mynda úr þessari ævintýralegu áskorun.