Skattadagurinn Fjármálaráðherra vill stefna að lækkun tekjuskatts.
Skattadagurinn Fjármálaráðherra vill stefna að lækkun tekjuskatts. — Morgunblaðið/Þórður
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að tímabært sé að huga að breytingum á tekjuskatti einstaklinga og stefna að skattalækkunum hjá þeim, fækka skattþrepum og skoða samspil tekjuskattskerfisins við bótakerfið. Þetta kom fram í ávarpi hans á skattadegi Deloitte, sem haldinn var í gær.

Bjarni segir í samtali við Morgunblaðið að þetta ár verði nýtt til þess að skoða þessi mál frekar. Hins vegar verði ákvarðanir um frekari skattkerfisbreytingar og skattalækkanir teknar þegar betur verði séð til lands í fjármálum ríkisins fyrir næsta ár. „Ég vonast til þess að hægt verði að gera þetta fyrr en síðar, en ég nefndi það oft í tengslum við breytingar á virðisaukaskattskerfunum og vörugjöldunum að við værum að styrkja þessi neysluskattskerfi, sérstaklega virðisaukaskattinn, meðal annars í þeim tilgangi að greiða brautina fyrir beinar lækkanir á tekjuskatti,“ segir Bjarni.

Hann segir að slíkar ákvarðanir verði að taka með hliðsjón af stöðu efnahagslífsins. „Ég hef verið talsmaður þess að við einföldum kerfið og horfum á samspil tekjuskattskerfisins og bótakerfanna,“ segir Bjarni og bætir við að núverandi kerfi leiði á köflum til þess að jaðarskattar verði yfir 50%. „Þá eru hvatarnir orðnir mjög rangir, þegar meira en önnur hver króna sem fólk vinnur sér inn fer í skattgreiðslur eða tapaðar bætur.“