[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ef 30% launahækkanir líkt og samið var um við lækna gengju yfir allan vinnumarkaðinn við endurnýjun kjarasamninga á næstu vikum og mánuðum yrðu afleiðingarnar alvarlegar í efnahagslífinu að mati hagfræðinga og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem rætt var við í gær.

Þórarinn Gunnar Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir alveg ljóst að svo mikil launahækkun eða 30% fyrir alla launþega, ,,myndi valda algerri kollsteypu“.

Að mati hans myndu fyrirtækin bregðast við stórauknum launakostnaði með tiltækum ráðum. Þau sem það gætu myndu reyna að velta hluta af kostnaðinum út í verðlag. Í öðru lagi gætu þau fyrirtæki sem hafa svigrúm tekið á sig hluta af kostnaðinum í gegnum minni hagnað og í þriðja lagi myndu svo fyrirtæki reyna að hagræða í rekstri og m.a. hægja á ráðningum eða segja upp fólki, enda væri vinnuaflið þá orðið mun dýrara en það var áður.

Myndi kalla á töluverða hækkun vaxta að öðru óbreyttu

„Þessi áhrif voru mjög skýr í kjölfar ríflegra launahækkana 2011,“ segir Þórarinn í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins um möguleg áhrif þessa. Hann bendir á að verðbólga og verðbólguvæntingar snarhækkuðu og náðu hámarki í um 6% seint á árinu 2011 og snemma árs 2012 en þá tók hún að hjaðna á ný með aðhaldssamri peningastefnu og segir Þórarinn greinilegt að bakslag hafi orðið í bata á vinnumarkaði.

Þetta bakslag á vinnumarkaði og almennt í efnahagsumsvifum verði einnig meira því peningastefnan þurfi að bregðast við með hærra vaxtastigi en ella hefði verið þörf á, þ.e. við þær aðstæður þar sem launahækkanir eru hóflegri.

Ljóst er að ef samið yrði um tuga prósenta hækkanir launa yfir allan vinnumarkaðinn myndi Seðlabankinn ljóslega þurfa að hækka stýrivexti til að vega á móti auknum verðbólguþrýstingi. Þórarinn segir um þetta að ef samið yrði um svo mikla launahækkun myndi það kalla á töluverða hækkun vaxta að öðru óbreyttu. Væri ekki gert ráð fyrir viðbrögðum peningastefnunnar yrðu því áhrifin á verðbólgu mun meiri.

Stöðnun eða jafnvel samdráttur

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að ef menn stæðu frammi fyrir almennum launahækkunum af þessari stærðargráðu, þá yrði uppsöfnuð verðbólga á samningstímanum sennilega áþekk þeim hækkunum, eða í kringum 30%.

„Þetta yrði mikið verðbólguhögg sem þessu fylgdi og þegar upp væri staðið hefði hún vafalítið étið upp þessar launahækkanir að fullu. Þetta er slíkt að umfangi að það myndi kalla á gengisfellingar vegna þess að samkeppnisstaða útflutningsatvinnugreina myndi snarversna,“ segir Þorsteinn og vísar m.a. til verðlagningar í ferðaþjónustunni sem hefði mjög slæm áhrif á komur erlendra ferðamanna til landsins. ,,Það gæti hægt verulega á vextinum og heilt yfir þá gæti svona mikilli verðbólgu og þungu höggi á hagkerfið einfaldlega fylgt alger stöðnun eða jafnvel samdráttur,“ segir hann.

Þorsteinn segir vert að hafa í huga að Seðlabankinn taldi að kjarasamningarnir 2011, sem fólu þó í sér miklum mun minni hækkanir en þessar hækkanir, hefðu verið talsvert umfram það svigrúm sem þá var til staðar og hefðu leitt af sér stöðnun í hagkerfinu. Störfum hætti að fjölga og efnahagsbatinn tafðist að mati bankans um töluvert skeið.

,,Hér erum við að tala um allt annað og miklu meira umfang sem gæti haft mjög slæmar afleiðingar fyrir hagkerfið ef svona launahækkun gengi yfir. Bæði fólk og fyrirtæki væru í verri stöðu á eftir,“ segir Þorsteinn.

Gengju launahækkanir upp á 30% yfir allan vinnumarkaðinn yrði af-leiðingin aukin verðbólga og gengið myndi falla mjög fljótlega í kjölfarið. Það er með öllu óvíst að kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði myndi aukast meira en hann gerði á síðasta ári í kjölfar kjarasamninganna í fyrra sem kváðu á um hóflegar nafnlaunahækkanir. Þetta er mat Ásgeirs Jónssonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands.

Ásgeir segir að opinberi og al-menni vinnumarkaðurinn séu ólíkir að því leyti að launahækkanir á op-inbera vinnumarkaðinum eins og til lækna auki ríkisútgjöldin en hækk-unum á almennum vinnumarkaði er svarað með verðhækkunum.

„Atvinnugreinum gengur misvel og geta þeirra til að greiða laun er breytileg eftir stöðu þeirra en almennt séð yfir allt hagkerfið þá geta laun ekki hækkað umfram framleiðni til lengri tíma nema með aukinni verðbólgu,“ segir hann.

Bjarnargreiði við heimili sem eru með verðtryggð lán

Launaumræðan á Íslandi hefur að miklu leyti snúist um hver hlutföllin eigi að vera á milli starfsstétta en sínum augum lítur hver silfrið í þeim efnum og hagfræðileg rök hafa átt takmarkað erindi inn í þá umræðu, að sögn Ásgeirs. Þannig myndi 30% almenn kauphækkun jafna aftur bilið við þá hópa sem hafa þegar samið um meiri hækkanir en skila litlum sem engum raunverulegum kjarabótum og vera mikill bjarnargreiði við mikinn þorra heimila sem hafa verðtryggð lán.

Einstakar atvinnugreinar standa misjafnlega og skila misjafnlega mikilli framleiðni og því verði alltaf til staðar launamunur á milli starfsstétta. Starfsfólk vinnur í fyrirtækjum við að skapa verðmæti sem verða að standa undir laununum.

,,Aðalvandinn er sá að framleiðni á Íslandi er mjög lág sem stendur kaupmætti fyrir þrifum. Gengi krónunnar féll verulega á árinu 2008 og íslensk laun eru nú lág í erlendum samanburði sem jafnframt hefur gefið landinu samkeppnishæfni og endurnýjaðan hagvöxt,“ segir Ásgeir.

„Hins vegar hefur launastigið aftur verið að hækka fremur hratt á síðustu árum og án þess að framleiðni hafi vaxið. Sú þróun er á góðri leið með að eyða samkeppnisforskotinu frá 2008 og mun skapa þrýsting á gengi krónunnar,“ segir hann.

„Launastigið á Íslandi snýst að miklu leyti um stöðu greiðslujafnaðar, en hækkun launa eykur eftirspurn sem aftur leiðir til aukins innflutnings sem aftur veikir gengið.

Utanríkisviðskiptin mynda þannig rammann í kringum launin hjá okkur að miklu leyti. Það er því alveg ljóst að mikil hækkun nafnlauna án framleiðniaukningar og umfram afrakstur útflutningsatvinnuveganna mun leiða til gengisveikingar. Þetta er ekkert flókið. Þrátt fyrir umræðu um launabil, jafnrétti launa og aðra félagslega þætti er ekki hægt að brjótast út fyrir þann veruleika að vinnuaflið er notað til að framleiða eitthvað sem skapar verðmæti og útflutningstekjur, sem verða að standa undir launum og neyslu á hverjum tíma,“ segir Ásgeir.