Nýtt tölublað Charlie Hebdo kemur út í dag. Venjulega hefur vikuritið verið gefið út í um 70 þúsund eintökum, en í dag verður upplagið þrjár milljónir og á 16 tungumálum.

Nýtt tölublað Charlie Hebdo kemur út í dag. Venjulega hefur vikuritið verið gefið út í um 70 þúsund eintökum, en í dag verður upplagið þrjár milljónir og á 16 tungumálum. Í dag er vika frá því að hryðjuverkamenn ruddust með alvæpni inn á ritstjórnarskrifstofur blaðsins. 12 lágu í valnum eftir árásina. Charlie Hebdo er þekkt fyrir óvægna háðsádeilu. Alls létust 17 í hryðjuverkunum í síðustu viku. Blaðinu var ekkert heilagt og oft var það ósmekklegt eins og þegar Christiane Taubira dómsmálaráðherra, sem fæddist í Frönsku Gíneu, var teiknuð sem api.

Skopteikningin á sér langa hefð í Frakklandi. Hún var notuð til að draga dár að Maríu Antoinette fyrir frönsku byltinguna. Þegar Charles Philipon dirfðist að teikna höfuð Loðvíks Filippusar eins og peru 1831 var hann dreginn fyrir dóm fyrir drottinsvik. Philipon var gáttaður. Höfuð konungsins væri perulaga og því skildi hann ekki að það teldist árás að einfalda útlínur þess.

Frakkar hafa ekki verið einir um að koma ádeilu á framfæri í gegnum skopteikningar. Fyrir einni öld kom út blað sem hét Molla Nasreddin. Blaðið kom út í Aserbaídsjan á árunum 1906 til 1930. Í blaðinu var hæðst að hræsni múslimaklerka, nýlendustefnu Bandaríkjanna og ríkja Evrópu gagnvart öðrum ríkjum heims og græðgi valdastéttarinnar heima í héraði. Um leið var hvatt til vestrænna umbóta, sérstaklega í menntamálum, og farið fram á jafnrétti kvenna. Slíkur málflutningur gat verið hættulegur í múslimaríki í upphafi 20. aldar. Samkvæmt frásögn um blaðið í New York Review of Books var iðulega veist að starfsmönnum blaðsins og ráðist á ritstjórnarskrifstofur þess. Átti Jalil Mammadguluzadeh, sem var ritstjóri blaðsins og skrifaði í það, oftar en einu sinni fótum fjör að launa þegar reiður múgur réðst gegn blaðinu út af efni þess. Blaðið var hins vegar vinsælt og náði talsverðri útbreiðslu í múslimaheiminum, allt frá Marokkó til Indlands.