Tryggvi Þórhallsson fæddist 8. janúar 1936. Hann lést 1. janúar 2015. Útför Tryggva fór fram 12. janúar 2015.

Tryggvi Þórhallsson var lýðræðisjafnaðarmaður, sósíaldemókrati, í besta skilningi þess orðs. Hann var vel meðvitaður um merkingu þess og trúr þeirri sannfæringu að fólki farnaðist best í samfélagi jafnaðarmanna.

Á árunum 1975-1995 var Tryggvi afar virkur í innra starfi alþýðuflokksfélaganna í Reykjavík. Þrátt fyrir langan vinnudag og mikið annríki við sístækkandi fyrirtæki þeirra hjóna, þá fylgdist hann grannt með og lét sig varða stjórnmál líðandi stundar. Hann var alltaf einarður í skoðunum, „höbbðingjadjarfur“ og hreinskilinn, og sagði mönnum óhikað jafnt löst sem kost í hverju máli. Öllum í Alþýðuflokknum þótti mikill fengur í liðsinni Tryggva og forystufólk flokksins sótti eftir og lét sig varða álit hans.

Við Tryggvi vorum rafvirkjar og um skeið lágu leiðir okkar saman á því sviði. Tryggvi hafði ríkan faglegan metnað sem rafvirki og var frumkvöðull á því sviði.

Vegna framkvæmda við álverið á Grundartanga tóku nokkrir rafvirkjameistarar sig saman og stofnuðu fyrirtækið Orkuvirki. Tryggvi sagði að sér þætti svo aumt fyrir Íslendinga þegar stórverkefni eru í boði að þurfa útlendinga til að bjóða í þau með okkur. „Ég skammast mín fyrir svona aumingjaskap,“ sagði hann og benti á að við ættum fullt af fagfólki, verkfræðinga, tæknifræðinga og rafvirkja.

Það þarf bara að stilla þeim saman. Það gerðist og úr varð fyrirtækið Orkuvirki, sem bauð í verkefnin á Grundartanga og fékk þau.

En tilboð í stórvirki voru ekki árviss verkefni. Orkuvirki hélt þó áfram í eigu fjölskyldu Tryggva og Kristínar konu hans. „Tryggvi sér um skúfjárnið, töngina og vírana en Kristín um pappírinn, pennann og aurana,“ sagði góður vinur eitt sinn.

Í þeirra höndum blómstraði fyrirtækið og hefur í dag algjöra yfirburði á sínu sviði. Stærstu kaupendur og stærstu seljendur raforku á Íslandi eru meðal viðkiptavina Orkuvirkis.

Tryggvi hafði ríka sjálfsvirðingu og var ærlegur í öllum viðskiptum. Það er enginn vafi á því að ríkur þáttur í velgengni Orkuvirkis er það traust sem Tryggvi ávann sér hjá viðskiptavinum sínum fyrir miklar gæðakröfur og vandvirkni sem hann viðhafði við verk sín.

Það höfðu margir reynslu af því, að orð Tryggva Þórhallssonar voru jafngild vottaðri undirskrift á pappír.

Að lokum vil ég segja frá atviki, sem er lýsandi um ærlegheit Tryggva. Fyrir um það bil 40 árum átti Tryggvi lægsta boð í töflur fyrir Reykjavíkurhöfn.

Í þeim voru stórir hníf-rofar, hryllilega dýrir. Svo vildi til að í Sölunefnd varnarliðseigna voru til fjórir hníf-rofar, ónotaðir að sjá, og kostuðu allir fjórir minna en einn rofi í íslenskri heildsölu. Tryggva var bent á þessa rofa og að enginn gæti séð eða vitað að þeir væru ekki nýir og fínir. „Það er ekki rétt,“ sagði Tryggvi, „ég veit það og það er nóg, og ég nota ekki þessa rofa, þó ég geti grætt á því.“

Já, Tryggvi Þórhallsson var maður mikilla mannkosta. Þessi orð mín eru skrifuð til að votta minningu hans einlæga virðingu og þakklæti. Aðstandendum hans votta ég innilega samúð okkar hjóna.

Birgir Dýrfjörð,

Kristín Viggósdóttir.