Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, segir að Ríkisútvarpið myndi nú sigla lygnan sjó hefðu aðhaldsaðgerðir sem samþykktar voru í hans tíð sem útvarpsstjóra fengið að ganga fram.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, segir að Ríkisútvarpið myndi nú sigla lygnan sjó hefðu aðhaldsaðgerðir sem samþykktar voru í hans tíð sem útvarpsstjóra fengið að ganga fram. Þess í stað hafi stjórn RÚV heykst á framkvæmd aðgerðanna og látið stóran hluta af þeirri hagræðingu ganga til baka. Afleiðingin sé sú að reksturinn sé nú í uppnámi með endurtekinni óvissu fyrir starfsmenn útvarpsins. Þetta kom fram í aðsendri grein sem Páll birti í Fréttablaðinu í gærmorgun.

Vandinn uppsafnaður

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, segir að stjórn hafi látið gera sjálfstæða úttekt á fjármálum RÚV þegar skipt var um yfirstjórn í félaginu nú í vor. Þar hafi komið fram að við umtalsverðan uppsafnaðan vanda væri að etja og ljóst væri að félagið myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Meðal annars séu gamlar lífeyrissjóðsskuldbindingar verulega íþyngjandi. Það sé úr þessari stöðu sem stjórn og nýir stjórnendur hafi verið að vinna.

Magnús Geir segir að það liggi fyrir að stjórn hafi veitt þáverandi útvarpsstjóra og framkvæmdastjórn umboð til að ljúka niðurskurðaraðgerðum sem þáverandi yfirstjórn hafi lagt til í nóvember 2013. Þær hagræðingaraðgerðir sem Páll tali um í grein sinni hafi því verið framkvæmdar undir stjórn Páls.

Hluti útvarpshússins leigður út

Magnús Geir segir að eftir samþykkt fjárlagafrumvarpsins nú fyrir jólin og vegna fyrirsjáanlegrar lækkunar útvarpsgjalds um næstu áramót sé nú verið að meta stöðuna og að líkindum verði í framhaldinu teknar ákvarðanir um næstu skref en slíkt sé gert í samráði við stjórnvöld. Eftir að ný framkvæmdastjórn tók til starfa síðastliðið vor hafi verið ráðist í fjölda hagræðingaaðgerða en meðal þeirra var að þjappa starfseminni saman í útvarpshúsinu og vonast sé til að innan skamms verði hluti hússins leigður út.

En stendur til að flytja alveg úr húsinu? „Líklegast er að RÚV verði áfram í húsinu að hluta en hlutar þess leigðir til annarrar starfsemi. Hins vegar er nú unnið að sölu lóðar sem mun bæta skuldastöðuna nokkuð,“ segir Magnús Geir. Vilji sé til þess að sem mest af fjármunum stofnunarinnar fari í dagskrá hennar frekar en yfirbyggingu og umbúðir.