Landsliðið Birkir Bjarnason á ferðinni í leiknum gegn Hollandi í haust.
Landsliðið Birkir Bjarnason á ferðinni í leiknum gegn Hollandi í haust. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, gæti verið á leið aftur í ítölsku A-deildina eftir að hafa leikið þar síðast með Sampdoria á síðustu leiktíð.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, gæti verið á leið aftur í ítölsku A-deildina eftir að hafa leikið þar síðast með Sampdoria á síðustu leiktíð. Empoli hefur náð samkomulagi við Pescara um að fá Birki en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er um lánssamning að ræða. Empoli hefur lengi fylgst með Birki en hann var einnig orðaður við liðið síðastliðið sumar eftir að hann sneri aftur til Pescara frá Sampdoria. Að lokum varð niðurstaðan sú að hann spilaði með Pescara í ítölsku B-deildinni. Birkir segir enn alls kostar óvíst að hann gangi til liðs við Empoli, sem er í 15. sæti A-deildarinnar, þó að hann sé kominn með samning í hendurnar.

„Ég er eiginlega ekkert byrjaður að hugsa um þetta ennþá. Mér skilst að félögin hafi náð saman og ég fékk bara tilboðið í dag [í gær],“ sagði Birkir, sem er sagður í sigti fleiri félaga, þar á meðal Hellas Verona þar sem Emil Hallfreðsson leikur. Birkir vildi ekkert gefa út á þann orðróm.

Birkir hefur leikið á Ítalíu frá árinu 2012, lengst af með Pescara en hann var hjá Sampdoria á síðustu leiktíð. Áður var hann leikmaður Standard Liege í Belgíu, og Viking og Bodö/Glimt í Noregi. Akureyringurinn hefur leikið alla mótsleiki Íslands frá ráðningu Lars Lagerbäcks og Heimis Hallgrímssonar og á alls að baki 36 A-landsleiki.