Samleikur „Sunna [Borg] og Saga [Geirdal Jónsdóttir] áttu mjög góðan samleik og sýndu áhorfendum alla leið inn í kviku persóna sinna á milli þess sem slegið var á léttari strengi og hláturtaugarnar kitlaðar svo um munaði.“
Samleikur „Sunna [Borg] og Saga [Geirdal Jónsdóttir] áttu mjög góðan samleik og sýndu áhorfendum alla leið inn í kviku persóna sinna á milli þess sem slegið var á léttari strengi og hláturtaugarnar kitlaðar svo um munaði.“ — Ljósmynd/Auðunn Níelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga Lísu og Lísu lætur engan ósnortinn og minnir á mikilvægi þess að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér jafnt sem öðrum og þora að standa með sjálfum sér.

Af leiklist

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Lísa og Lísa er þriðja sýningin á stuttum tíma úr smiðju Leikfélags Akureyrar sem ratar í leikferð suður til Reykjavíkur. Í haust kom til höfuðborgarinnar Grímuverðlaunasýningin Gullna hliðið og um liðna helgi, þegar sýningar á Lísu og Lísu hófust í Tjarnarbíói, hófust í öðru leikhúsi borgarinnar einnig sýningar á Öldinni okkar með Hundi í óskilum. Allar eiga uppsetningarnar það sameiginlegt að vera afbragðssýningar þótt ólíkar séu og ekki annað hægt en fagna því að hróður LA undir stjórn Ragnheiðar Skúladóttur fyrrverandi leikhússtjóra berist víðar, enda urðu allar sýningarnar til undir hennar listrænu forystu.

Írska verðlaunaleikritið Lísa og Lísa eftir Amy Conroy fjallar um tvær konur á sjötugsaldri sem búið hafa saman, hálfvegis í felum, í þrjá áratugi. Þær hafa ekki borið tilfinningar sínar á torg, en dag einn gleymir Lísa Konráðsdóttir sér og kyssir nöfnu sína Sveinsdóttur yfir innkaupakerrunni í Nettó á Akureyri. Ung kona verður vitni að þessu og biður þær í framhaldinu að segja sér sögu sína með það í huga að vinna úr efninu leiksýningu um líf þeirra. Í verkinu rifja nöfnurnar upp tilurð sýningarinnar samtímis því sem þær eru að leika hana fyrir áhorfendur. Þetta skapar skemmtilegan ramma utan um efnið.

Góðar sviðslausnir

Þýðing Karls Ágústs Úlfssonar er afar vel heppnuð og staðfærslan færir verkið mun nær áhorfendum en ella. Staðfærslan gengur nánast fullkomlega upp fyrir utan að áherslan á trúna hjá Lísu Sveins virkar sennilega trúverðugri í kaþólsku samfélagi.

Líkt og í Rýminu á Akureyri, þar sem verkið var fyrst sýnt hérlendis, sitja áhorfendur hringinn í kringum sviðið, en leikrýmið er afmarkað með húsgögnum líkt og leikurinn fari fram heima í stofu hjá konunum tveimur. Móeiður Helgadóttir á heiðurinn af bæði leikmynda- og búningahönnun sýningarinnar, en ljósahönnun var í höndum Þórodds Ingvarssonar.

Leikstjórinn Jón Gunnar á hrós skilið fyrir góðar sviðslausnir og hnökralausa sviðsumferð. Það getur verið mjög vandasamt að leika í allar fjórar áttir, en leikkonurnar leystu það með því að vera á nær stöðugri hreyfingu þær 90 mínútur sem verkið tekur í leik auk þess að gefa gott augnsamband við áhorfendur. Þótt leikrýmið sé ekki stórt var það notað á hugvitssamlegan hátt og þurfti ekki mikið til að láta stóla verða að ýmist innkaupakerrum eða bílsætum. Vel var til fundið að láta leikkonurnar bera ábyrgð á hljóðmyndinni með því að leika vínýlplötur á sviðinu.

Í byrjun sýningar er mikið lagt upp úr því að koma leikritinu í leikritinu til skila með því að undirstrika í ýktum leik að Lísurnar tvær hafi litla sem enga leik- og sviðsreynslu. Betur hefði farið á því að tóna þennan ofleik niður, enda fór sýningin fyrst á flug þegar nöfnurnar tvær gleymdu sér í frásögn sinni.

Fantagóður leikur

Með hlutverk Lísu Konráðsdóttur fer Sunna Borg og Lísu Sveinsdóttur leikur Saga Geirdal Jónsdóttir. Þær eru skemmtilega ólíkar, því meðan Lísa Konráðs er afar litríkur karakter, sprúðlandi af lífi og óhrædd við að koma til dyranna eins og hún er klædd, er Lísa Sveins meira inn í sig, feimin og hefur lítinn áhuga á að ganga fylktu liði undir regnbogalituðum fána. Þessi persónueinkenni eru undirstrikuð í búningum kvennana tveggja, en Sunna er í mun litríkari fötum meðan Saga heldur sig við jarðarlitina. Við kynnumst konunum tveimur sem þekkst hafa frá barnsaldri og í raun alltaf elskað hvor aðra þótt þær hafi ekki ruglað saman reytum sínum sem lífsförunautar fyrr en Lísa Sveins hefur jarðað eiginmann sinn. Í verkinu eru raktar ástæður þess að Lísurnar tvær ákveða loks að segja sögu sína og koma formlega út úr skápnum.

Sunna og Saga áttu mjög góðan samleik og sýndu áhorfendum alla leið inn í kviku persóna sinna á milli þess sem slegið var á léttari strengi og hláturtaugarnar kitlaðar svo um munaði. Sunna átti stórskemmtilega spretti sem Lísa Konráðs m.a. þegar hún rakti flókin ástarsambönd sín á yngri árum sem og þegar hún lét fjölda kodda í sófa heimilisins fara ómælt í taugarnar á sér. Saga kom sársauka Lísu Sveins mjög vel til skila þegar hún tjáði sektarkennd sína í garð eiginmanns síns heitins. Samleikur þeirra var óborganlegur í rifrildi þeirra um það hvor þeirra ætti að vera í farþegasætinu og hvor við stýrið.

Hér er á ferðinni einlæg og falleg sýning borin uppi af fantagóðum leik og vel skrifuðu handriti. Saga Lísu og Lísu lætur engan ósnortinn og minnir á mikilvægi þess að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér jafnt sem öðrum og þora að standa með sjálfum sér.