[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þ órey Rósa Stefánsdóttir , landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning til tveggja ára við norska úrvalsdeildarfélagið Vipers Kristiansand.

Þ órey Rósa Stefánsdóttir , landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning til tveggja ára við norska úrvalsdeildarfélagið Vipers Kristiansand. Þórey Rósa kom til Vipers frá Team Tvis Holstebro í Danmörku fyrir síðasta tímabil og gerði þá samning sem átti að renna út eftir yfirstandandi tímabil. Nú er ljóst að hún mun líklega leika með liðinu að minnsta kosti til ársins 2017: „Ég hef ekki enn alveg sýnt hvað í mér býr og vil leggja meira af mörkum,“ sagði Þórey Rósa, sem hefur skorað 39 mörk í 11 deildarleikjum á tímabilinu en Vipers er í 5. sæti af 12 liðum norsku úrvalsdeildarinnar.

Tveir Evrópumeistarar verða á ferðinni þegar karatemót Reykjavíkurleikanna fer fram á laugardaginn í íþróttamiðstöðinni Dalhúsum í Grafarvogi. Emma Lucraft frá Englandi, Evrópumeistari í kata í flokki 21 árs og yngri árið 2013, er önnur þeirra en hún er í 11. sæti á heimslista. Hin er Viktorija Rezajeva frá Lettlandi sem varð Evrópumeistari 2013 í kumite ungmenna í +59 kg flokki. Fjórir mjög sterkir erlendir keppendur til viðbótar taka þátt á mótinu.

G ylfi Þór Sigurðsson er búinn að spila síðustu leiki Swansea með verki að sögn Gary Monk , knattspyrnustjóra liðsins. Monk segir að Gylfi hafi ekki getað æft mikið síðustu vikur eftir að hann marðist á fæti eftir högg sem hann fékk í leik gegn West Ham fyrir jólin: „Gylfi hefur ekki æft mikið síðustu tvær vikurnar þar sem hann er marinn á fæti og hefur því ekki getað spilað af 100% getu. Hann hefur samt spilað vel en við verðum að vera vakandi fyrir því að hann hefur misst úr æfingar á annasamasta kaflanum á tímabilinu. Við vonumst til að fá hann 100% sem fyrst og vonandi getur hann byrjað að æfa á fullu frá og með þessum degi,“ sagði Monk.

Charlton, lið landsliðsmannsins Jóhanns Berg Guðmundssonar , hefur ráðið nýjan knattspyrnustjóra í stað Bob Peeters sem var látinn fara á sunnudaginn. Nýi stjórinn heitir Guy Luzon en hann stýrði síðast Standard Liege í Belgíu sem hafnaði í efsta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar fyrir úrslitakeppnina á síðustu leiktíð, og fékk aðeins á sig 17 mörk í 30 leikjum sem er belgískt met. Luzon er 39 ára gamall Ísraelsmaður og hann kom Ísrael í úrslitakeppni EM U21-landsliða árið 2013.

Enska knattspyrnukonan Helen Lynskey hefur samið við Aftureldingu og mun leika með liðinu í Pepsi-deild kvenna í sumar. Helen lék 12 leiki með Aftureldingu í Pepsi-deildinni síðasta sumar og skoraði 7 mörk auk þess sem hún lék einn bikarleik.