Danmörk Björn B. Sigurðarson er kominn til Kaupmannahafnar.
Danmörk Björn B. Sigurðarson er kominn til Kaupmannahafnar. — Morgunblaðið/Eggert
Danska knattspyrnuliðið FC Köbenhavn styrkti sóknarsveit sína í gær þegar það fékk Skagamanninn Björn Bergmann Sigurðarson að láni frá enska liðinu Wolves.

Danska knattspyrnuliðið FC Köbenhavn styrkti sóknarsveit sína í gær þegar það fékk Skagamanninn Björn Bergmann Sigurðarson að láni frá enska liðinu Wolves.

Björn Bergmann verður í láni hjá Kaupmannahafnarliðinu út leiktíðina en það mun svo hafa forkaupsrétt á framherjanum eftir tímabilið. Björn var í láni hjá norska úrvalsdeildarliðinu Molde á síðustu leiktíð þar sem hann varð bæði meistari og bikarmeistari með liðinu. Skagamaðurinn stóri og stæðilegi kom við sögu í 15 leikjum Molde í deildinni og skoraði í þeim þrjú mörk en hann missti töluvert úr vegna meiðsla.

„Með Birni kemur aukin samkeppni í stöðunum í framlínunni. Hann getur spilað sem fremsti maður og líka úti hægra megin,“ segir Ståle Solbakken, þjálfari FC Köbenhavn, á vef félagsins en Solbakken fékk Björn Bergmann til Wolves þegar hann var við stjórnvölinn hjá enska liðinu.

Hjá FC Köbenhavn hittir Björn Bergmann fyrir landsliðsmanninn Rúrik Gíslason en liðið er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Liðið er átta stigum á eftir Midtjylland en deildin hefst að loknu vetrarhléi þann 20. febrúar.

Björn er 23 ára gamall en hann hóf að leika með Lilleström í Noregi 18 ára gamall árið 2009. Þar spilaði hann í hálft fjórða ár en gekk til liðs við Wolves sumarið 2012. Hann lék 60 deildaleiki með Lilleström og hefur spilað 55 með Wolves, og síðan 15 með Molde á síðasta ári. Björn á að baki einn A-landsleik og sjö leiki með 21-árs landsliði Íslands.

gummih@mbl.is