Ólafur Óskar Lárusson myndlistarmaður fæddist á Selfossi 10. september 1951. Hann lést á Landspítalanum 4. desember 2014.

Útför Ólafs fór fram frá Dómkirkjunni 12. desember 2014.

Mér barst fréttin um lát Ólafs daginn eftir að hann lést. Það var ánægjulegt að hafa getað heimsótt Óla á Landspítalann þegar ég dvaldist síðast á Íslandi um miðjan nóvember. Ólafur Lárusson var fyrsti Íslendingurinn sem ég kynntist. Það hlýtur að hafa verið einhvern tímann á árinu 1975 í gegnum Douwe Jan Bakker. Douwe hafði verið að sýna í Frans Hals-safninu ásamt Kristjáni og Sigga Guðmundssonum og Hreini Friðfinnssyni.

Óli og ég leigðum saman hús í Haarlem þegar hann stundaði nám í Ateliers 63 skólanum. Síðar bættust við kona hans, Didda, dóttir þeirra Ásdís og dóttir Diddu, Svava. Ég fór oft með Óla til Amsterdam á Stedelijk safnið eða í De Appel, þar sem grundvöllur gjörningalistinnar var lagður, eða þá í Art and Project-galleríið sem flutti til Amsterdam alþjóðlega, framsækna listamannahópa. Þeir sem við hittum þar áttu eftir að sækja sýningarnar í Lóu.

Vorið 1976 heimsótti hópur útskriftarnema úr Myndlista- og handíðaskólanum Holland og þau litu inn heima hjá okkur í Haarlem. Allt í einu kynntist ég fjölda Íslendinga. Í þessum hóp kynntist ég Rúnu, sem seinna varð konan mín.

Óli kom því í kring að mín fyrsta einkasýning var í Gallerí SÚM sumarið 1976. Ég bjó hjá Óla og Diddu á Kirkjuteignum og við ferðuðumst um Reykjanes og Snæfellsnes. Á því sumri og síðar um haustið í Hollandi, settum við í gang Gallerí Lóu í litlu húsi sem ég leigði í Haarlem. Þá höfðu Rúrí, Helgi Þorgils, Kiddi Harðar og Rúna flutt inn til mín í stað Óla og hans fjölskyldu og saman starfræktum við galleríið. Húsið okkar var þá orðið þekkt sem Hótel Ísland. Síðar flutti galleríið í Bloemgracht í Amsterdam og þar sýndi Óli 1980.

Við sýndum saman í Gallerí SÚM 1978 ásamt Bigga Andrésar og Kidda Harðar. Það var þá sem Óli framkvæmdi sinn fræga, alræmda og róttæka glergöngugjörning. Hann málaði á stórar glerplötur með frumlitunum og að því loknu gekk hann í gegnum þær, braut þær með höfðinu. Mér er spurn hvort einhver gögn séu til um þetta, einn róttækasta gjörning á Íslandi. Það sem Óli var að vinna með þá voru hvöss og ágeng efni þar sem hann blandaði saman helgiathöfn og kynferðislegum þáttum. Mjög tilvistarlegt. Hann kynnti sér á þessum árum skrif Einars Pálssonar og hugmyndir hans um táknfræði í tengslum við heiðna siði á víkingaöldinni. Hann sýndi mér líka bók Einars Pálssonar „Icelandic in easy stages“ þar sem ég fékk mína fyrstu kennslu í íslensku og það var oft í gamni vitnað til þeirrar bókar í partíum.

1979 sýndum við aftur saman á Kjarvalsstöðum í hóp með Þór Vigfússyni og Magnúsi Pálssyni.

Óli hlýtur að hafa verið einn af efnilegustu og áhrifamestu listamönnum íslensku listasenunnar á áttunda og níunda áratugnum. Verk Óla báru með sér róttækt yfirbragð sem ég held að hafi ýtt við öðrum listamönnum og þetta ættu íslenskar listastofnanir að draga fram sem mikilsverðan þátt listasögunnar.

Ég vona að allir nákomnir Óla finni styrk á erfiðum tímum.

Kees Visser, Haarlem,

Cornelis Visser.