Númi Magnússon fæddist á Landspítalanum í Reykjavík hinn 8. apríl 1982. Hann lést á heimili sínu 2. janúar 2015.

Foreldrar hans eru Agnes Númadóttir og Magnús Ólafsson, en líffaðir hans er Sævar Þór Óskarsson. Systkini Núma eru Magnús Jón Magnússon, f. 20.1. 1985, Hildur Magnúsdóttir, f. 30.11. 1986, og Alexander Magnússon, f. 25. 9. 1991. Númi átti einn son, Aron Óla, f. 15.12. 2010.

Númi ólst upp á Ólafsfirði og bjó þar alla sína tíð, lengst af í Ægisgötu 26 en síðar í Mararbyggð 39. Hann var háseti um borð í Vilhelmi Þorsteinssyni EA 11.

Útför Núma fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 14. janúar 2015, kl. 14.

Útförinni verður útvarpað á Trölla 103.7 og á netvarpi trolla.is.

Fréttin um andlát Núma litla, eins og hann var kallaður til aðgreiningar frá afa Núma, kom eins og reiðarslag yfir okkur hjónin. Við vorum rétt komin til landsins og vorum stopp í Reykjavík.

Númi fæddist í Reykjavík en bjó um tíma á Grundarfirði og okkar fyrstu kynni voru úti á sjó þegar mamma hans og pabbi komu í heimsókn á Rif með Núma litla aðeins ellefu mánaða gamlan. Ég var þá á Rifi með netabát. Þetta var um kvöld og ég fór snemma að sofa og vissi ekki annað en þau hefðu farið heim um kvöldið. En um nóttina versnaði veðrið, svo ég ákvað að fara snemma út. Ég hélt síðan yfir Breiðafjörð og lagði netin norðarlega á flákanum.

Þegar því var lokið var kominn morgunmatur og þegar ég kem í borðsalinn situr mamma Núma litla með strákinn í fanginu og hann er að borða graut af bestu lyst. Þau höfðu þá ákveðið að sofa um borð og fara um morguninn og kenndu mér um að fara svona snemma út á sjó.

Þegar netin voru dregin daginn eftir voru í þeim 20 tonn og hefur veiðilánið fylgt Núma litla síðan.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Mortens)

Móðir hans flutti með hann fljótlega til Ólafsfjarðar og hafa þau búið þar síðan. Númi litli var sérstakur persónuleiki og alltaf reiðubúinn að hjálpa, t.d. með að moka snjó fyrir gamalt fólk á veturna eða færa því í soðið. Á sumrin stundaði hann oft veiði, bæði á laxi og silungi. Síminn hringir, það er Númi: Heyrðu afi, geturðu ekki náð í silung, ég er við brúna? Jú, jú, ég kem. Þegar ég er mættur á staðinn er hann með fullan haldapoka af silungi. Hvað á ég að gera við þetta allt? sagði ég. Blessaður gefðu bara einhverjum, svaraði hann. Þetta lýsir því hvernig Númi litli var; gefðu það bara.

Þegar hann var á pollaaldrinum átti hann það til að gleyma sér við vatnið og blotna í fæturna eða jafnvel allur. Þá var þrautalendingin að koma heim til ömmu og fá þurrkuð fötin, áður en hann fór heim til mömmu sinnar, til að losna við skammirnar.

Minningar mínar um Núma litla eru margar. Hann var yfirleitt bestur í öllu sem hann hann tók sér fyrir hendur, sérstaklega íþróttum, og í eitt skipti lenti hann í körfuboltaliði í Danmörku og reddaði liðinu öðru sæti í keppni vegna fjölda stiga, sem Númi litli skoraði.

Elsku Númi, þín verður sárt saknað. Ástarkveðja,

Afi Númi og amma Ása.

Eldri bróðir okkar, Númi, er fallinn frá og skilur hann eftir mikla sorg í hjarta okkar.

Þegar við vorum litlir var það Númi sem við litum mest upp til.

Auðvitað var hann duglegur við að koma sér í öll heimsins vandræði með tilheyrandi skömmum frá þeim sem fullorðnir voru. Það breytti þó ekki því að hann var ávallt sá besti í okkar augum. Hvort sem það var að spila fótbolta, körfubolta, renna sér á skíðum, klifra, veiða fisk eða tala við stelpur.

Hvað sem það var, þá var hann alltaf óttalaus til þess að framkvæma það.

Allt sem hann gerði var aðdáunarvert fyrir okkur, litlu bræður hans, sem sátum spenntir á hliðarlínunni.

Númi hafði góða nærveru, var aldrei í vondu skapi og það var alltaf stutt í brosið hans. Ef til vill varð eirðarleysið hans til þess að hann var oft að flýta sér.

Oft stoppaði hann stutt við og þótti erfitt að vera lengi á sama stað. En það var þessi drifkraftur sem var hans sterkasta persónueinkenni.

Aldrei höfum við séð jafnmikinn dýravin og náttúrubarn og Núma. Þegar hann var lítill virtist hann líka vera í vinnu hjá öllum eldri konum í bænum við að moka heimreiðina hjá þeim. Hann hélt síðan sambandinu við þær allt til dagsins í dag. Oft dró hann okkur bræðurna með og fengum við tilheyrandi mjólkurglas og kex með. Líklegast hefur honum þótt notalegt að umgangast þá sem eldri voru.

Frændsystkini hans áttu líka sérstakan stað í hjarta hans og vildi hann allt fyrir þau gera. Oftar en einu sinni var hann kallaður til í skírnarvottarhlutverkið og stóð hann sig vel í því.

Við vonum svo innilega að Númi sé núna að gera það sem hann elskaði mest. T.d. að róa kajak á Ólafsfjarðarvatni, stelast í einhverja á, fara í veiðitúra, hitta gott fólk eða fara í göngutúra með hundana sína.

Kæri bróðir, þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta okkar. Við munum ávallt elska þig, sakna þín og vona að þú fylgir okkur og styðjir alla tíð. Þínir bræður,

Magnús Jón og Alexander.

Elsku fallega hjartað mitt, þú skilur eftir stórt og djúpt sár í hjörtum okkar.

Elsku Númi, þú lést aldrei segja þér til og gerðir allt það sem þig langaði til að gera og það sem hentaði þér hverju sinni. Þeir sem þig þekktu vissu hversu mikið gull af manni þú varst, þú máttir ekkert aumt sjá, þá vildir þú hjálpa til ef þú gast. Þú varst líka einstaklega gjafmildur og þess fengu margir að njóta.

Mér þótti alltaf vænt um að fá þig í heimsókn og er svo ánægð hvað þið Aron voruð duglegir að koma til okkar á Dalvík. Við eigum öll eftir að sakna þín sárt. Minningarnar um þig, elsku bróðir, eru óteljandi margar, þú gafst lífinu svo sannarlega lit, gerðir ýmislegt sem okkur hinum dytti aldrei í hug. Líklegast hefðum við hin aldrei getað framkvæmt það sama og þú. Það var svo gaman að sitja og hlusta á þig segja frá allri þessari „vitleysu“ sem þú varst að brasa við.

Þær óteljandi minningar sem við eigum um Núma okkar eiga eftir að ylja hjörtum okkar í sorg og söknuði. Ást og friður.

Þín besta systir og fjölskylda,

Hildur.

Elsku Númi. Ég get ekki lýst því hvað mér finnst það sorglegt að vera að skrifa þessi kveðjuorð til þín. Ég hef þekkt þig alveg frá því þú fluttir hingað í Ólafsfjörð með mömmu þinni rétt um eins árs aldurinn. Ég man mest eftir gleðinni og atorkuseminni í þér, og jú kannski einhverjum prakkarastrikum. Það var alltaf mikið að gera hjá þér og snemma fórstu að fara með okkur afa þínum á sjóinn, líklega 8 eða 10 ára, þú komst út á millidekk í alltof stórum sjógalla og í enn stærri vettlingum og heimtaðir að fá að vera með í aðgerðinni og allir hlógu en þú hlustaðir ekkert á það. Ótrúlegur varstu með veiðistöngina og gerðir oftast lítið úr þeim sem veiddu við hlið þér. Ég man sérstaklega hvað þú, þá smápatti, gerðir mikið grín að mér þegar við vorum að veiða á bryggjunni á Reyðarfirði. Ég fékk einn krossfisk en þú nokkra alvörufiska, mikið hlóstu þá og fékk ég að heyra þetta annað slagið það sem eftir var.

Oftast veiddir þú miklu meira en þú þurftir og þá gafstu bara einhverjum af veiðinni í matinn og oft færðir þú mér silung, já því aðalatriðið var að veiða sem mest. Prakkarastrikin voru stundum alveg óvart eins og þegar þú kastaðir snjóboltanum yfir götuna í áttina að slökkvistöðinni og beint í brunaboðann, þá varstu fljótur að hlaupa, gleymi því aldrei.

En það var ekkert óvart þegar þú laumaðir nærri straumlausum reykskynjara aftast í eina eldhússkúffuna hjá mér, svo pípti hann annað slagið og var að gera mig brjálaðan því ég fann ekki hvaðan hljóðið kom. Hélt þú mundir kafna úr hlátri þegar ég bar þetta upp á þig og sagði þér hvað ég var pirraður og lengi að finna þetta.

Svo þegar þú hafðir aldur til varstu orðinn háseti hjá afa Núma, duglegur varstu og fljótur að læra vinnubrögðin en stundum þóttist þú kunna meira en þú kunnir eins og þegar þú fékkst að fara á léttbátinn með Hjölla minnir mig og þóttust þið kunna þetta allt. Stuttu eftir að þið fóruð frá skipshlið drapst á mótornum og þá heyrðist örvæntingarfullt kall í stöðinni „afi... afi“ og við þurftum að hífa til að sækja ykkur.

Elsku frændi minn, mikið varstu falleg sál, hjálpsamur og dýravinur mikill, ég veit að þú ert núna umvafinn englum í sumarlandinu góða, ég á eftir að sakna þín mikið í framtíðinni elsku Númi minn. Guð varðveiti þig.

Kveðja,

Einar frændi.

Nú hefur einn úr okkar hópi kvatt okkur. Það er sárt að hugsa til þess að við þurfum nú að kveðja vin okkar og bekkjarfélaga allt of snemma. Margar minningar renna í gegnum huga okkar frá æskuárunum í skólanum, skólaferðalögunum og öðrum stundum sem við áttum saman. Þar kemur fyrir brosandi, glaður, hjartahlýr og uppátækjasamur strákur, hann Númi okkar. Það var ekki alltaf lognmolla í kringum okkur. Það voru margir hressir og þar á meðal Númi sem hélt uppi stuðinu. Það var ekki alltaf vinsælt meðal kennaranna og kannski heldur ekki foreldranna. Við vorum samheldinn lítill bekkur sem átti margar góðar stundir saman.

Minning um ljúfan og góðan dreng mun lifa í hjörtum okkar.

Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu Núma.

Þínir bekkjarfélagar, árgangur '82,

Hanna Dögg Maronsdóttir.

Þá er komið að því að kveðja vin okkar og nágranna, Núma Magnússon. Númi flutti á móti okkur fyrir tæpum sjö árum. Þegar við fréttum að hann væri búinn að kaupa húsið hugsuðum við að nú byrjaði partístandið og lætin. En við höfðum rangt fyrir okkur. Betri nágranna var ekki hægt að fá. Númi var góður vinur, hann talaði tæpitungulaust og var ekkert að skafa af hlutunum. Númi vann alla sína ævi á sjó og honum fórst það vel úr hendi.

Hann lét okkur geyma lykil að húsinu sínu því mjög oft var hann búinn að týna lyklinum sem hann sjálfur var með. Númi var ekkert að stressa sig á því, hann vissi að varalykillinn var á öruggum stað. Við urðum þess aðnjótandi að margt gott var í kringum Núma og veitti það okkur einnig mikla gleði. Þar á meðal voru litli ljósgeislinn Aron Óli, Adda María fyrrverandi sambýliskona hans og hundurinn Dýfa. Númi tók samt ákvarðanir sem við vorum ekki alltaf sátt við en við virtum þær, þótt nokkra daga þyrfti til að kyngja þeim. Númi var nátthrafn og sneri hann oft sólarhringnum við, vakti á nóttunni og svaf á daginn. Vegna vinnu minnar þurfti ég oft að vinna á nóttunni. Kom það stundum fyrir að ég fékk sms frá Núma um hvenær ég væri væntanlegur heim og sagði ég honum það. Þegar ég kom síðan heim var Númi búinn að grilla og sátum við vinirnir, borðuðum og ræddum saman þegar flestir voru í fastasvefni. Númi var mikill dýravinur og vildi helst hafa fullt af dýrum í kringum sig en þar sem hann var sjómaður þá passaði það ekki alveg saman.

Hann fékk sér samt lítinn schäfer-hvolp og ætlaði að ala hann upp. Hann sagði okkur Rósu að það þýddi ekkert fyrir þessa hundategund að hafa marga húsbændur, hann yrði að eiga bara einn. Leið tíminn og einhverju síðar ákvað Númi að skila hundinum því hann sá ekki fram á að geta sinnt honum þegar sjómennskan kallaði.

Hann skilaði því hundinum. Nokkrum dögum seinna fengum við símtal frá Núma. Hann sagðist sakna litla hundsins alveg ægilega og spurði okkur hvort við gætum ekki bara alið hann upp saman. Númi sagðist ætla að vera með hundinn þegar hann yrði í landi en við myndum passa hann þegar hann yrði á sjó.

Hann hafði semsagt steingleymt að þessi hundategund ætti bara að hafa einn húsbónda. En svona var bara Númi. Elsku karlinn okkar, hafðu hjartans þakkir fyrir samfylgdina í gegnum tíðina. Elsku Agnes, Maggi, Magnús, Hildur, Alexander, Adda og Aron Óli, megi góður Guð veita ykkur styrk í sorg ykkar.

Þínir vinir úr Mararbyggð 10,

Sigurbjörn Þorgeirsson.