Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ef samið yrði við hópa launþega á öllum vinnumarkaðinum um 30% launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, líkt og samið var um við lækna, yrðu afleiðingarnar mjög alvarlegar í hagkerfinu.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ef samið yrði við hópa launþega á öllum vinnumarkaðinum um 30% launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, líkt og samið var um við lækna, yrðu afleiðingarnar mjög alvarlegar í hagkerfinu. Þetta er mat hagfræðinga og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Þórarinn Gunnar Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir alveg ljóst að svo mikil launahækkun, eða 30% fyrir alla launþega, ,,myndi valda algerri kollsteypu“.

Þau fyrirtæki sem það gætu myndu reyna að velta hluta kostnaðarins út í verðlag og fyrirtæki myndu einnig reyna að hagræða í rekstri, m.a. hægja á ráðningum starfsfólks og með uppsögnum. Ef samið yrði um svo mikla launahækkun kallaði það á töluverða hækkun vaxta að öðru óbreyttu.

„Þetta yrði mikið verðbólguhögg sem þessu fylgdi og þegar upp væri staðið hefði hún vafalítið étið upp þessar launahækkanir að fullu,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, segir að afleiðingin yrði aukin verðbólga og gengið myndi falla mjög fljótlega í kjölfarið. 30% almenn kauphækkun myndi jafna aftur bilið við þá hópa sem hafa þegar samið um meiri hækkanir en skila litlum sem engum raunverulegum kjarabótum og vera mikill bjarnargreiði við mikinn þorra heimila sem hafa verðtryggð lán.