Ólafur Helgason læknir fæddist á Akureyri 14.1. 1903. Foreldrar hans voru Helgi Guðmundsson, málarameistari á Akureyri og síðar í Reykjavík, og Guðný Ingunn Ólafsdóttir húsfreyja á Akureyri og í Reykjavík.

Ólafur Helgason læknir fæddist á Akureyri 14.1. 1903. Foreldrar hans voru Helgi Guðmundsson, málarameistari á Akureyri og síðar í Reykjavík, og Guðný Ingunn Ólafsdóttir húsfreyja á Akureyri og í Reykjavík.

Helgi var sonur Guðmundar Ólafssonar, bónda á Brekkum í Mýrdal, og k.h., Elínar Jónsdóttur húsfreyju þar og síðar í Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, en Guðný Ingunn var dóttir Ólafs Stefánssonar, bónda á Fjalli á Skeiðum, og k.h., Margrétar Ófeigsdóttur húsfreyju.

Eiginkona Ólafs var Kristín Þorvarðardóttir sem lést 1977 og eignuðust þau tvö börn, Ólaf Jón, framkvæmdastjóra og portretmálara, og Margréti sem lést á barnsaldri. Kjördóttir Ólafs var Halla læknaritari sem lést 1994.

Ólafur lauk stúdentsprófi frá MR 1922 og embættisprófi í læknisfræði frá HÍ 1937.

Ólafur stundaði framhaldsnám í skurðlækningum með þvagfæraskurðlækningar sem sérgrein á Grace Hospital og St. Boniface Hospital í Winnipeg og á Abbot Hospital í Minneapolis. Auk þess kynnti hann sér svæfingar með svonefndu glaðlofti. Hann fór síðan í fjölda kynnisferða til Lundúna, Norðurlandanna og Bandaríkjanna um árabil, annað til þriðja hvert ár.

Ólafur var starfandi læknir í Reykjavík frá 1928, var jafnframt aðstoðarmaður Matthíasar Einarssonar á Landakotsspítala á meðan Matthías starfaði og síðan sjálfur starfandi læknir við Landakotsspítala til æviloka.

Ólafur kynnti sér sérstaklega trúnaðarlæknisstörf í Noregi og í Danmörku á vegum vinnuveitendasambands Íslands. Hann var skólalæknir við Miðbæjarbarnaskólann og Melaskólann og trúnaðarlæknir ýmissa fyrirtækja í Reykjavík.

Þá má geta þess til gamans að hann var læknir tveggja forseta lýðveldisins, Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar.

Ólafur lést 1.11. 1970.