16. janúar 1947 Talsímasamband við Bandaríkin var opnað. Fyrsta samtalið var milli Emils Jónssonar samgönguráðherra og Thors Thors sendiherra í Washington. 16.
16. janúar 1947
Talsímasamband við Bandaríkin var opnað. Fyrsta samtalið var milli Emils Jónssonar samgönguráðherra og Thors Thors sendiherra í Washington.
16. janúar 1960
Selma Jónsdóttir listfræðingur varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands, fyrst kvenna. Ritgerðin fjallaði um útskurð frá Flatatungu í Skagafirði.
16. janúar 1963
Keppt var í lyftingum í fyrsta sinn hér á landi, í ÍR-húsinu við Túngötu í Reykjavík. Alþýðublaðið sagði engan vafa á því að þessi íþrótt ætti framtíð fyrir sér.
16. janúar 1995
Snjóflóð féll í Súðavík. Fjórtán fórust, þar af átta börn, en tólf var bjargað. Tólf ára drengur, Tomasz Lupinski, fannst lifandi tæpum sólarhring eftir flóðið. Miðbik þorpsins sópaðist burt í flóðinu sem féll snemma morguns, en nokkrum klukkustundum áður hafði hluti byggðarinnar verið rýmdur vegna snjóflóðahættu. Þetta var mannskæðasta snjóflóð hér á landi síðan 1919.
16. janúar 2003
Ríkissjóður seldi S-hópnum og þýskum banka 45,8% hlut í Búnaðarbankanum fyrir 11,9 milljarða króna. „Afskiptum ríkisins af bankastarfsemi lokið,“ sagði í Morgunblaðinu.Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson