Framhaldi kvikmyndarinnar Avatar, sem sló í gegn árið 2009 og er tekjuhæsta kvikmynd allra tíma, hefur verið frestað um eitt ár en áætlað er að hún komi út árið 2017. James Cameron, leikstjóri fyrstu myndarinnar, staðfesti þetta fyrir skemmstu en hann kveðst nú vinna að þremur framhaldsmyndum um verurnar bláu.
Fyrsta framhaldsmyndin átti að koma út í desember árið 2016 en Cameron segir að handritsgerðin hafi tafið fyrir mönnum. Hann segir þó að handritin verði að öllum líkindum tilbúin í lok þessa mánaðar og þá verði hægt að hefja kvikmyndatökur. Hann kveðst jafnframt ákveðinn í því að skrifa og taka myndirnar þrjár upp á sama tíma, það auðveldi samtvinnun kvikmyndanna. Stefnt er að því að taka þær upp í Nýja-Sjálandi.