Valero Rivera
Valero Rivera
Frá því að Katar var úthlutað heimsmeistaramótinu 2015, fram yfir Frakkland, Noreg og Pólland, í janúar fyrir fjórum árum hefur handknattleikssamband þjóðarinnar róið að því öllum árum að geta teflt fram samkeppnishæfu liði á mótinu, og rúmlega það.

Frá því að Katar var úthlutað heimsmeistaramótinu 2015, fram yfir Frakkland, Noreg og Pólland, í janúar fyrir fjórum árum hefur handknattleikssamband þjóðarinnar róið að því öllum árum að geta teflt fram samkeppnishæfu liði á mótinu, og rúmlega það. Stórt skref í þá átt var ráðning spænska þjálfarans Valeros Rivera.

„Katar getur treyst á einn besta þjálfara heimsins, sannkallaðan sérfræðing. Þetta er sterkt lið og ég er viss um að þeir komast í 8-liða úrslitin,“ sagði Henning Fritz, fyrrverandi markvörður Þjóðverja.

Rivera stýrði Barcelona um 20 ára skeið, árin 1983-2003, og landaði yfir 70 titlum með liðinu, þar á meðal sex Evrópumeistaratitlum. Hann tók við spænska landsliðinu árið 2008 og stýrði því til bronsverðlauna á HM 2011, og svo gullverðlaunanna á heimavelli fyrir tveimur árum, áður en kallið barst frá Katar.

„Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið að taka við landsliði Katar. Það hefðu verið mín stærstu mistök á ferlinum að segja nei við þessu,“ sagði Rivera, sem hefur unnið mikið í varnarleiknum og aganum hjá lærisveinum sínum.

Árangurinn undir stjórn Rivera talar sínu máli. Katar hefur aðeins tapað tveimur af tuttugu leikjum undir hans stjórn, þar af öðrum naumlega gegn ólympíu- og Evrópumeisturum Frakka í vináttulandsleik. Katar hefur enn ekki tapað mótsleik undir stjórn Spánverjans og varð Asíumeistari í febrúar í fyrra, auk þess að vinna til gullverðlauna á Asíuleikunum nú í vetur. Þar unnu Katarbúar sigur á Suður-Kóreu, 24:21, í Seúl en það var fyrsta tap Kóreumanna á heimavelli í 26 ár. sindris@mbl.is