Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Raungengi krónu á mælikvarða hlutfallslegs verðlags hefur ekki verið jafn hátt síðan í ágúst 2008.
Vísitala raungengis á þann mælikvarða stóð þannig í 84,2 stigum í desember, sem er 3,8% hækkun á einu ári, en var til samanburðar 87,7 stig í ágúst 2008. Hún hrundi svo í 64 stig í nóvember 2008 sem er lægsta gildi frá efnahagshruninu. Vísitala raungengis fór hæst í 118 stig fyrir hrunið.
Raungengi er annað en skráð nafngengi. Styrkist raungengið er verðlag, kaupmáttur og launakostnaður að hækka hraðar innanlands en erlendis, mælt í sömu mynt. Seðlabankinn skráir raungengið.
Hækkaði um 16,6%
Vísitala raungengis miðað við hlutfallslegan launakostnað er einnig á uppleið. Hún var 82,2 stig á fjórða ársfjórðungi í fyrra, borið saman við 70,5 stig á sama ársfjórðungi 2013, sem er 16,6% hækkun. Hún var til samanburðar 67,2 stig að meðaltali frá 4. ársfjórðungi 2008 til 4. ársfjórðungs 2014. Launakostnaður á Íslandi er því nú mun hærri en hann var að meðaltali 2008 til 2014. Vísitalan fór hæst í 111,6 stig á árunum fyrir hrunið og hefur hún því lækkað meira en vísitala hlutfallslegs verðlags.Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, hefur rannsakað þróun launakostnaðar á Íslandi og samspil viðskiptahalla og raungengis krónu.