Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Raungengi krónu á mælikvarða hlutfallslegs verðlags hefur ekki verið jafn hátt síðan í ágúst 2008.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Raungengi krónu á mælikvarða hlutfallslegs verðlags hefur ekki verið jafn hátt síðan í ágúst 2008.

Vísitala raungengis á þann mælikvarða stóð þannig í 84,2 stigum í desember, sem er 3,8% hækkun á einu ári, en var til samanburðar 87,7 stig í ágúst 2008. Hún hrundi svo í 64 stig í nóvember 2008 sem er lægsta gildi frá efnahagshruninu. Vísitala raungengis fór hæst í 118 stig fyrir hrunið.

Raungengi er annað en skráð nafngengi. Styrkist raungengið er verðlag, kaupmáttur og launakostnaður að hækka hraðar innanlands en erlendis, mælt í sömu mynt. Seðlabankinn skráir raungengið.

Hækkaði um 16,6%

Vísitala raungengis miðað við hlutfallslegan launakostnað er einnig á uppleið. Hún var 82,2 stig á fjórða ársfjórðungi í fyrra, borið saman við 70,5 stig á sama ársfjórðungi 2013, sem er 16,6% hækkun. Hún var til samanburðar 67,2 stig að meðaltali frá 4. ársfjórðungi 2008 til 4. ársfjórðungs 2014. Launakostnaður á Íslandi er því nú mun hærri en hann var að meðaltali 2008 til 2014. Vísitalan fór hæst í 111,6 stig á árunum fyrir hrunið og hefur hún því lækkað meira en vísitala hlutfallslegs verðlags.

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, hefur rannsakað þróun launakostnaðar á Íslandi og samspil viðskiptahalla og raungengis krónu.

Vísitalan sé um 90 stig

Hann segir æskilegt að vísitala hlutfallslegs launakostnaðar sé um 90 stig og horfir hann þar m.a. til viðskiptajöfnuðar landsins. Þegar meðalgildið hafi verið yfir 90 stig hafi nær alltaf verið viðskiptahalli á Íslandi. Jafnvægi vísitölunnar, með víðu óvissubili, megi á þann hátt meta í kringum 90 stig. Með því að vísitala hlutfallslegs launakostnaðar sé nú 82,2 stig sé vinnumarkaður ekki langt frá þessu jafnvægi. Hann segir innflutta verðhjöðnun undanfarið hafa vegið á móti launahækkunum. Haldi nafnlaunahækkanir áfram geti það ýtt undir verðbólgu.