Tilbúnir Guðjón Valur Sigurðsson og Sverre Jakobsson fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í miðborg Doha í gær. Þeir eru klárir í slaginn gegn Svíum í kvöld en leikur liðanna hefst klukkan 18 að íslenskum tíma.
Tilbúnir Guðjón Valur Sigurðsson og Sverre Jakobsson fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í miðborg Doha í gær. Þeir eru klárir í slaginn gegn Svíum í kvöld en leikur liðanna hefst klukkan 18 að íslenskum tíma. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM í Katar Ívar Benediktsson Kjartan Þorbjörnsson „Þetta er mitt síðasta stórmót, það er alveg á hreinu.

HM í Katar

Ívar Benediktsson

Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er mitt síðasta stórmót, það er alveg á hreinu. Ég ætla að hætta í vor með landsliðinu,“ segir varnarjaxlinn glaðbeitti, Sverre Andreas Jakobsson, aldursforseti íslenska landsliðsins, sem mætir Svíum í upphafsleik liðanna á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í kvöld.

„Þetta er kveðjumótið mitt. Það þarf mjög mikið að gerast til að svo verði ekki. Það er kominn tími á breytingar og að yngri leikmenn taki við keflinu. Þar fyrir utan held ég að landsliðsþjálfarinn hafi bara ekki áhuga á að velja mig aftur eftir ár þegar Evrópumeistaramótið fer fram,“ sagði Sverre og hló sínum kunna hlátri.

„Ég er líka sáttur við að hætta eftir þetta heimsmeistaramót sem fram fer í Katar. Vonandi verður það bara sem eftirminnilegast,“ segir Sverre sem hefur átt 10 ár í landsliðinu sem burðarás í varnarleiknum eftir að hann hóf að leika handknattleik af krafti á nýjan leik, en námið var í forgangi hjá honum nokkur ár á undan.

Gef allt sem á í leikina

„Ég er þakklátur fyrir að hafa verið og vera enn hluti af þessari heild sem myndar landsliðið. Ég mun gefa allt sem ég á í leikina á HM, sem að óbreyttu verða mínir síðustu landsleikir. Eftir HM taka við leikir í undankeppni EM og þá er best að aðrir og yngri leikmenn taki við mínu hlutverki,“ segir Sverre.

Í desember voru uppi vangaveltur um hvort Sverre gæti yfirhöfuð tekið þátt í heimsmeistaramótinu vegna anna við vinnu. Sverre segir það aldrei hafa staðið til af sinni hálfu. Það hafi meira snúist um hvort Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari teldi sig hafa þörf fyrir krafta Sverres. Þegar það hafi legið fyrir hafi önnur mál verið leyst.

Erfiðari ákvörðun núna

„Mér hefur aldrei reynst auðvelt að segja nei, en það var vissulega erfiðara fyrir mig að taka ákvörðun um að vera með að þessu sinni en í mörgum stórmótum undanfarin ár vegna þess að þá var ég atvinnumaður í handbolta. Nú er ég fluttur heim og farinn að gera fleira en spila handbolta.

Ég á alltaf sama góða stuðninginn heima hjá mér í minni frábæru konu. Þar að auki studdu vinnuveitendur mínir hjá Enor á Akureyri, þar sem ég er að vinna, mig fullkomlega frá fyrsta degi í að taka þátt í mótinu með félögum mínum í landsliðinu, þótt það hafi tekið sinn tíma að greiða úr ýmsum flækjum sem fylgdu því að taka þessa ákvörðun. Margir lögðust á árarnar með mér, auk Akureyrar handboltafélags, þar sem ég hef einnig skyldum að gegna sem leikmaður,“ segir Sverre.

„Síðan sneri þetta líka að landsliðsþjálfaranum, hvort hann ætlaði að velja mig eða ekki. Mér leið hins vegar alltaf vel gagnvart þessu verkefni og var og er viss um að ég væri tilbúinn til þess að taka á við það,“ segir Sverre Andreas Jakobsson, sem tekur nú þátt í sínu fjórða heimsmeistaramóti í handknattleik og leikur sinn 175. landsleik í kvöld.