„ Þetta er mikill heiður og það er æðislegt að fá þessa tilnefningu og maður er bara rétt að ná sér eftir síðustu verðlaunaafhendingu [Golden Globe],“ segir tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson, sem er tilefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything.
Jóhann, sem er búsettur í Berlín, segir að þetta sé frábær tilfinning. Sem kunnugt er hlaut hann Golden Globe-styttuna eftirsóttu fyrir tónlistina um sl. helgi. Þá hefur hann jafnframt verið tilnefndur til bresku Bafta-verðlaunanna.
„Maður er rosalega stoltur af þessari mynd og að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Jóhann og bætir við að það sé ánægjulegt að hafa fengið þessa viðurkenningu og tilnefningar. Jóhann er önnum kafinn maður, en þessa dagana vinnur hann að gerð tónlistar fyrir nýja kvikmynd sem er í leikstjórn Denis Villeneuve. 39