Aðrir riðlar
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
A-riðillinn getur vart talist sterkur í samanburði við riðil Íslands og líklega er A-riðillinn sá veikasti í keppninni. Þó er þar að finna ríkjandi heimsmeistara Spánverja sem eru nógu sterkir til þess að vinna keppnina ef þeir ná sér á strik. Spánn hefur verið eitt allra sterkasta lið heims á umliðnum árum og hafa nokkuð eftirsóknarvert sem aðrar handboltaþjóðir hafa ekki. Þeim gengur nefnilega nokkuð vel að spila við Frakka. Á móti kemur að þeim gengur illa á móti Dönum sem slógu þá til að mynda út á HM 2011 þegar Spánverjar virtust líklegir til afreka.
Slóvenar og Hvít-Rússar eru einnig í A-riðli. Öflug lið á góðum degi en gæti skort stöðugleika. Eru ólíkleg til að fara lengra en upp úr riðlinum og standa bestu liðum heims nokkuð að baki. Íslendingar voru með Hvít-Rússum í riðli í undankeppni EM en hörkutólið Sergei Rutenka leikur fyrir fósturjörðina eftir hliðarspor með slóvenska landsliðinu um hríð. Nokkuð er farið að draga af Rutenka í sókninni, miðað við hversu öflugur hann var þegar hann sló í gegn með Celje Lasko. Hann er nú samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Barcelona.
Tvær þjóðir frá Suður-Ameríku eru í riðlinum, Brasilía og Síle. Brasilíumenn hafa tekið framförum í handboltanum og vafalaust umhugað um að standa sig vel á heimavelli á Ólympíuleikunum. Þeir voru í riðli með Íslendingum á HM 2011 og voru ágætir en ekki eins sterkir og Evrópuþjóðirnar. Síle var með á HM 2011 og 2013 en á ýmislegt ólært í íþróttinni enda var landsliði þeirra ekki komið á koppinn fyrr en árið 1980.
Hve sterkir eru Katarbúar?
Þá eru ótaldir gestgjafarnir Katarar. Þeirra lið verður væntanlega sterkt. Hversu sterkt er hins vegar erfitt að segja til um. Liðið er spurningarmerki enda hafa leikmenn þess ekki beinlínis alist upp í sama sandkassa á sama leikskóla. Þeir koma úr nokkrum áttum og af ýmsu þjóðerni. Liðið er í öruggum höndum spænska þjálfarans Valeros Rivera, sem áður þjálfaði Barcelona og spænska landsliðið. Mark Katar verður að líkindum vel varið. Goran Stojanovic, fyrrverandi markvörður Gummersbach og Rhein-Neckar Löwen, spilar fyrir Katar sem og Danijel Saric, markvörður Barcelona, en hann hefur leikið landsleiki fyrir Bosníu. Liðið er vel samæft og hefur fengið mun meiri tíma til að æfa og leika vináttulandsleiki en flestar aðrar þjóðir.
Króatarnir með sigurhefð
Eitt af því athyglisverðasta við B-riðilinn er sú staðreynd að þar er að finna þrjár þjóðir Júgóslavíu sálugu. Þar er um að ræða Króatíu, Bosníu og Makedóníu. Króatarnir eru góðir og þar er sigurhefðin til staðar. Leikstjórnandinn Domagoj Duvnjak er almennt talinn á meðal snjöllustu leikmanna heims og Ivan Cupic er frábær hornamaður. Gamla kempan Igor Vori er ennþá í landsliðinu en ákveðin endurnýjun hefur átt sér stað í króatíska liðinu eftir að Ivano Balic og Blazenko Lackovic hættu.Bosnía og Makedónía standa grönnum sínum nokkuð að baki. Bosnía kom handboltaheiminum á óvart með því að vinna Ísland í undankeppninni. Bosníumenn hafa þó ekki mikla reynslu af stórmótunum í handboltanum og eru svolítið spurningarmerki. Makedónar hafa smíðað gott lið í kringum stjörnuleikmann sinn Kiril Lazarov. Líklega hafa ekki margir handboltamenn komið fram á sjónarsviðið sem skjóta betur á markið en Lazarov og hann mun skora ófá mörk í keppninni. Spurningin er hversu lengi hann getur haldið uppi sóknarleik liðsins, orðinn 34 ára, en Lazarov er með níu mörk að meðaltali í landsleikjum og geri aðrir betur.
Hvað gerir Patrekur?
Ef við bregðum okkur út fyrir Balkanskagann en þó ekki mjög langt þá er Austurríki í riðlinum. Liðinu stýrir Patrekur Jóhannesson og hefur eins og Dagur Sigurðsson áður náð fínum árangri með austurríska liðið. Austurríki er ekki auðveldur andstæðingur fyrir neitt lið enda leika landsliðsmennirnir ýmist í Þýskalandi eða Austurríki. Engu að síður getur Patrekur vel við unað ef liðið kemst upp úr riðlinum.Túnis átti um tíma hörkulið og þar var HM haldið árið 2005. Túnis átti kynslóð leikmanna þar sem voru leikmenn í mjög háum gæðaflokki eins og Heykel Megannem og Wissem Hmam. Þeir eru hins vegar farnir að eldast og ekki sama púður í þeim og áður. Leikmenn Túnis eru þó iðulega líkamlega sterkir og andstæðingar þeirra þurfa að vera tilbúnir í átök. Ekki er búist við miklu af Íran á mótinu og liðið gæti átt verulega erfitt uppdráttar í þessum riðli sem er að öðru leyti nokkuð þéttur.
Guðmundur og Dagur mætast
D-riðillinn er gríðarlega sterkur. Rétt eins og í riðli Íslands kom óvænt sending frá Evrópu inn í riðilinn. Í þessu tilfelli Þjóðverjar með Dag Sigurðsson sem nýjan þjálfara. Annar Íslendingur er í riðlinum því Guðmundur Guðmundsson er í brúnni hjá Dönum. Áhugavert verður að sjá þá takast á en Dagur bar lengi fyrirliðabandið undir stjórn Guðmundar hjá íslenska landsliðinu. Þeir ættu því að þekkja hvor annan býsna vel. Auk þess elska Danir að vinna Þjóðverja í íþróttum og sá leikur ætti að verða skemmtilegur.Danir eru fyrirfram sterkasta liðið í riðlinum enda hefur liðið burði til þess að vinna mótið. Í danska liðinu er fjöldinn allur af frambærilegum leikmönnum og breiddin er góð. Þannig hefur það verið í áraraðir. Á allra síðustu árum hafa hins vegar Mikkel Hansen og Niklas Landin stigið fram sem tveir af bestu leikmönnum heims í sinni stöðu. Fyrir vikið eru Danir ávallt taldir upp á meðal sigurstranglegustu liðanna á stórmótunum.
Sofandi risar
Pólverjar, Þjóðverjar og Rússar gætu þess vegna háð harða baráttu um næstu sæti í riðlinum. Bæði Þjóðverjar og Rússar eru sofandi risar í handboltanum. Þar er mikil hefð og þekking til staðar en síðustu árin hefur þessi lið vantað fleiri heimsklassaleikmenn til að standast bestu liðunum snúning.Pólland náði 6. sæti á EM í fyrra en árin á undan virtist liðið vera að gefa eftir. Pólska liðið toppaði fyrir nokkrum árum. Liðið komst alla leið í úrslit á HM 2007, fékk brons árið 2009 og tapaði í bronsleiknum á EM 2010 fyrir okkur Íslendingum. Handboltinn hefur verið í uppsveiflu í Póllandi síðasta áratuginn og spurning hvort Pólverjum takist að halda sér í hópi bestu þjóða heims.
Argentína gæti verið með ágætt lið en Argentínumenn hafa tvímælalaust tekið framförum rétt eins og Brasilíumenn. Ólíklegt má telja að liðið hrelli fjögur bestu liðin í riðlinum en þó er aldrei að vita. Argentína hafnaði í 10. sæti á Ólympíuleikunum í London og í 12. sæti á HM í Svíþjóð árið áður. Liðið telst því ekki í hópi slökustu liðanna á stórmótum. Hins vegar verður róðurinn erfiður fyrir Sádi-Arabíu. Gera má ráð fyrir að þeir tapi öllum sínum leikjum í þessum erfiða riðli.
A-, B- og D-riðlar
» Í A-riðli leika Spánn, Slóvenía, Hvíta-Rússland, Katar, Brasilía og Síle.
» Í B-riðli leika Króatía, Makedónía, Austurríki, Túnis, Bosnía og Íran.
» Lið úr A- og B-riðlum mætast innbyrðis í 16-liða úrslitum.
» Í D-riðli leika Danmörk, Pólland, Rússland, Þýskaland, Argentína og Sádi-Arabía.
» Liðin í D-riðli mæta liðunum úr riðli Íslands, C-riðlinum, í 16-liða úrslitum.