Keppnishallirnar
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Í fyrsta skipti síðan heimsmeistaramótið var haldið í Kumamoto í Japan 1997 fer HM fram nánast á sama blettinum. Þrjár keppnishallir í Doha í Katar munu hýsa alla leiki heimsmeistaramótsins. Eftir því sem næst verður komist hefur ekkert verið til sparað í Katar til þess að gera keppnishallirnar þrjár eins vel úr garði og hugsast getur. Sennilegt er að aldrei hafi leikir heimsmeistaramóts í handknattleik farið fram í glæsilegri keppnishöll en að þessu sinni.
Hins vegar er allt á huldu um hvort áhorfendur fjölmenni á leikina og nýti þá glæsilegu aðstöðu sem mun vera fyrir hendi. Fregnir af áhuga heimamanna eru á reiki og óljóst hversu margir Evrópubúar sækja Doha heim til þess að fylgjast með mótinu þar sem verðlag í landinu þykir frekar hátt enda er um að ræða auðugasta ríki heims sé miðað við höfðatöluna góðu.
Á heimavelli Al Sadd-liðsins
Íslenska landsliðið leikur fjóra af fimm leikjum sínum í riðlakeppninni í keppnishöllinni með langa nafninu, Ali Bin Hamad Al Attiya Arena. Aðeins leikurinn við Frakka fer fram í annarri höll, Duhail Sports hall.Ali Bin Hamad Al Attiya Arena er heimavöllur Al Sadd-liðsins. Íþróttahöllin rúmar 7.700 áhorfendur í sæti. Heildarflatarmál hennar er 54.000 fermetrar, þar af er gólfflötur þess rýmis sem hýsir íþróttavöllinn um 16.000 fermetrar. Í íþróttahöllinni eru tveir löglegir handboltavellir en auk handbolta er stundað blak í keppnishöllinni auk þess sem hún hýsir fimleikahöll og sérútbúinn badmintonsal.
Einnig er allur búnaður til þess að setja upp löglegan íshokkívöll og segja aðstandendur hallarinnar að aðeins taki tvo sólarhringa að breyta handboltasalnum í keppnisvöll fyrir íshokkí á heimsmælikvarða.
„Græna“ íþróttahöllin
Duhail Sports hall er 40.000 fermetra bygging. Þar leiða landslið Íslands og Frakklands saman hesta sína þriðjudaginn 20. janúar. Duhail Sports hall þykir afar fullkomin þar sem hugað er að flestum smáatriðum og eins þeim stærri en við byggingu hennar og hönnun var litið til umhverfisins enda hún sögð vera „græn“. Ekki síst á það við um frárennslismál og loftkælingu hússins án þess að farið verði nánar út í þá sálma hér.Alls rúmast 5.500 áhorfendur í sæti í þeim hluta þar sem keppt verður í handknattleik. Lið heimamanna mun hafa bækistöðvar í Duhail Sports hall til æfinga og keppni meðan heimsmeistaramótið stendur yfir auk þess sem bækistöðvar Handknattleikssambands Katar eru í höllinni.
Auk keppnissvæðis fyrir handbolta eru í höllinni tveir æfingavellir, 60 herbergja hótel, veitingastaðir og sundlaug til þess að slaka á milli leikja.
Stórbrotin fjölnota íþrótta- og sýningarhöll
Lusail Multipurpose Hall er stærsta og nýjasta keppnishöllin. Hún var vígð formlega í síðasta mánuði. Henni er ætlað í framtíðinni að gegna hlutverki fjölnota íþrótta- og sýningarhallar. Í Lusail Multipurpose Hall fara fram leikirnir um verðlaun á mótinu auk fjölda leikja í riðla- og milliriðlakeppninni. Alls rúmar hún 15.300 áhorfendur í sæti með uppsettum handboltavelli. Til skoðunar er hjá mótshöldurum heimsmeistaramótsins að koma fyrir kíkjum hjá þeim sætum sem lengst eru frá keppnisvellinum svo áhorfendur sem nánast eru uppi í rjáfri geti fylgst vel með því fram fer niðri á keppnisgólfinu.Golfflötur hússins er 45.000 fermetrar en alls er höllin 130.000 fermetrar. Ekki nóg með það heldur stendur hún á 350.000 fermetra svæði þar sem utandyra er keppnis- og æfingasvæði fyrir fjölda íþróttagreina auk stórra leiksvæða fyrir börn á öllum aldri.
Auk handbolta er reiknað með að Lusail Multipurpose Hall hýsi í framtíðinni kappleiki í blaki og körfuknattleik auk sýningarhalds af ýmsu tagi og tónleika.