„Þetta var besti dagur lífs míns,“ sagði Dragan Markovic, þjálfari bosníska handboltalandsliðsins, og vísaði til 15. júní á síðasta ári. Sá dagur er ógleymanlegur í huga margra íþróttaáhugamanna í Bosníu enda lék fótboltalandslið þjóðarinnar þá sinn fyrsta leik frá upphafi á HM, og handboltalandsliðinu tókst í fyrsta sinn frá upphafi að komast á stórmót með því að slá út Ísland afar óvænt. Eftir 33:32-sigur í Bosníu náðu Bosníumenn jafntefli í Reykjavík á deginum ógleymanlega. Markovic vonast til að halda áfram að skrifa kafla í íþróttasögu þjóðarinnar.
„Við höfðum vonast eftir þessu en við gátum ekki verið vissir fyrr en lokaflautið gall. Þessu fylgdu magnaðar tilfinningar,“ sagði Markovic og bætti við: „Við vitum ekki enn hvað við getum afrekað í okkar riðli en við munum gera okkar besta til að sýna að við eigum skilið að spila á HM.“ sindris@mbl.is