[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andstæðingar Kristján Jónsson kris@mbl.is Ísland er í sterkum riðli á HM í Katar og er helsta orsökin sú að liðið fór óvenjulega leið inn í keppnina. Ísland tekur sæti Barein í riðlinum en landslið Barein var í neðsta styrkleikaflokki.

Andstæðingar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ísland er í sterkum riðli á HM í Katar og er helsta orsökin sú að liðið fór óvenjulega leið inn í keppnina. Ísland tekur sæti Barein í riðlinum en landslið Barein var í neðsta styrkleikaflokki. Fyrir vikið er í raun ekkert lið úr neðsta styrkleikaflokki í riðlinum enda hafnaði Ísland í 5. sæti á EM fyrir ári og myndi flokkast með betri liðum í riðlinum.

Gamalkunnur andstæðingur af handboltavellinum bíður Íslendinga í fyrsta leik en það eru Svíar. Ísland hefur einu sinni unnið Svíþjóð í lokakeppni HM. Gerðist það í frægum leik árið 1964 sem oft hefur verið rifjaður upp. Aldrei er það þó of oft gert. Ísland sló Svíþjóð einnig út úr undankeppni HM 2007 í tveimur leikjum. Eftirminnilegur sigur í fyrri leiknum í Svíþjóð lagði grunninn að því. Í seinni tíð hefur Svíagrýlan missti vægi sitt enda unnu Íslendingar Svía aftur í forkeppni Ólympíuleikanna 2008 og aftur á Ólympíuleikunum í London árið 2012.

Þó sænska liðið hafi síðustu árin átt erfitt með að feta í fótspor gullaldarliðsins, sem var í fremstu röð í áratug sitt hvorum megin við aldamótin, þá hefur árangurinn þó ekki verið slakur. Liðið komst til að mynda í undanúrslit á heimavelli á HM 2011 og alla leið í úrslitaleikinn á ÓL í London árið eftir.

Á EM í fyrra höfnuðu Svíar í 7. sæti og fyrirfram má segja að þeir séu á svipuðu róli og við Íslendingar um þessar mundir. Í baklandi sænska liðsins eru draugar fortíðar. Staffan Olsson og Ola Lindgren þjálfa liðið og Mats Olsson þjálfar markverðina. Sænskir markverðir hafa oftar en ekki sýnt sínar bestu hliðar gegn Íslendingum. Markverðir liðsins í Katar eru þeir Mattias Andersson og Johan Sjöstrand sem leika með Evrópumeisturum Flensburg og Þýskalandsmeisturum Kiel.

Maður á mann vörn?

Næsti andstæðingur Íslands verður Alsír. Freistandi er að halda því fram að sá leikur verði sá „léttasti“ í riðlinum en leikir sem þessir hafa stundum reynst snúnir fyrir Íslendinga. Á HM í Kumamoto árið 1997 lék Ísland frábærlega og vann alla leiki nema tvo. Annar þeirra var einmitt jafnteflisleikur gegn Alsír.

Á níunda áratugnum átti Alsír nokkuð sprækt lið í handboltanum. Íslenska liðið undir stjórn Bogdans mætti því bæði á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og aftur í Seoul fjórum árum síðar. Alsíringar léku hálfgerða maður á mann vörn eins og Suður-Kórea gerði oft á tíðum. Ísland vann báða leikina, 19:15 og 22:16, en var í basli í báðum tilfellum.

Síðar hafa aðrar Afríkuþjóðir haft sig meira í frammi í handboltanum heldur en Alsír. Í liði Alsír eru nokkrir leikmenn sem leika í Frakklandi en aðrir leika með lítt þekktum félagsliðum.

Forföll hjá Frökkum

Þriðji andstæðingur Íslendinga í mótinu verða ríkjandi ólympíumeistarar Frakka. Síðasta áratuginn eða svo hafa Frakkar teflt fram óhemju sterku liði. Franska liðið kom í veg fyrir sigurmöguleika hjá frábæru liði Íslands á Ólympíuleikunum 2008 og á EM 2010. Ágætt er svo sem að mæta Frökkum snemma á stórmóti sem þessu. Þá hafa þeir stundum verið kærulausir en lítið fæst við þá ráðið þegar komið er í mikilvæga leiki.

Eitthvað hefur kvarnast úr sigursælu liði Frakka á síðustu árum. Varnarjaxlinn Didier Dinart dró sig til að mynda í hlé sem og Gille-bræðurnir. Markvörðurinn snjalli Thierry Omeyer er hins vegar enn við sama heygarðshornið og átti stóran þátt í sigri Frakka á Dönum í úrslitaleik EM í fyrra. Omeyer er fæddur árið 1976, árinu eldri en Jérome Fernandez sem er ennþá í franska landsliðinu. Hann er fæddur á því herrans ári 1977, líkt og Sverre Jakobsson.

Frakkar urðu fyrir áfalli á dögunum þegar í ljós kom að hornamaðurinn Luc Abalo væri ekki leikfær og fór ekki með til Katar. Heimsklassaleikmaður og hefur oft gert mikilvæg mörk fyrir Frakka á stórmótunum. Varnarleikur Frakka er iðulega ógnarsterkur en sóknarleikurinn síðri. Þar hefur Abalo verið liðinu mjög mikilvægur. Þegar þetta er skrifað er einnig óljóst hvort Daniel Narcisse geti beitt sér vegna meiðsla.

Þrátt fyrir forföll er franska liðið engu að síður geysilega öflugt og Nikola Karabatic er í fantaformi með stórliði Barcelona. Hann kemur til með að draga vagninn bæði í vörn og sókn eins og svo oft áður. Án Narcisse og Abalo þarf Karabatic að gera enn meira í sókninni en alla jafna.

Lítt reyndir Tékkar

Langt er um liðið síðan Íslendingar mættu Tékkum á HM eða áratugur. Liðin gerðu þá jafntefli í Túnis en það gerðu þau einnig á HM í Frakklandi 2001. Tékkar náðu sér ekki á strik á EM í Danmörku í fyrra. Liðið tapaði með tíu marka mun fyrir Patreki Jóhannessyni og hans mönnum í austurríska liðinu. Þá gerði liðið jafntefli við Makedóníu og tapaði fyrir Dönum. Tékkar komust þar af leiðandi ekki í milliriðil.

Tékkar eiga að geta gert betur en þeir gerðu í fyrra. Handknattleiksáhugamönnum er fullkunnugt um Filip Jicha sem leikið hefur fyrir Alfreð Gíslason hjá Kiel í mörg ár. Þegar honum hefur tekist hvað best upp hefur hann verið álitinn í hópi bestu leikmanna heims.

Ásamt Jicha hafa markverðirnir Martin Galia og Petre Stochl mikla reynslu en sá síðarnefndi leikur undir stjórn Dags Sigurðssonar hjá Füchse Berlín. Að öðru leyti eru leikmenn liðsins ekki mjög reyndir landsliðsmenn. Reynsluleysið gæti haft áhrif á liðið ef það lendir í spennuleikjum gegn reynslumiklum liðum eins og Íslandi, Svíþjóð og Frakklandi.

Tékkar eru nú með í lokakeppni HM í fyrsta skipti síðan í Þýskalandi árið 2007. Þó að handboltahefðin sé töluverð í Tékklandi þá státa Tékkar ekki af eins glæsilegum árangri og við Íslendingar þegar kemur að karlalandsliðinu. Þeir hafa til að mynda ekki unnið til verðlauna á stórmóti eins og okkar menn. Besti árangur þjóðanna á HM er þó svipaður. Ísland hefur best náð 5. sæti á HM en Tékkar 6. sæti. Rétt er þó að taka fram að Tékkóslóvakía vann fimm sinnum til verðlauna á HM á árunum 1954-1967.

350 landsleikja markvörður

Ísland mætir Egyptalandi aftur á HM í fyrsta skipti síðan á HM í Frakklandi árið 2001. Erfitt er að spá í spilin varðandi lið Egypta. Þeir áttu um tíma virkilega gott lið, nógu gott til þess að vinna bestu lið heims í lok síðustu aldar. Þeim tókst ekki að fylgja því nægilega vel eftir og næstu kynslóðir leikmanna voru ekki nærri því eins sterkar.

Leikmenn liðsins spila ekki með þekktum félögum en þeir eru leikreyndir á vettvangi landsliðsins. Enginn eins og markvörðurinn Mohamed Bakir sem leikið hefur 350 A-landsleiki en hann er á 41. aldursári. Skyttan Ahmed Elahmar hefur verið einn helsti markaskorari liðsins en hann hefur skorað yfir 900 mörk og leikið yfir 200 landsleiki. Hann leikur einmitt með félagsliði í Katar eins og annar leikmaður Egypta, Mohamed Shebib.

C-riðillinn
» Svíar eru fyrstu mótherjar Íslendinga en leikurinn hefst klukkan 18 í kvöld, föstudagskvöld. Þá er klukkan 21 í Katar.
» Alsírbúar mæta íslenska liðinu sunnudaginn 18. janúar klukkan 16.
» Frakkar eru þriðju mótherjar Íslands þriðjudaginn 20. janúar klukkan 18.
» Tékkland leikur gegn Íslandi í fjórðu og næstsíðustu umferð riðilsins fimmtudaginn 22. janúar klukkan 18.
» Egyptar eru síðustu andstæðingarnir í riðlakeppninni laugardaginn 24. janúar klukkan 16.