Sverrir fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1927. Hann lést á LSH við Hringbraut 7. janúar 2015.

Foreldrar hans voru Guðrún S. Guðlaugsdóttir, f. 1893, d. 1967, borgarfulltrúi, og Einar B. Kristjánsson, f. 1892, d. 1966, húsasmíðameistari. Sverrir var númer fimm í röðinni af sjö systkinum, en þau voru: Guðlaugur Maggi, f. 1921, d. 1977, lögfr.; Kristján Ingi, f. 1922, d. 1977, verkfr.; Axel Wilhelm, f. 1923, d. 2003, bókari; Einar Gunnar, f. 1926, d. 1972, lögfr.; Ingibjörg, f. 1934, d. 1999, skrifstofustúlka; Kristinn, f. 1938, d. 1992, lögfr.

Fyrri kona Sverris var Ingibjörg Albertsdóttir, f. 1929, d. 1980. Þau skildu.

Börn þeirra: 1) Ingibjörg Hrefna, f. 24. mars 1947, ferðafr. 2) Einar Albert, f. 27. okt. 1958, rafmagnstæknifr. Maki: Ásthildur Dóra Kristjánsdóttir, f. 27. maí 1958, tannfr. Börn: Sverrir, f. 7. nóv. 1978, hann á þrjú börn; Sigrún f. 20. des. 1984, hún á eitt barn.

3) Jónas Sturla, f. 24. jan. 1963, tölvuvísindamaður. Maki: Margrét H. Hansen, f. 12. júní 1963, fjármálastj. Börn: Þóra, f. 22. ág. 1983, Berglind, f. 16. ág. 1987, Níels Ingi, f. 3. júl. 1997.

Seinni kona Sverris er Margrét Þóroddsdóttir, f. 24. jan. 1937, fv. bankafulltrúi. Stjúpdætur Sverris (dætur Margrétar): 1) Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 23. maí 1958, tannfr. og matsveinn, sonur er Halldór, f. 27. maí 1980, hann á eitt barn.

2) Pia E. Hansson, f. 9. feb. 1964, MA í alþjóðasamsk. Maki: Þór Ingólfsson, f. 21. okt. 1964, grafískur hönnuður. Börn: Ingólfur, f. 3. mars 1991, Margrét, f. 10. feb. 1998, og Þórhildur, f. 17. ág. 1999.

Sverrir útskrifaðist frá MR 1949. Cand. odont. frá Háskóla Íslands 1955. Hann nam við Kaupmannahafnarháskóla 1966-67. Hann hlaut Nato-styrk til kynnisdvalar vegna flúorblöndunar drykkjarvatns við University of Alabama 1968. Hann var tannlæknir í Vestmannaeyjum frá 1955-73. Tannlæknir í Reykjavík frá 1973-2006 og hjá Skólatannlæknadeild Reykjavíkurborgar. Hafði forgöngu um að koma á flúorblöndun drykkjarvatns í Vestmannaeyjum 1971, en sá tækjabúnaður eyðilagðist í eldgosinu 1973. Hann var formaður stjórnar Félags ísl. tannlæknanema 1954. Formaður stjórnar TFÍ 1976-78 og meðstj. 1984-86.

Í samninganefnd TFÍ við TR 1974-86, í taxtanefnd TFÍ 1978-81, í samninganefnd við tannsmiði og aðstoðarfólk 1978-86. Í stjórn Dentalíu hf. 1973-93 og í stjórn Félags skólatannlækna í Reykjavík frá 1985 til 1991.

Í stjórn Golfklúbbs Vestmannaeyja 1955-71, formaður í 5 ár. Í stjórn Golfsambands Íslands 1973-1982.

Í stjórn Golfklúbbs Ness 1980. Formaður Landssambands eldri kylfinga 1986-88, í stjórn þess frá 1988. Hann hlaut gullmerki Golfklúbbs Vestmannaeyja, gullmerki ÍBV, gullmerki og gullkross GSÍ, silfurmerki Nesklúbbsins og gullmerki Landssambands eldri kylfinga. Hann var formaður og varaformaður í félaginu Akóges í Vestmannaeyjum og hefur sinnt ýmsum nefndarstörfum fyrir félagið bæði í Eyjum og í Reykjavík. Hann var heiðursfélagi í Akóges.

Útför hans fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 16. janúar 2015, kl. 15.

Við leiðarlok lífgöngu föður míns reikar hugurinn yfir farinn veg. Það er margt sem rifjast upp og væri ógjörningur að koma því öllu fyrir í stuttri minningargrein. Ef ég gæti talað við hann núna þá myndi ég vilja segja honum og þakka honum fyrir það góða uppeldi sem ég fékk. Hann var mér góður leiðbeinandi og ráðgjafi með nánast hvað sem var og innrætti okkur systkinunum góða siði og venjur. Hann var líka heppinn að fæðast inn í fjölskyldu þar sem margt var um manninn sem kallaði á mikla samvinnu í þeim hópi sem hefur orðið honum gott veganesti inn í framtíðina. Foreldrar hans voru mikið í félagsmálum og heimilislífið litaðist af þeim tengslum og áhuga sem foreldrar hans höfðu af þeim málum. Hann var sá fimmti í röðinni af sjö systkinum og nokkuð stutt á milli þeirra sumra. Þrátt fyrir stórt heimili gaf amma mín sér tíma í félagsmálin og pólitíkina sem varð til þess að börnin sjö lærðu fljótt að taka ábyrgð sem hefur elft sjálfstæði þeirra. Heimilið var í minni minningu í líkingu við járnbrautarstöð. Ég man að hann sagði mér eitt sinn frá því að þegar hann var ungur að honum þótti gott að fara stundum heim eftir skóla með vinum sínum Tomma og Jónasi því við þröskuldinn biðu mömmur þeirra eftir þeim með heitt kakó og smurt ostbrauð, en heima þurfti hann að sjá um sig sjálfur. Uppeldi föður míns hefur eflaust verið mjög mótandi á afskipti og áhuga hans á félagsmálum og hvað hann átti gott með að finna sáttaleiðir þegar á þurfti að halda. Réttlætiskenndin og heiðarleikinn einkenndi hann mjög og greiðviknin var auðsótt.

Honum var margt til lista lagt sem hann ástundaði í sínum frítíma. Einkum voru það skrif á sögum úr hinu daglega lífi sem honum tókst svo snilldarvel að snúa upp í skemmtisögur með smá tilfæringum á sannleikanum. Húmorinn og léttleikinn einkenndi hann mjög enda á hann að baki margar tækifærisræður sem oft er vitnað í og enn er verið að rifja upp og skemmta sér við. Það sem ég gæti hugsað mér að segja við hann núna ef ég gæti talað við hann: Pabbi minn, það vantar fleira fólk í samfélagið eins og þig með þína sterku réttlætiskennd, heiðarleika og ég tala nú ekki um léttu lundina þína sem hefur fengið mann til að veltast um af hlátri við nánast öll tækifæri. Þakka þér fyrir þennan langa tíma sem við fengum saman og allar góðu minningarnar sem ég mun ylja mér við um ókomna tíð.

Þín dóttir,

Ingibjörg Hrefna.

Í dag kveðjum við stjúpföður okkar og afa barnanna okkar, Sverri Einarsson. Það er ekki auðvelt að setja hugsanir á blað enda margs að minnast. Sverrir var lífskúnstner mikill, gleði- og ævintýramaður. Hann kunni þá list að segja góða sögu þannig að eftir væri tekið. Hann var ferðaglaður og fróðleiksfús, og hvergi sælli en með kylfu í hendi á golfvellinum. Hann var farsæll tannlæknir og góður félagi allra sem til þekktu. En í huga okkar systra var hann hins vegar fyrst og fremst Sverrir hennar mömmu, lífsförunauturinn hennar og félagi hinn besti í meira en þrjá áratugi. Alla tíð reyndist hann okkur ómetanleg stoð og stytta, og skipti þá engu hvort erindið væri lítið eða stórt. Börnin okkar rifja nú upp hvort í kapp við annað minningar um afa Sverri og við systurnar tökum undir. Við sjáum hann fyrir okkur taka létt dansspor á rósótta teppinu á Laugalæknum á gamlárskvöld, krýnandi heimsmeistarann í hinni árlegu „heimsmeistarakeppni“ í lúdó með medalíu úr tannagulli, segjandi gamansögur á kvöldmatartíma við borðstofuborðið eða sitjandi raulandi lagstúf með barnabarn á hnjánum. Þær minningar munu lifa um ókomna tíð. Hans verður sárt saknað.

Pia og Sigríður.

Afi var (augljóslega) töluvert eldri en ég en það breytti því ekki að mér þótti hann fyndnasti maður í heimi. Ég hef ekki notað þessa lýsingu fyrir neinn áður en það virðist passa afa betur en nokkrum öðrum. Hann var í alvöru talað hrókur alls fagnaðar og það var enginn jafn skemmtilegur sessunautur í matarboðum. Hann var þó meira en frábær sessunautur, hann var líka góðhjartaður og þar af leiðandi fórnarlamb játninga minna í barnæsku. Ein sú fyrsta var eflaust þegar ég tjáði honum, sjö ára gömul, að ég væri ekki góð í skák. Elsku afi minn, sem var mikill skákmaður sjálfur, kinkaði bara kolli og sagði að skák væri líka asnalegur leikur og það væri alveg hreint tilgangslaust að kunna að tefla. Þrátt fyrir að sannleiksgildi huggunarorðanna hafi ekki verið upp á hundrað er þetta örugglega eitt það fallegasta sem nokkur hefur sagt við mig enn þann dag í dag.

Margrét Erla Þórsdóttir.

Nú er fallinn frá hinn síðasti af sex bræðrum, sem stundum voru kallaðir Freyjugötubræður.

Sverrir Einarsson föðurbróðir minn var fimmta barn foreldra sinna, fallegur og yndislegur í fangi móður sinnar á gamalli fjölskyldumynd sem ég á. Í mínum huga var hann jafnan þessarar gerðar, ljúfur og manna skemmtilegastur. Amma hló oft þegar hún minntist ýmissa ummæla Sverris. Svo sem: „Frá því ég man eftir mér hefur mamma verið að leita að veskinu sínu.“ Freyjugötubræður voru samheldnir og fjörugir. Það var gaman að alast upp með svo sterkum frændgarði sem föðurfólkið mitt var. Eina dóttur misstu amma og afi barnunga og aðra eignuðust þau nokkru síðar. Mikil og góð samskipti voru milli þessa stóra systkinahóps. Sverrir var glaðsinna, músíkalskur og náttúrufyndinn án þess að undan sviði. En hann átti líka til mikla festu ef því var að skipta. Hann lærði tannlækningar og sinnti þeirri sérgrein sinni fram á áttræðisaldur. Hann starfaði lengi í Eyjum en eftir að gos flutti hann upp á land. Hann var tannlæknirinn minn í áratugi og oft var erfitt að vera með munninn fullan af bómull og geta ekki svarað öllum þeim gamansömu ummælum sem Sverrir lét falla meðan hann var að gera við tennur mínar. Og jafnan fékk ég svokallaðan Skarðsættarafslátt af tannlækningum hans. Sverrir var einkar vel ritfær maður, stundum las hann upphátt skemmtileg endurminningabrot úr æsku sinni. Þetta var gjarnan góðlátlegt grín með alvarlegum undirtóni. Hann greindur maður og athugull, hafði fengið gott uppeldi, vildi fólki vel og var vinsæll meðal félaga sinna hvar sem hann fór.

Í einkalífi var Sverrir gæfumaður. Hann var tvígiftur. Með fyrri konu sinni eignaðist hann þrjú myndarleg og vel gefin börn sem voru honum náin. Með seinni konu sinni fékk hann tvær stjúpdætur sem honum þótt vænt um. Barnabörnin voru gleðigjafar. Heimurinn væri betri ef fleiri menn væru eins og hann Sverrir frændi minn. Einu sinni móðgaðist ég þó svolítið við hann. Þá var ég ellefu ára og stundaði ballettnám. Í jólaboði vildi amma að ég sýndi list mína og tók ég því fagnandi. Hóf ég síðan að dansa við undirleik en áttaði mig ekki á að Sverrir frændi dansaði fast á hæla mér og hermdi eftir öllu sem ég gerði.

Skildi ég ekkert í hvað frændfólkið hló að danslist minni. Af þessu öllu saman tók einn af föðurbræðrum mínum kvikmynd. Þegar hún var sýnd síðar gat ég ekki að mér gert að hlæja með. Sverrir var svo kostulegur í dansinum og ég svo hátíðleg. Heimili ömmu og afa var stórt og hjartalagið enn stærra. Það fylgir því tregi að hugsa til þess að öll sú gleði og líka allskyns uppákomur skuli nú heyra svo rækilega fortíðinni til. Með fráfalli Sverris er skorið á streng sem áður var hægt að heyra óminn af.

Sá ómur var endurkast af hinu þróttmikla fjölskyldulífi sem batt okkur Sverri saman og allt hitt frændfólkið sem fylgdist hefur að fram á þennan dag. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég konu Sverris, börnum hans, stjúpbörnum og barnabörnum. Því fylgir sár söknuður að kveðja svo góðan dreng sem Sverrir Einarsson var.

Guðrún Guðlaugsdóttir.

Ég dag kveð ég kæran vin og mág, Sverri Einarsson, sem andaðist miðvikudaginn 7. janúar sl., orðinn 87 ára. Samfylgd okkar hefur varað í 72 ár. Ég kom inn í mannmarga og fjöruga fjölskyldu hans barnung. Systkinin voru sex bræður og ein systir. Tveir elstu bræðurnir voru þá báðir giftir og búnir að stofna eigin heimili. Frumburður okkar Axels, látins eiginmanns míns, og frumburður Sverris bróður hans og Ingibjargar Albertsdóttur, fyrri konu hans, voru stúlkubörn fædd á sama ári. Þetta tengdi fjölskyldur okkar, við höfðum heilmikil samskipti, við fórum út að keyra með stelpurnar í bíl tengdapabba og út að skemmta okkur eins og gengur með ungt fólk. Einnig fórum saman í sumarfrí og komum telpunum fyrir. Við Axel áttum þá franskan smábíl sem var svo kraftlaus að við urðum að bakka honum upp hæstu brekkurnar og fara yfir óbrúaðar ár. Ef bíllinn festist fór Sverrir út í vöðlum og ýtti þar til við komumst áfram. Þannig fórum við fjögur alla leið til Akureyrar og um Norðurland. Þetta var eftirminnilegt sumarfrí sem oft var talað um síðar meir. Svo liðu árin, Sverrir varð tannlæknir og hann og Inga settust að í Eyjum. Þar eignuðust þau tvo drengi, Einar Albert og Jónas. En vináttan var sú sama þó fjarlægðin drægi úr samfundum. Sverrir var einstaklega hnyttinn á friðsaman hátt og var oft fenginn til að halda ræður. Hann var skemmtilegur maður sem kom öllum í gott skap. Seinna kvæntist hann Sverrir Margréti Þóroddsdóttur, prýðilegri konu, sem varð góð vinkona mín. Sambúð þeirra varði í áratugi og var báðum til gæfu. Þau ferðuðust mikið og áttu þar sameiginlegt áhugamál. Margar golfferðir fóru þau t.d. víða um lönd. Sverrir reyndi að fá Axel með sér í golfið en það gekk ekki.

Aftur á móti spiluðu þeir bræður billjard af miklum krafti á veturna, stundum gleymdu þeir sér svo í billjardinum að það varð að hringja eftir þeim í matinn. Sverris er sárt saknað. Hann var góður, greindur og skemmtilegur maður. Ég votta konu hans, börnum, stjúpbörnum og barnabörnum mína innilegustu samúð.

Guðrún Erna (Edda)

Jónsdóttir.

Sverrir kom oft inn í líf okkar. Fyrstu kynnin voru er hann fimmtán ára lífsreyndur maður birtist í Ágústarskólanum, eldri en flest bekkjarsystkinanna. Hann hafði stundað nám í framreiðslulist á Borginni, en taldi hæfileika sína í frjórri jarðvegi með okkur í gaggó. Hann kunni að orða hlutina og orðheppinn. Atviki úr náminu lýsti hann svo að hann hefði misst steik á gólfið í veislu. Enginn varð þess var, svo hann þvoði matinn áður en hann bar hann aftur fram. Hann vakti hrifningu með söng og gítarleik, sem hann reyndar kunni ekki. Það vissum við ekki.

Svo fylgdist hópurinn að gegnum MR uns Sverrir innritaðist í tannlækninn með bekkjarsystkinunum Guðrúnu Tryggva og Jónasi Thor. Þar naut hann sín. Tíminn leið hratt í tannlæknastólnum hjá þeim á klínikinni efst í Háskólabyggingunni; skemmtisögur, fallegt útsýni til Snæfellsness – allt ókeypis.

Svo bárust fréttir af honum í Vestmannaeyjum. Hann var brautryðjandi við að blanda flúor í drykkjarvatn til að tryggja að tannlæknar hefðu náðuga daga. Hafði hann kynnt sér málið við háskólann í Alabama. Það mætti andstöðu í læknadeild, því miður, þannig að stutt var það framfaraspor. Þjóðin hóf flúorpilluát.

Samband við bekkjarfélaga slitnaði ekki þrátt fyrir fjarlægð. Við heimsóttum hann 1964 í Surtseyjargosinu þar sem hann tók veglega á móti, sýndi Eyjarnar og sagði sögur. Þar var hann vel metinn, orðkynngi hans naut sín og við sáum að hann hafði fundið frjóan jarðveg í Eyjum, sem reyndar launuðu honum illa orðheppnina, því í gosinu mikla fór húsið hans undir ösku skömmu eftir að hann hafði sett það í sölu. Átti hann fótum fjör að launa.

Enn urðum við samferðafólk og hittumst hér og þar. Við heimsóttum hann þar sem hann var við framhaldsnám í Kaupmannahöfn, þar átti fjölskyldan góða daga.

Sverrir var félagsmálamaður og valinn til formennsku og í framvarðasveit fjölda félaga, þar sem hæfileikar hans nutu sín. Hann varð formaður Tannlæknafélagsins 1977 og í mörgum nefndum. Í formannstíð hans var sett á stofn skrifstofa og ráðinn framkvæmdastjóri til félagsins.

Hafði Fjölritun Friede P. Briem annast bréfaskipti félagsins. Nú var stofan lögð niður og félaginu vandi á höndum eftir því sem Sverrir sagði. Síminn hringdi og Sverrir bað Sigríði um aðstoð. Hún tók því vel en spurði hvort þeim hefði ekki dottið í hug að opna skrifstofu. Hringdi Sverrir aftur og Sigríður beðin að ræða við stjórnina. Þetta var upphaf tveggja áratuga samstarfs við góðan hóp tannlækna. Þá urðu samskiptin við Sverri og Margréti enn meiri á fleiri sviðum.

Sverrir var ómissandi í bekkjarhófum. Þar, eins og hvarvetna, var honum fagnað vegna orðheppni. Birti yfir samkomunum er hann kom í ræðustól. Þau Margrét voru síðast með í Færeyjaferð. Þá var heldur dregið af honum og hann saknaði að geta lítt verið í golfi, en það hafði verið yndi hans.

Þannig var líf hans spaugi og dugnaði stráð. Nú sjáum við á bak vini. Tekur hann væntanlega til við að létta lífið í æðri heimi ef þar er ræðupúlt til.

Sigríður Dagbjartsdóttir,

Eggert Ásgeirsson.

Nú er Sverrir vinur minn tannlæknir fallinn frá. Við kynntumst snemma eftir að hann kom til Vestmannaeyja. Leiðir okkar hlutu að ná saman þó að ég hafi aldrei fengið tannpínu. Við vorum báðir veisluglaðir. Heimili Sverris var óvenju opið og fjölmargir sem nutu þar gestrisni. Hann var líka listelskur og las fagurbókmenntir. Hann kynnti fyrstur fyrir mér verk Guðbergs Bergssonar og sögur hans bar oft á góma þegar við náðum saman. Hitt vita ekki margir að Sverrir var orðhagur og skrifaði pistla bæði í bundnu og óbundnu máli. Hér er bútur úr grein um sjúkling:

Ég benti henni á að setjast í stólinn og bauðst um leið til að taka við pelsinum og hattinum en hún vildi helst fá að halda hvoru tveggja. Það tók hana nokkra stund að koma sér fyrir í stólnum í allri þessari „múnderingu“. Allt í einu fór að leka vatn úr krananum og þá er rétt að geta þess að á þessum tíma í Vestmannaeyjum var vatn eins konar munaðarvara. Það voru þess vegna ósköp eðlileg viðbrögð af minni hálfu að teygja mig eftir krananum til að skrúfa fyrir rennslið en ég hefði átt að sleppa bornum áður. Það kom sem sagt í ljós, rétt sisona, að tækin voru ekki jarðtengd. Ég fékk þess vegna alla orku Rafveitu Vestmannaeyja í gegnum mig. Ég reyndi að jafna mig og meta stöðuna. Þetta leit ekki vel út án skýringar. Gagnvart mönnunum á biðstofunni var það nokkuð augljóst að konan hafði slegið tannlækninn flatan í gólfið, hvers vegna var hins vegar ekki ljóst. Þeir stóðu báðir upp og sýndu á sér fararsnið en ég stundi upp einhverjum samhengislausum athugasemdum til skýringar en þeir voru engu nær.

Sverrir var líka áhugasamur um myndlist. Listamenn sem til Eyja komu voru því margir gestir hans. En Sverrir hafði líka yndi af útiveru. Undir lokin átti golfið hug hans allan. Bæði í Eyjum og svo í Reykjavík vann hann að félagsmálum á því sviði. Við fórum saman nokkur haust í skotveiðitúra í Öræfasveit, þar átti ég góðkunningja sem greiddu fyrir okkur. Svo mikið kappsmál urðu þessar ferðir okkur á tíma sem samgöngur voru stopular að við fórum með strandferðaskipi til Hornafjarðar úr Eyjum, eða leigðum flugvél til að flytja okkur að Fagurhólsmýri. Í einu tilfelli beint á túnið sem við ætluðum að veiða í. Flugmaðurinn kannaði um leið aðra möguleika á veiðisvæðinu. Sverrir sagði að hann hefði flogið svo lágt að hann hefði orðið að hoppa yfir girðingar. Já Sverrir minn kunni að koma fyrir sig orði. Hann átti þó einn jafningja, það var Stefán Jónsson fréttamaður. Hann kom með okkur í einn veiðitúr. Nóttina fyrir veiðarnar var lítið sofið. Svo söguglaðir urðu Stefán og Sverrir að það var fyrst þegar lýsa tók af degi að spunamennirnir fóru að slá af. Við sem hlustuðum héldum í hvert skipti sem frásögn lauk að nú væri ekki hægt að gera betur. Jú, enn hófst frásögn.

Áheyrendur voru fyrir löngu ornir svartir í framan og sá ofan í kok á þeim. En nú sátu veiðarnar fyrir og menn skriðu í skurðina. Það var jafn gaman að reyta og svíða gæsina, að ég tali ekki um veisluna sem eftir fylgdi.

Ættingjum votta ég samúð mína.

Páll Steingrímsson.

HINSTA KVEÐJA
Sannir golfarar deyja ekki, þeir tapa bara sveiflunni.
Þú varst góður, hjálpsamur, fyndinn og skemmtilegur. Takk fyrir allt.
„Adieu.“
Jónas Sturla.