Thelma Sigurgeirsdóttir fæddist á Öldugötu í Reykjavík 4. apríl 1934. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 2. janúar 2015.

Foreldrar Thelmu voru hjónin Sigurgeir Steindórsson bifreiðastjóri, f. á Melum, Trékyllisvík, 27.5. 1906, d. 2.5. 1969, og Dagmar Benediktsdóttir Bjarnason, f. á Ísafirði 25.10. 1909, d. 3.7. 1939, hún lést af barnsförum.

Alsystir Themu var Elsa Steinun Sigurgeirsdóttir, f. 29.6. 1932, d. 31.8. 1987.

Sigurgeir faðir Thelmu átti einnig synina Hilmar Þór Björnsson sem er látinn og Bjarna Ásmundsson.

Árið 1941 kvæntist Sigurgeir, faðir Thelmu, Vilhelmínu Soffíu Tómasdóttur, f. 21.9. 1908, d. 13.11. 1987, þau eignuðust Sigurgeir Vilhelm, f. 30.7. 1942, Halldór Melsteð, f. 20.10. 1944, d. 19.10. 1945, og Halldór Melsteð, f. 26.9. 1948.

Thelma giftist Gunnari Guðmundsyni, f, 25.1. 1932, d. 10.3. 2014, sonur Guðmundar Kr. Halldórssonar og Sigurlaugar Jósefínu Kristjánsdóttur, þau eru bæði látin.

Börn Thelmu og Gunnars: 1. Dagmar Sigurlaug, f. 12.3. 1952, gift Einari Óskarssyni. Börn þeirra a: andvana stúlka, f. 27.8. 1970, b: Ruth, f. 24.12. 1971, Gunnar, f. 7.7. 1976, Lovísa, f. 17.9. 1980. 2. Margrét Halldóra, f. 1.5. 1954, sjúkraliði, búsett í Danmörku, giftist Birni Ingþóri Hilmarssyni, þau skildu. Börn þeirra a. Hilmar Þór, f. 18.12. 1976, b. Pálmar Geir, f. 22.3. 1980. c. Gunnar Ingi, f. 26.12. 1981, d. Fannar Kári, f. 17.5. 1993. Faðir hans er Bergvin Fannar Jónsson. 3. Bryndís Jarþrúður, f. 13.1. 1958, gift Þorfinni Guðnasyni. Barn: Thelma Guðrún, f. 20.6. 1977. Faðir Jón Þorvaldur Bjarnason. 4. Sigurlaug Guðrún, f. 24.8. 1962, gift Jónasi Ragnari Halldórssyni. Börn: a. Guðni Rúnar, f. 3.8. 1984, b. Friðrik Fannar, f. 15.2. 1991. 5. Guðmundur Gunnar, f. 11.12. 1967, húsasmiður, kvæntur Elfu Rúnarsdóttur. Börn: a. Sveindís Ösp, f. 2.11. 1986, móðir Guðný Arna Sveinsdóttir. b: Sif, f. 9.8. 1988, c. Atli Gunnar, f. 8.10. 1993, d. Þórdís, f. 19.8. 1995. 6. Sigurgeir Steindór, f. 27.8. 1969. Börn: Kristófer Kári, f. 4.1. 2001, b. Arnór Elí, f. 21.1. 2003. Móðir þeirra Margrét Pálína Cassaro.

Barnabörn eru í dag 16, barnabarnabörn 12, afkomendur Thelmu og Gunnars eru samtals 34.

Útför Thelmu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 16. janúar 2015, kl. 13.

Það má alveg segja að tengdamóðir mín, Thelma Sigurgeirsdóttir, hafi verið hörkutól í góðlátlegri merkingu þessa orðs. Hún var dugnaðarforkur sem ól upp sex börn ásamt því að vinna fulla vinnu. Hún var ættmóðir hin mesta. Og eins má segja að hún hafi verið glæsileg og mannblendin með sitt glaðlega fas. Enda vakti hún athygli hvert sem hún fór fyrir hispurslausa framkomu og það sem mætti kalla skörugleika; hún var hress og opin manneskja með blik í augum.

Hún var líka gestrisin og höfðingi heim að sækja. Enda var mjög gestkvæmt á heimili þeirra hjóna. Og alltaf þegar einhvern bar að garði að Ásvallagötu 57 var umsvifalaust borið fram kaffi og með því. Þar voru málin krufin á mildan og hófsaman hátt, hvort sem það var pólitík, nýjasta dægurmálið eða Liverpool-leikurinn í gær – þá gat reyndar hitnað í kolunum – en rétt eins og Gunnar var Thelma óforbetranlegur Liverpool-aðdáandi. Í þessu litla eldhúsi í Vesturbænum átti maður margar gleðistundir. Jólaboðin þeirra voru eftirminnileg fyrir þær sakir að þar var sko ys og þys; sextán barnabörn á þönum út um alla ganga.

Seinna urðu barnabörnin hænd að Thelmu og Gunnari og voru tíðir gestir á heimili þeirra. Stundum breyttist Ásvallagatan í umferðarmiðstöð. Það má alveg segja að þau hafi átt gott líf. Þau voru kærleiksríkt fólk sem gaf frá sér og þau uppskáru það til baka.

Gunnar og Thelma voru samheldin hjón sem voru gift í tæp 60 ár og lifðu fyrir fjölskylduna – hún var ávallt í fyrirrúmi. Og þótt þau væru ólík var samt eins og þau væru sköpuð hvort fyrir annað. Þau bættu hvort annað upp eins og sagt er. Með þeim var hjónasvipur. Þau voru hvort annað. Það sá maður þegar Thelma veikist fyrir um 15 árum. Þá helgaði Gunnar sig veikindum Thelmu sinnar og annaðist hana af þolinmæði og góðlyndi. Thelma lifði eiginmann sinn í tæpa tíu mánuði og saknaði hans sárt. Oft talaði hún til hans um leið og hún strauk ljósmyndinni af honum, þá spurði hún hann kannski álits eða skammaðist yfir Liverpool-leik.

Og stundum hvíslaði hún að myndinni: „Bráðum kem ég til þín, Gunnar minn.“

Það var svo um aðventuna að Thelma fór að hafa orð á því að brátt færi hún til fundar við Gunnar. Hún virtist finna það á sér. Og það voru orð að sönnu. Hinn annan janúar lést Thelma á Borgarspítalanum eftir stutta innlögn. Hennar er sárt saknað. Blessuð sé minning hennar.

Þorfinnur Guðnason.

Elsku amma Thelma. Það var alltaf svo gott og gaman að vera í kringum þig, þú komst okkur alltaf í svo gott skap og alltaf var stutt í hláturinn. Við sóttum í það að koma í heimsókn til þín og afa því þar var svo gott að vera. Það var svo skemmtilegt þegar sögur voru sagðar frá liðnum tímum, þegar þú skammaðist í pabba þegar hann var nýbúinn í klippingu eða þegar þú sem einn dyggasti stuðningsmaður Liverpool varst að garga á sjónvarpið þegar liðinu gekk illa.

Þín verður sárt saknað en við vitum að þú ert komin á betri stað við hlið afa og vitum að þið fylgist með okkur og hjálpið okkur í gegnum góða og slæma tíma. Svona er lífið á tunnunni. Elskum þig alltaf og guð geymi þig.

Sveindís, Sif, Atli Gunnar og Þórdís.

Mín kæra amma Thelma er komin til afa. Það þýðir kveðjustund fyrir okkur fólkið hennar. Huggunin í sorg okkar felst í því að vita af ömmu hjá afa. Einnig sækjum við huggun í þær ótal minningar sem leita á okkur á þessari stundu.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt mikið og náið samband við ömmu Thelmu. Amma mín var ekki nema 37 ára gömul þegar ég fæddist og yngsta barn hennar af sex börnum aðeins 2 árum eldra en ég. Við þessar aðstæður datt ég í lukkupottinn. Mér fannst ég alltaf vera ein af börnunum hennar. Enda var það í eðli ömmu að vernda og stýra sinni hjörð, sem fjölgað hefur í jafnt og þétt í gegnum árin.

Amma var oft á tíðum ströng, annað var bara ekki hægt verandi með sex uppátækjasöm og kraftmikil börn. Og jú, mig líka. Hún þurfti nú oft að takast á við bernskubrek mín og frænda minna Sigurgeirs og Guðmundar í Dalselinu og Árbænum.

En alla tíð var amma kletturinn. Til hennar var alltaf hægt að leita. Hún var alltaf áhugasöm um hagi mína, barnanna minna og vina. Amma Thelma lá ekki á skoðunum sínum en í því fólst væntumþykja hennar í garð okkar.

Amma mín átti við veikindi að stríða síðastliðin fjórtán ár. Eftir að hafa fengið blóðtappa fengum við til baka aðeins breyttari útgáfu af ömmu Thelmu en alls ekki síðri.

Elsku amma mín, takk fyrir að vera þú. Takk fyrir að vera til staðar fyrir mig og mína. Takk fyrir allar ljúfu stundirnar, samtölin og hláturinn. Kysstu nú afa frá mér. Ég kveð þig með þínum yndislega frasa: „Svona er lífið á tunnunni.“

Ruth Einarsdóttir.

Kær mágkona mín og góð vinkona Thelma Sigurgeirsdóttir er látin. Skarð er fyrir skildi. Þann 10. mars síðastliðinn kvaddi bróðir minn Gunnar Guðmundsson þetta líf svo það má með sanni segja að stutt hafi verið á milli þeirra hjóna.

Thelma var mikil ættmóðir og dugleg með allan krakkaskarann. Ung voru þau þegar stofnað var til fjölskyldu og var ævistarfið að huga að afkomendum. Þrátt fyrir að vera með mannmargt heimili vann hún í mörg ár m.a. á Borgarspítalanum.

Vaktu, minn Jesús, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki, þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Hallgrímur Pétursson)

Á aðfangadag sl. heimsóttum við Magnús, sonur minn, hana og vorum við þakklát fyrir þá stund sem við áttum saman. Heimili Thelmu og Gunnars var ætíð opið gestum og gangandi og gott að geta komið í heimsókn hvenær sem var og ætíð var maður velkominn og mun ég sakna þeirra stunda. Við Magnús eigum Thelmu mikið að þakka og er það ómetanlegt sem hún gerði fyrir okkur á sínum tíma.

Nú er jarðvist elsku Thelmu minnar lokið, bið ég Hann sem öllu ræður að varðveita sálu hennar og leiða hana á nýju tilverustigi. Börnum, tengdabörnum og öllum afkomendum vottum við dýpstu samúð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Blessuð sé minning minnar kæru mágkonu.

Sigrún Guðmundsdóttir.