„Ástandið á liðinu er mjög gott og allir tilbúnir að taka þátt í fyrsta leiknum,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í gær vel innan við sólarhring áður flautað verður til fyrsta leiks Íslands á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Katar. Þá verður rétt vika síðan liðin mættust síðast í vináttulandsleik í Kristianstad í Svíþjóð. Heimamenn unnu öruggan sigur, 30:24.
Aron segir erfitt að meta hvað sá leikur vegi þungt þegar kemur að viðureigninni í Doha í kvöld sem hefst klukkan 18. „Hvorugt liðið lék út sínum ásum í Kristianstad fyrir viku auk þess sem fjórir sterkir leikmenn koma inn í liðið hjá okkur að þessu sinni, Guðjón Valur, Aron, Arnór og Alexander. Fólk fær að sjá allt annan leik á morgun. Ég skal lofa þér því,“ sagði Aron og glotti.
Verðum að spila á veikleikana
Spurður út í hið sterka sænska markvarðapar, Johan Sjöstrand og Matthias Andersson, sagði Aron að það væri engin launung að þeir væru afar sterkir og ynnu vel með vörninni.„Þeir hafa hinsvegar sína veikleika og á þá verðum við að spila,“ sagði Aron sem þverneitaði að láta nokkuð uppi um hverjir þeir veikleikar væru. „Það segi ég þér ekki núna,“ sagði Aron og hélt spilunum þétt að sér að vanda.
*Ítarlegt viðtal er við Aron í HM-blaðinu sem fylgir Morgunblaðinu í dag. iben@mbl.is