Einar Guðlaugsson
Einar Guðlaugsson
Þrátt fyrir að ráðamenn í Katar stæri sig af miklum íþróttaáhuga þjóðarinnar óttast margir að hallirnar verði hálftómar á leikjunum á HM.

Þrátt fyrir að ráðamenn í Katar stæri sig af miklum íþróttaáhuga þjóðarinnar óttast margir að hallirnar verði hálftómar á leikjunum á HM. Heimamenn eru hins vegar tilbúnir að ganga ansi langt til að láta líta út fyrir að stemningin sé góð á leikjum, ef marka má grein á vef New York Post.

Katar hefur sótt um að fá að halda stórmót í hinum ýmsu greinum undanfarin ár og meðal annars fengið í gegn að halda HM í handbolta, fótbolta og frjálsum íþróttum. NY Post segir frá því að þegar þetta auðuga arabaríki haldi íþróttamót sé fátækum verkamönnum boðið að koma, klappa og syngja á áhorfendapöllunum gegn daggreiðslu sem nemi rúmlega 1.000 íslenskum krónum. Þetta hafi til að mynda verið raunin þegar alþjóðlegt strandblaksmót var haldið í Doha í nóvember.

Á vef alþjóða blaksambandsins sagði að mótið hefði „laðað að sér fjöldann allan af áhorfendum“ en raunin var sú að rútur sóttu verkamenn í fátækrahverfi borgarinnar til að mæta á mótið gegn greiðslu. Blaðamaður AP-fréttaveitunnar slóst með í för og komst að því að menn fengju tímakaup upp á 130 krónur fyrir að fylgjast með íþróttum, og helst fylgja eftir sérstökum „klappstjóra“ á leikjunum.

Tuttugu boðið frá hverri þjóð

Hvort þetta er raunin á HM í handbolta er ekki víst en ljóst er að mótshaldarar hafa boðið 20 stuðningsmönnum frá hverri þátttökuþjóð eins og áður hefur komið fram, og greiða fyrir þá hótelgistingu og flug. HSÍ sá um að úthluta sætum Íslands og þau fengu bæði sjálfboðaliðar sem unnið hafa fyrir sambandið sem og nokkrir af dyggustu stuðningsmönnum strákanna okkar sem hafa fylgt þeim á mörg stórmót, en þar ber auðvitað helstan að nefna Einar Guðlaugsson og dætur hans. sindris@mbl.is