Forystumenn ríkisstjórnarinnar, sem og fleiri í framvarðsveit stjórnarmeirihlutans, hafa undirstrikað það að undanförnu að engan bilbug sé á þeim að finna varðandi það markmið að draga formlega til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Þar má segja að ráðamenn þjóðarinnar fylgi í raun leiðbeiningum frá sambandinu sjálfu.
Þannig sagði til að mynda Peter Stano, þáverandi talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í ágúst 2013, þar sem rætt var um stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í Evrópumálum, að ef ríki vildi ganga í sambandið þá annaðhvort sendi það inn umsókn eða héldi áfram umsóknarferlinu. Ef það vildi ekki ganga þar inn þá annaðhvort sækti ríkið ekki um eða stöðvaði ferlið.
Að sama skapi lýsti Evrópusambandið ítrekað yfir áhyggjum sínum á síðasta kjörtimabili af því að þáverandi ríkisstjórnarflokkar, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, væru ekki samstiga um að ganga í sambandið. Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess að Evrópusambandið lítur eðli málsins samkvæmt svo á að sæki ríki um inngöngu í sambandið sé markmiðið að ganga þar inn. Þar á bæ er einfaldlega ekkert til sem heitir að kanna hvað sé í boði. Enda hefur það alltaf legið fyrir hvað er á boðstólum.
Ólíkt síðustu ríkisstjórn er núverandi stjórn ekki klofin í afstöðu sinni til Evrópumálanna. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstiga um að vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Meirihluti Alþingis er á sömu skoðun og síðast en ekki sízt meirihluti þjóðarinnar samkvæmt öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í þeim efnum í meira en fimm ár. Með öðrum orðum er deginum ljósara að innganga í sambandið er ekki á dagskrá.
Þrátt fyrir það er Ísland enn formlega umsóknarríki að Evrópusambandinu. Meðan svo er felst í því sú yfirlýsing stjórnvalda til umheimsins að landið sé á leið í sambandið í fyrirsjáanlegri framtíð. Eða að það sé í það minnsta ekki útilokað. Að öðrum kosti væri umsóknin væntanlega dregin til baka. Það er því fullkomlega rökrétt markmið hjá ríkisstjórninni að binda enda á umsóknarferlið með því að draga umsóknina formlega til baka. Að sama skapi er fullkomlega órökrétt að viðhalda umsókninni.
Ekkert bendir til þess að það gæti skaðað hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu að draga umsóknina til baka, hafi einhverjir áhyggjur af því. Fái umsóknin hins vegar að halda sér gæti hún til að mynda þvælst fyrir gerð fríverzlunarsamninga í framtíðinni, þar sem slíkir samningar falla úr gildi við inngöngu í Evrópusambandið, og eins í norðurslóðamálum þar sem tilhneigingar hefur gætt til þess að líta á Ísland frekar sem framlengingu á sambandinu vegna umsóknarinnar en sjálfstæðan aðila í þeim málum. hjortur@mbl.is
Hjörtur J. Guðmundsson