Hrogn og lifur eru áberandi í fiskborðum fiskbúða um þessar mundir og eins og fyrri daginn þykja þau herramannsmatur á borðum eldra fólksins en Vilhjálmur Hafberg í Fiskbúðinni Hafberg í Gnoðarvogi í Reykjavík segir að yngra fólkið láti einnig til sín taka, þegar þetta góðgæti sé annars vegar. „Það er verið að reyna að venja þá yngri við hefðina og margir vilja smakka,“ segir hann.
Vilhjálmur segir að gömlu hefðirnar – skatan á Þorláksmessu, hrogn og lifur í janúar, harðfiskur, hvalur, hákarl og kúttmagi á þorranum og síðan rauðmaginn, vorboðinn ljúfi, – standi af sér aðra strauma á þessum árstíma, nema þá helst rauðmaginn, og fiskurinn sæki reyndar víða á. „Það er ótrúlegt hvað fólk keypti mikið af fiski til þess að hafa um jólin,“ segir hann. Fólk leyfi sér almennt meira um jól en á öðrum árstíma og svo hefst gjarnan heilsuátak eftir áramót. Vilhjálmur segir mataræðið bera þess merki. „Þá fer fólkið í fiskinn og það er gangur lífsins.“
steinthor@mbl.is