[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Borgarbókasafn Reykjavíkur og Menningarmiðstöðin Gerðuberg sameinuðust um áramót. Þá fékk Borgarbókasafnið nýtt og aukið hlutverk.

Baksvið Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Borgarbókasafn Reykjavíkur og Menningarmiðstöðin Gerðuberg sameinuðust um áramót. Þá fékk Borgarbókasafnið nýtt og aukið hlutverk. Aðalmarkmiðið með sameiningunni er að styrkja söfn Borgarbókasafnsins sem miðstöðvar menningar. Aukin áhersla verður lögð á viðburði og fræðslu í bókasöfnunum árið um kring.

Ný heimasíða Borgarbókasafnsins (www.borgarbokasafn.is) verður opnuð í dag. Um næstu helgi verður ritinu BÓKAÐU DAGINN dreift á öll heimili í Reykjavík. Ætlunin er að gefa blaðið út 4-5 sinnum á ári. Þar verður birt viðburðadagatal Borgarbókasafnsins. Eins er gefið út vikulegt rafrænt fréttabréf í tölvupósti. Eins er hægt að fylgjast með safninu á samfélagsmiðlum.

„Við sáum tækifæri í að sameina Borgarbókasafnið og Gerðuberg,“ sagði Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður. Hún sagði að margt sem gert hefði verið í Gerðubergi sem menningarmiðstöð hefði verið hluti af daglegum rekstri bókasafna í öðrum löndum. „Bókasöfnin hafa gengið í endurnýjun lífdaga víða um heim og fundið sér nýjan farveg. Þau hafa þróast í að verða fræðslu- og menningarstofnanir.“

Pálína sagði að sér, sem bókasafnsfræðingi, hefði þótt það sérstakt á sínum tíma að bókasafnið í Gerðubergi hefði verið aðskilið frá menningarmiðstöðinni í sama húsi. Þegar hugmyndin um að sameina Menningarmiðstöðina Gerðuberg og Borgarbókasafn Reykjavíkur kom upp sagði Pálína að bæði hún og Guðrún Dís Jónatansdóttir, fráfarandi forstöðumaður Gerðubergs, hefðu verið opnar fyrir henni. Í stað þess að sameina einungis í Breiðholti var sameiningin hugsuð fyrir Borgarbókasafnið um alla borg. Guðrún Dís er nýr deildarstjóri fræðslu-, viðburða- og miðlunardeildar Borgarbókasafnsins.

Áhersla á miðlun fræðslu

Pálína tók við starfi borgarbókavarðar 2012. Hún kvaðst frá upphafi hafa haft áhuga á að byggja upp fræðslu- og miðlunardeild innan safnsins. Fram fór stefnumótunarvinna og niðurstaðan varð sú að útfæra mætti starfsemi Gerðubergs miklu víðar í borginni.

Söfn Borgarbókasafnsins eru nú kölluð menningarhús og kennd við götur eða staðarheiti. Menningarhúsin eru í Grófinni, Gerðubergi, Spönginni, Kringlunni, Árbæ og Sólheimum. Menningarhúsið í Spöng er í nýju húsnæði og eins styðja þessa breytingu endurbætur á húsnæði Gerðubergs, fyrirhuguð stækkun í Grófinni, bygging nýs menningarhúss í Úlfarsárdal, sem verður samtengt skóla, sundlaug og íþróttamannvirkjum, og skóla- og almenningsbókasafn sem rekin eru saman í Norðlingaholti.

Pálína sagði að önnur starfsemi en hefðbundin útlán bóka, tímarita o.fl. verði ólík í menningarhúsunum enda húsnæði þeirra misjafnlega vel fallið til að hýsa hina ýmsu menningarviðburði. Í nýju menningarhúsi í Spöng stendur t.d. yfir myndlistarsýningin Frystikistan í fjörunni eftir Gunnhildi Þórðardóttur myndlistarmann.

„Við erum með leshringi, sýningar af ýmsu tagi, smiðjur, fræðsluerindi og uppákomur auk hefðbundinnar kjarnastarfsemi í menningarhúsunum. Nú verður þetta sett í fastari ramma,“ sagði Pálína.

500.000 bækur

Borgarbókasafnið er stærsta menningarstofnun Reykjavíkurborgar. Þar starfa 110 manns og er áætlað að um 695 þúsund gestir muni heimsækja safnið á þessu ári. Það eru um 2.000 manns á dag.

Borgarbókasafn Reykjavíkur hóf starfsemi 19. apríl 1923. Safnið geymir nú um hálfa milljón bóka og tímarita auk geisladiska, myndbanda og margmiðlunarefnis. Safnkosturinn er allur skráður í tölvukerfi safnsins, leitir.is. Í öllum bókasöfnunum eru „heitir reitir“, eða þráðlaust netsamband, fyrir þá sem vilja koma með eigin tölvur til að fara á netið.