Gömul kona bauð gleðilegt ár og brosti glaðlega til mín og gekk greitt á brettinu í World Class, svo blikkaði hún mig og sagði þetta: „Nú er besta ár lífsins framundan.“ Mér brá við eins og hún væri að segja einhverja vitleysu, en þá bætti hún við: „Meðan heilsan er í lagi þá á fátt að standa í vegi fyrir hamingjunni.“ Sennilega er þessi kona komin á níræðisaldur hlaðin orku og jákvæðni. Smástund varð mér hugsað til þess að alla daga er þvarg og rifrildi í fjölmiðlum og allt málað svart. Stundum finnst manni eftir umræðunni að dæma að allt sé á hverfandi hveli og ekkert sé á réttri leið í landinu. Eða stafar þessi umræða af því að „nördarnir“ eru ekki lengur með heimilisfang í heitu pottunum eins og var, en þar leystu þeir öll heimsins vandamál? Nú eru þeir aðalblaðamennirnir í kommentakerfunum eða í innhringiþáttum útvarpsstöðvanna, blaðamenn sem enginn ræður yfir eða rekur úr starfi. Og margir þessir „óhamingjusömu“ neikvæðu menn gjarnan kallaðir til sem virkir á samskiptamiðlunum til að segja álit sitt eða til stóru orðanna vitnað. Er þessi ærandi háværaumræða sem bylur alls staðar knúin fram af þeim svartsýnu og neikvæðu sem hafa orðið undir eða beðið persónulegan ósigur einhvers staðar? Eða er allt enn á niðurleið, er þjóðin enn stödd í dimmum dal eftir bankahrunið? Og hvergi ljósglætu að sjá? Fjölmiðlunin, jafn margslungin og hún er, er á þróunarbraut og margt nýtt að gerast sem gagnast almenningi, ef mannasiðir eru hafðir að leiðarljósi. Margt fólk kann af festu og kurteisi að koma fram og í rauninni þurfa rustamennirnir á því að halda að jákvætt fólk tjái hug sinn oftar og svari þeim. Þetta er ekki sagt til þess að þeir sem við erfiðleika búa komi ekki sinni skoðun á framfæri, það er mikilvægt því okkar litla samfélag verður að halda utan um þann veika og smáa. En sá reiði sem alltaf sér allt svart og ræðst persónulega á allt og alla er valdur að andrúmslofti sem drepur umræðunni á dreif og dregur úr lífsgleðinni eins og gamla konan minntist á við mig.
Er það rétt eða rangt? Er það rétt eða rangt að það sé viðurkennt um víða veröld að efnahagur Íslands sé að batna og margt hafi tekist vel í stjórnun landsins eftir hrunið og jafnvel betur en annars staðar? Kaupmáttur launafólks að aukast, færri án atvinnu. Verðbólga á núlli í fyrsta sinn frá þjóðarsáttarsamningunum. Atvinnulífið að rísa, olía að lækka í verði, fiskurinn í sjónum í vexti og verðið að hækka á afurðunum. Bændurnir hafa ekki undan að framleiða mjólk, kjöt og grænmeti. Ísland hálfgerð undraeyja miðað við ferðamannastrauminn og athyglina sem landið fær, gjaldeyrir streymir til landsins. Skuldir heimilanna að lækka, ekki hjá fáeinum heldur einhverjum eða mörgum í hverri fjölskyldu. Og forystumenn ríkisstjórnarinnar eygja lausn á að afnema gjaldeyrishöftin og að braskarasjóðirnir verði að borga skaðann þá eða gömlu bankarnir eða vogunarsjóðirnir með útgönguskatti. Skuldir ríkissjóðs lækki og nýr Landspítali rísi. Við skulum vanda okkur sem þjóð og forðast pyttina á leiðinni til bættra lífskjara, þeir eru margir. En mér sýnist að vel horfi í landinu okkar að segja ef þjóðin og hinar stóru hreyfingar fólksins, verkalýðshreyfingin og atvinnulífið, með samstöðu fylgja þessum árangri eftir. Stjórnmálamennirnir gera það ekki einir en góð þjóðarsátt er grundvöllur að árangri, um það vitnar sagan. Hvar er nú sá sem getur fyllt skarð Einars Odds Kristjánssonar og höggvið á hnúta?
Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.