— Tölvuteikning/ASK arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Seltjarnarnesbær hefur samþykkt teikningar af 34 íbúða fjölbýlishúsi á Hrólfsskálamel 1-5 á Seltjarnarnesi. Fyrirhugað fjölbýlishús verður norðan við ný fjölbýlishús á Hrólfsskálamel.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Seltjarnarnesbær hefur samþykkt teikningar af 34 íbúða fjölbýlishúsi á Hrólfsskálamel 1-5 á Seltjarnarnesi. Fyrirhugað fjölbýlishús verður norðan við ný fjölbýlishús á Hrólfsskálamel. Mýrarhúsaskóli er vestan við fyrirhugað fjölbýlishús.

Teikningar af Hrólfsskálamel 1-5 fengust hjá fasteignafélaginu Klasa.

Að sögn Ingva Jónassonar, framkvæmdastjóra Klasa, er fasteignafélagið Upphaf byggingaraðili hússins og eigandi verkefnisins.

Fram kemur á vef Upphafs að félagið var stofnað á miðju ári 2013 og er það í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus, þar sem helstu fjárfestar eru lífeyrissjóðir og fagfjárfestar. Upphaf kemur nú að nokkrum fasteignaverkefnum á höfuðborgarsvæðinu og má þar nefna endurbyggingu Skipholts 11-13 í Reykjavík.

Hverri íbúð fylgir bílastæði

Umsjónaraðili verkefnisins um byggingu Hrólfsskálamels 1-5 er fasteignaþróunarfélagið Klasi og eru ASK arkitektar aðalhönnuðir. Í húsinu verða 34 íbúðir og fylgir hverri íbúð bílastæði í sameiginlegri bílageymslu sem þegar er risin.

Við hönnunina er lögð áhersla á fjölbreytileika í stærð íbúða, hagkvæmni og að þær séu vandaðar. Á það að endurspeglast í efnisvali, hönnun rýma og góðri lofthæð íbúðanna, að sögn Ingva.

Algeng stærð á tveggja herbergja íbúðum að meðtöldum geymslum er um 70 fermetrar, þriggja herbergja íbúða um 110 fm og fjögurra herbergja íbúða um 140 fm. Á tveimur efstu hæðum hússins verða íbúðirnar stærri og að hluta til með geymslum í kjallara með beinu aðgengi úr bílageymslu.

Að sögn Ingva voru byggingaráformin nýlega samþykkt af bæjaryfirvöldum og er gert ráð fyrir að jarðvinna hefjist í næsta mánuði. Uppsteypa mun hefjast síðla vetrar en afhending íbúða er ráðgerð um mitt ár 2016, eða eftir 18 mánuði.

Upphaflega var þessi reitur skilgreindur sem Hrólfsskálamelur 1-7. Að sögn Þórðar Ó. Búasonar, skipulags- og byggingarfulltrúa á Seltjarnesi, skýrir hagræðing að því var breytt. „Þarna voru stigagangar númer 1, 3, 5 og 7. Það sér hver heilvita maður að með því að fækka stigagöngum og hafa íbúðir báðum megin spara menn marga fermetra,“ segir Þórður.

Hann segir að með uppbyggingu Hrólfsskálamels 1-5 sé búið að fullnýta byggingarmagnið á lóðinni Hrólfsskálamelur 1-18.