Í Vesturbæ
Andri Yrkill Valsson
yrkill@mbl.is
Það er líklega sárt að vera ÍR-ingur í dag. Tap liðsins gegn KR í Dominos-deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi mun eflaust svíða áfram fram yfir helgi. Eftir að hafa verið yfir allan leikinn og spilað á köflum glimrandi körfubolta þurftu ÍR-ingar að játa sig sigraða, en þó þurfti tvær framlengingar til, 113:110.
KR-ingar virkuðu hálfáhugalausir og kannski steig það þeim til höfuðs að andstæðingurinn var í fallsæti fyrir leikinn. Allavega var eitthvað sem var ekki í lagi í hausnum á mönnum, en það má ekki taka neitt af Breiðhyltingum sem mættu með kassann út frá fyrstu mínútu; óhræddir við taplausa Vesturbæinga.
ÍR-ingar voru agaðir í vörninni og neyddu meistarana í erfið skot sem geiguðu oftar en ekki í fyrri hálfleik. Á meðan voru Breiðhyltingar hreyfanlegir í sókninni og virtust alltaf finna lausar skyttur fyrir utan. Ef ekki, þá var einfaldlega bara keyrt á vörnina. Ekki flókið og verðskulduð sextán stiga forysta í hálfleik. Eins og við var að búast bjuggu KR-ingar sig undir áhlaup eftir hlé, en þeir bláklæddu stóðust það vel. Þristur frá Brynjari Þór tryggði KR framlengingu, en meistararnir komust ekki yfir í leiknum fyrr en í henni. Brynjar sjálfur viðurkenndi eftir leikinn að einfaldlega hefði verið um rán að ræða. Allavega er það rannsóknarefni.
ÍR-ingar hafa verið gríðarlega seinheppnir í vetur og þrátt fyrir að þeir spili oft vel detta hlutirnir ekki fyrir þá. Það virðist þó ekki vera skortur á sjálfstrausti í Breiðholtinu og menn hengja ekki haus, sem er vel. Þessi taphrina tekur þó eflaust á sinnið, þar sem yfirleitt er mjótt á munum. KR-ingar eru þó suddalega seigir og endurkoma þeirra í gær bar brag meistara. Það er erfitt að halda einhverju öðru fram.
KR – ÍR 113:110
DHL-höllin, Dominos-deild karla, fimmtudag 15. janúar 2015.Gangur leiksins: 2:6, 8:17, 12:24, 15:28 , 21:33, 28:40, 32:47, 39:55 , 47:60, 56:62, 65:65, 67:72 , 67:76, 72:78, 77:84 , 86:86 , 94:91, 99:99 , 106:104, 113:110 .
KR : Pavel Ermolinskij 24/18 fráköst/14 stoðsendingar, Helgi Már Magnússon 23/10 fráköst, Michael Craion 22/16 fráköst/3 varin skot, Brynjar Þór Björnsson 16/6 stolnir, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 15/8 fráköst, Finnur Atli Magnússon 10/8 fráköst, Björn Kristjánsson 3.
Fráköst : 36 í vörn, 25 í sókn.
ÍR : Matthías Orri Sigurðarson 29/12 fráköst/9 stoðsendingar, Sveinbjörn Claessen 26/8 fráköst, Trey Hampton 23/8 fráköst/3 varin skot, Kristján Pétur Andrésson 16/5 fráköst, Hamid Dicko 8, Ragnar Örn Bragason 4/6 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 4/5 fráköst.
Fráköst : 37 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar : Jón Guðmundsson, Georg Andersen, Gunnlaugur Briem.