Ferðaþjónusta fatlaðra Í upphafi voru þrír bílar sem sáu um aksturinn, en þeim fjölgaði hratt.
Ferðaþjónusta fatlaðra Í upphafi voru þrír bílar sem sáu um aksturinn, en þeim fjölgaði hratt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steindór Björnsson: "Þessir ungu menn voru allir bifreiðastjórar hjá Ferðaþjónustunni og ekki með neina gráðu frá neinum háskóla nema skóla lífsins og sitt eigið hyggjuvit og dugnað"

Útför Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík átti að fara fram í kyrrþey nú um áramótin á 35 ára afmæli hennar. En ekki fór það svo eins og fólk hefur tekið eftir. Ferðaþjónustan fæddist í Reykjavík um áramótin 1979-80. Foreldrar hennar voru Sjálfsbjörg lsf og Eríkur Ásgeirsson, þáverandi forstjóri Strætisvagna Reykjavíkur. Henni var ætlað það hlutverk að vera fyrir það fólk sem ekki kæmist með hinum almenna srætisvagni. Á þessum 35 árum hafa einungis fimm ungir menn stjórnað daglegum rekstri á Ferðaþjónustunni í Reykjavík, Helgi Már Haraldsson, Steindór Björnsson, Guðmundur Ingi Pétursson, Gunnar Jóhann Jónsson og Halldór Þór Þórhallsson. Þessir ungu menn voru allir bifreiðastjórar hjá Ferðaþjónustunni og ekki með neina gráðu frá neinum háskóla nema skóla lífsins og sitt eigið hyggjuvit og dugnað, en samt gekk þetta eins og í sögu í öll þessi ár. Til gamans getið var þetta í upphafi fyrir tölvuöld þannig að akstursseðlarnir voru handskrifaðir í tvíriti. Í upphafi voru þrír bílar hjá Ferðaþjónustunni en þessi þjónusta vatt fljótlega upp á sig því það var greinilega þörf fyrir svona þjónustu og var bætt við bílum eftir þörfum fyrstu árin. Á undanförnum árum hefur staðið til að bjóða út þessa starfsemi þannig að borgin hefur ekki hlúð að starfseminni sem skyldi, það hefur ekki fengist leyfi til að endurnýja bílakostinn sem var kominn allnokkuð til ára sinna í lokin. Þá þurfti að taka til þess ráðs að semja við verktaka um að sjá um stóran hluta akstursins. Á síðasta ári átti Ferðaþjónustan einungis átta bíla en verktakarnir voru u.þ.b. 30 og voru allflestir þeirra á Bifreiðastöðinni Hreyfli/Bæjarleiðum. Á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að leggja Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík alfarið niður og bjóða út starfsemina í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það var ekki góð latína hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sem hafði yfirumsjón með Fþf, að segja upp öllu starfsfólki Fþf og láta það vinna uppsagnarfrestinn sinn. Síðan þá hafa þessir starfsmenn að sjálfsögðu flúið þetta sökkvandi skip. Í dag er enginn starfsmaður eftir í þjónustuveri Strætó Bs sem áður var í þjónustuveri Fþf þannig að það er enginn sem hefur langa reynslu af því að taka niður ferðir. Það er því ekki skrítið að það séu gerð mistök við skráningar og móttöku á ferðum því það þarf kunnáttu og reynslu í þetta eins og allt annað. Vonandi verður bætt við starfsfólki og að það verði fljótt að læra. Hinn 1. nóvember sl. var sett af stað nýtt tölvukerfi sem á að skipuleggja aksturinn og á mannshöndin ekki að koma þar mikið nærri, með því móti á að vera hægt að fækka stöðugildum hjá þeim sem annars þyrftu að handraða ferðunum niður á bílana. En það er ekki hægt að láta tölvur alfarið raða fólki með misjafna fötlun saman í bíl. Það getur alls ekki gengið þannig fyrir sig. Það vantaði því miður alla kynningu á þessum breytingum fyrir þá sem þessa þjónustu nota, þannig að það er búið að vera mikil óánægja þessa dagana með þetta nýja kerfi hjá öllum sem að því koma – farþegum, starfsfólki stofnana og ekki síst hjá okkur bílstjórunum sem lítið hefur heyrst í fram að þessu. Ég benti á það á fundi í sumar með verkfræðingunum hjá VSÓ, sem sáu um útboðið fyrir Strætó Bs, að þetta væri allt of skammur tími fyrir verktakana að útvega sér bíla með öllum þeim sérútbúnaði sem til þyrfti samkvæmt útboðsgögnum sem er komið á daginn, þar sem aðalverktakinn, Hópbílar, er ekki kominn með alveg allan sinn bílaflota í gagnið. (Það er ekki hægt að nota eingöngu Yaris í þetta verkefni eins og Björk Vilhelmsdóttir sagði í fréttatíma í aðdraganda útboðsins.) Einnig benti ég þeim á að það væri ekkert vit í að láta nýja verktaka, með nýtt starfsfólk, byrja um áramót þegar mest er að gera. Að byrja um mánaðamótin júní-júlí væri miklu betra vegna þess að þá er ferðafjöldinn aðeins fjórðungur af því sem er í janúar. En það var ekkert hlustað á það frekar en annað sem við þessir gömlu höfðum fram að færa.

Þar sem ég er einn af verktökunum í þessum rammasamningi sem var gerður nú á haustdögum er það einlæg ósk mín að þessi þjónusta nái sér aftur á strik og verði aftur manneskjuleg og að fólkið sem á eftir að starfa við þetta skemmtilega og gefandi starf, að aka þessum farþegum um götur höfuðborgarsvæðisins, verði gert ánægt í starfi.

Höfundur er bifreiðarstjóri.

Höf.: Steindór Björnsson