Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Samkvæmt fjárhagsáætlun er bygging nýs skólahúss á Æðahöfða í Blikastaðalandi stærsta verkefni Mosfellsbæjar á þessu ári. Á síðasta ári voru settar niður lausar stofur með tengibyggingum á nefndum stað og þar hófst síðasta haust starfsemi deildar fyrir 5 og 6 ára nemendur í útibúi frá Lágafellsskóla. Þetta er upphaf að öðru og meira. Byggt verður nýtt skólahúsnæði á svæðinu og verður það í fyrstu ætlað börnum á 5-7 ára og byggt fyrir 200 nemendur. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 500 til 600 millj.kr. og er þetta tveggja ára verkefni.
Íbúum í Mosfellsbæ hefur fjölgað jafnt og þétt og eru í dag um 9.400. „Ungt fjölskyldufólk hefur sótt hingað og þess sér víða stað. Í Varmárskóla og Lágafellsskóla, hvorum um sig, eru um 700 nemendur. Nokkru færri í Krikaskóla, þar sem leik- og grunnskólastarf og fleira eru samþætt. Sú leið verður einnig farin í starfsemi skólans nýja á Æðarhöfða,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Áætlaðar tekjur Mosfellsbæjar á næsta ári eru um 8 milljarðar króna. Stærstum hluta þeirra fjármuna er eðlilega varið til reksturs helstu málaflokka, en ýmis aðkallandi verkefni eru framundan. Nefnir Haraldur Sveinsson að nú eigi að ljúka við Tunguveg, leiðina sem tengir saman miðbæ og nýbyggð í Leirvogstungu. Einnig séu áformað að fara í gatnagerð við Skeiðholt og gerð hringtorgs á gatnamótum Skeiðholts og Þverholts. Auk þessa verður lokið við gatnagerð við Reykjahvol; það er nærri Suður-Reykjum. Þar er búið að skipuleggja og fá samþykkt nýtt hverfi fyrir 30 til 40 einbýlishús.
Hluti af lífsgæðum
Allt þetta leiðir af sér – í stóra samhenginu – að styrkja þarf innviði samfélagsins almennt. Er því fyrirsjáanlegt að ýmis verkefni koma til framkvæmda á næstu árum.Haraldur Sveinsson hefur setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá 2002 og verið bæjarstjóri í um átta ár. Hann segir að síðan hann hóf afskipti af bæjarmálunum hafi viðhorf íbúanna breyst mikið, sem geri afdráttarlausari kröfu nú en áður um góða þjónustu.
„Lög segja í sjálfu sér ekkert um að sveitarfélög eigi að reka leikskóla eða styðja við starfsemi íþróttafélaga og byggja upp aðstöðu fyrir íþróttaiðkun. Staðreyndin er hins vegar sú að fólk gerir kröfu um þessa þjónustu sem ekki verður vikist undan. Leikskólanám er hluti af heildstæðri menntun barna, aðgangur að góðri íþróttaaðstöðu er hluti af lífsgæðum í nútímasamfélagi og sama má segja um framhaldsskóla, starf fyrir eldri borgara og svo framvegis. Í þessu verkefni höfum við varið milljörðum, en samt alltaf tekið þetta í hægum og öruggum skrefum og þannig haft borð fyrir báru í fjármálum sveitarfélagsins,“ segir Haraldur Sverrisson að síðustu.