Sigurbjörg Sæmundsdóttir, fæddist á Stað í Steingrímsfirði 3. ágúst 1922. Hún lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð 9. janúar 2015.

Hún var dóttir hjónanna Þórkötlu Soffíu Ólafsdóttur, f. 11. janúar 1892, d. 1. mars 1983, og Sæmundar Brynjólfssonar, f. 12. maí 1888, d. 13. júlí 1974. Systkini Sigurbjargar voru: Matthías, Margrét, Ólína, Brynhildur, Haraldur og Brynjólfur.

Sigurbjörg giftist 1. september 1945 Óla Helga Ananíassyni, f. 28. desember 1919, d. 2. nóvember 2004. Hann var sonur hjónanna Guðbrandar Ananíasar Stefánssonar, f. 7.10. 1888, d. 4.5. 1952, og Magnfríðar Herdísar Þórðardóttur, f. 23.5. 1884, d. 28.2. 1946. Börn þeirra Sigurbjargar og Óla eru: 1) Matthías Fanndal, f. 16.2. 1945, maki Olga Sigvaldadóttir, dóttir þeirra er Herdís Erna, maki Gústaf Jökull Ólafsson, börn þeirra eru: Olga Þórunn, Matthías Óli, Sandra Rún og Þórgunnur Ríta. 2) Hermann Fanndal, f. 18.9. 1946, maki Lovísa Steinunn Gunnarsdóttir, börn þeirra eru: a) Gunnar, fv. maki Anna María Einarsdóttir, börn þeirra eru: Sóley Björg, Dagur og Ísak. Fyrir átti Gunnar soninn Hermann. b) Jónína Helga, maki Benedicte Lie, synir þeirra eru: Axel Óli og Viktor Hermann c) Óli Ásgeir, sambýliskona Hjördís Birna Hjartardóttir, sonur þeirra er Ásgeir Helgi. 3) Sæmundur Óskar, f. 8.2. 1954, maki Katrín Björk Baldvinsdóttir, börn þeirra eru: a) Sigurbjörg Helga, maki Óskar Rafn Þorsteinsson, börn þeirra eru: Katrín María, Sigurður Andri og Óli Rafn.

b) Ragnar Baldvin, sambýliskona Sigrún Inga Guðnadóttir, börn þeirra eru: Dagur Óli og Sjana María. c) Haraldur Jóhann. 4) Soffía, f. 4.12. 1958, dóttir hennar er Berglind Harpa. 5) Arnar Guðmundur, f. 25.11. 1966, maki Valgerður Halldórsdóttir, börn þeirra eru: a) Kári, b) Kristín Björg, c) Þórkatla, d) Halldór Óli.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir var eins og fyrr segir fædd á Stað í Steingrímsfirði, en flutti að Kletti í Gufudalssveit fimm ára gömul. Þar dvaldist hún öll sín uppvaxtarár í stórum systkinahópi að undanskildum alllöngum tíma sem hún þurfti að dvelja á sjúkrahúsi á Ísafirði vegna berklaveiki en hún náði sér að fullu.

Sigurbjörg lauk hefðbundinni skólagöngu þess tíma í farskóla í Gufudalssveit. Síðar stundaði hún nám við héraðsskólann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og seinna í Húsmæðraskólanum á Staðarfelli.

Sigurbjörg og Óli tóku við búi á Hamarlandi af tengdaforeldrum Sigurbjargar árið 1945 og bjuggu þar allan sinn búskap þar til þau fluttu á Akranes árið 1973.

Fyrstu árin á Akranesi var Sigurbjörg heimavinnandi. Síðar vann hún við heimaþjónustu aldraðra á Akranesi í allmörg ár.

Sigurbjörg starfaði mikið með Málfreyjum (ITC) á Akranesi og hafði miklar mætur á þeim félagsskap. Einnig var hún virkur félagi í Sálarrannsóknarfélaginu á Akranesi.

Útför Sigurbjargar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 16. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 14.

Bogga amma hefur kennt mér margt og mun minning hennar alltaf lifa í huga mínum. Í öllum mínum minningum er amma brosandi og hlæjandi og var hún vön að gera grín að sjálfri sér og segja: „Sauðurinn hún amma.“ Oft man ég eftir okkur úti í náttúrunni og hún var að segja mér frá heimi álfa og huldufólks sem var töfrum líkastur og vil ég trúa að heimur ömmu hafi verið það líka.

Amma hugsaði alltaf vel um aðra, var hlý og passaði upp á sitt og sína. Ég man þegar ég læsti mig inni á klósetti í Merkigerðinu þriggja ára gamall og amma hringdi í lögregluna til að hjálpa mér út. Svo leiðbeindi annar lögreglumaðurinn mér vandlega þegar ég átti að klifra upp í baðkarið og setja lykilinn út um gluggann og amma og mamma fylgdust áhyggjufullar með. Amma bauð alltaf upp á kræsingar og konfekt þegar við komum í heimsókn og stundum útrunnið kex. Í hvert skipti sem ég hitti Boggu ömmu eftir að hún flutti í Barmahlíð talaði hún um hvað ég væri orðinn stór og myndarlegur maður og strauk mér um vangann. Amma var alltaf að skoða gömul myndaalbúm og innrammaðar myndir og benti oft á myndina af mér og afa sem hafði runnið vatn á og sagði mér hvað henni þætti vænt um hana.

Amma geislaði alltaf af gleði þegar hún fékk heimsóknir og þannig mun ég muna hana; brosandi og hlæjandi. Hvíldu í friði, elsku amma, ég mun alltaf passa upp á steinana sem þú gafst mér og bréfin sem þú sendir.

Kári.

Amma Bogga. Hún amma var alltaf í góðu skapi þegar maður kom í heimsókn og bauð manni upp á konfekt. Amma var alltaf með húmorinn í lagi, þegar hún sagði eða gerði eitthvað vitlaust þá sagði hún „sauðurinn hún amma“ og hló. Hún var síprjónandi og gaf manni mikið af sokkum eða vettlingum. Við erum voða stolt af henni að hafa lifað í 92 ár, alið upp fimm börn og eignast 12 barnabörn og 16 barnabarnabörn, hún var mjög dugleg að passa okkur öll. Hún var voða góð amma og örugglega líka góð mamma. Hún var alltaf góð og ljúf við okkur, hún hafði líka mjög gott ímyndunarafl. Hún sagði okkur frá klukkustreng sem mamma hennar gerði og hékk uppi á vegg hjá henni. Þegar við vorum lítil og vorum hjá ömmu og við sátum rétt hjá símanum hennar rákumst við í takkann og hringdum í öryggiskerfið, en mamma baðst afsökunar. Amma var líka mjög dugleg að safna og hafa myndir af fjölskyldunni sinni uppi á vegg eða í hillu. Hún amma var alltaf hress og kát.

En nú er komið að lokum og megi Guð taka vel á móti þér, elsku amma.

Þín barnabörn,

Kristín, Þórkatla

og Halldór Óli.

Fallin er frá tengdamóðir mín, Sigurbjörg Sæmundsdóttir, eða Bogga, eins og hún var ávallt kölluð. Við Bogga kynntumst fyrir 23 árum þegar ég kom fyrst í heimsókn á Akranes með Arnari, yngsta syni hennar. Þau Bogga og Óli tóku mér opnum örmum og spjölluðu um alla heima og geima. Ég fann strax að ég var velkomin í fjölskylduna og á því hefur aldrei orðið breyting.

Umhyggjusemi Boggu fyrir sínum nánustu kom strax í ljós þegar við Arnar hófum búskap saman. Ekki aðeins varð hún okkur úti um frystikistu, heldur fyllti hún hana af lambsskrokk sem hún var búin að vinna fyrir okkur í hakk, steikur, gúllasbita, slátur o.fl. Einnig gaf hún okkur fyrstu hnífapörin og allrahanda eldhúsáhöld. Við fórum svo sannarlega ekki varhluta af velvild hennar og hlýju.

Óhætt er að segja að Bogga hafi verið af annarri kynslóð en ég. Ekki aðeins skildi okkur tæplega hálf öld að í aldri, heldur upplifði Bogga líka stórfelldar þjóðfélagsbreytingar á sama tíma. Hún kenndi okkur yngri kynslóðinni svo ótal margt sem nútímamaðurinn kann ekki lengur, svo sem nýtni, viðgerðir á fatnaði og húsmunum og nægjusemi. Hún var nýtin fram í fingurgóma, bar virðingu fyrir öllum hlutum og þekkti sögu þeirra og fór vel með.

Bogga var mikil hannyrðakona og við dánarbeð hennar mátti sjá síðasta handverkið með nálina ennþá þrædda. Hún prjónaði á börnin okkar öll og saumaði einnig út. Þegar okkur hjónum fæddist annað barnið í Danmörku sendi hún okkur ofurlitla fagurgræna ungbarnapeysu með kaðlaprjóni sem mér þótti svo vænt um, ekki síst vegna þess að hún sagði okkur að þegar hún var að prjóna peysuna heima á Íslandi hugsaði hún alltaf til okkar og litla ófædda barnsins. Þannig gæddi hún hversdagslega hluti lífi með sögum sem lifa hana sjálfa.

Náttúran var hennar líf og yndi. Eftir að þau Óli brugðu búi ferðuðust þau um landið með tjald í skottinu og smurða nestið hennar Boggu í nestisskjóðunni. Í þessum ferðum gat Bogga unað sér við að tína steina sem hún hafði mikið dálæti á. Steinunum raðaði hún svo í beðin sín heima í Merkigerðinu. Þau Kári, elsti sonur okkar, gátu eytt ómældum tíma í að tína saman steina þegar hún kom og heimsótti okkur í Danmörku.

Ljósmyndum hafði hún sérstakt dálæti á. Hún hóf snemma að taka myndir og naut þess að skoða myndirnar sínar og sýna þær öðrum og segja söguna á bak við hverja mynd. Hún tók myndir af náttúrunni, af klettunum á Hamarlandi, sólarlaginu, fjöllunum, dölunum og blómunum á litlu myndavélina sína og hver mynd átti sína sögu. Einnig naut hún þess að skoða myndirnar af fólkinu sínu og ört stækkandi afkomendahóp.

En nú er komið að kveðjustund. Hún Bogga okkar er búin að eiga langt og gott líf. Við fjölskyldan munum hlýja okkur með ullarsokkunum sem hún prjónaði á okkur allt fram á síðustu stund og ylja okkur við minningarnar sem við geymum í hjartanu.

Kveðja,

Valgerður Halldórsdóttir.