Fölsuðum Eames-stólum var fargað í vikunni hér á landi eftir að tollverðir höfðu stöðvað innflutning þeirra til landsins í nóvember síðastliðnum. Var rétthöfum tilkynnt hugsanlegt brot gegn hugverkaréttindum.
Fram kemur á vef embættis tollstjóra, að stólarnir, 29 talsins, hafi komið ýmist í póstsendingum, hraðsendingum eða sjósendingum frá Bretlandi og Kína á vegum nokkurra einstaklinga. Viðkomandi og rétthafar hafi komist að samkomulagi um förgun varningsins, sem fargað var undir eftirliti tollstjóraembættisins.
Bandarísku hjónin Charles og Ray Eames hönnuðu Eames-stólinn á ofanverðum fimmta áratug síðustu aldar og hann er enn framleiddur.