Eruð þið systur? Eða kannski frænkur? Ha? Eruð þið ekki skyldar? Eruð þið þá bara bestu vinkonur?“ – Nei við erum saman. Já, kærustupar. Meira að segja trúlofaðar.
Svona höfum við María, unnusta mín, oftar en ekki þurft að svara fyrir samband okkar. Þó Ísland sé mjög framarlega í umburðarlyndi og fordómaleysi þá virðast margir ganga út frá því að kona sé ætíð með karlmanni. Það geti því ómögulega verið að tvær „stelpulegar“ stelpur eigi í ástarsambandi.
Þessi fáfræði brýst yfirleitt fram hjá starfsfólki sem tekur á móti okkur hjá hinum og þessum stofnunum. „Við erum saman“ virðist nefnilega oft skiljast sem „við erum vinkonur“. Þegar misskilningurinn er leiðréttur fer viðkomandi starfsmaður yfirleitt í keng og skammast sín fyrir að hafa ekki áttað sig á aðstæðum. Allir verða vandræðalegir, hlæja smá og misskilningurinn gleymist stuttu seinna.
En nú spyr ég; eigum við ekki að hætta að ganga út frá einhverju sem á ekki við um alla? Það var til dæmis mjög hressileg tilbreyting að fara í banka með Maríu í vikunni og fá önnur viðbrögð en þau sem við erum vanar. „Þið eruð saman ekki satt? Í sambúð eða giftar?“ spurði þjónustufulltrúinn og gerði ráð fyrir því að við værum par þar sem við komum saman. Það kom sjálfri mér á óvart hversu ánægðar við vorum með þessi viðbrögð, enda ættu þau að vera sjálfsögð.
Þó að vissulega sé um saklausan misskilning að ræða í flestum tilfellum verður það þreytandi til lengri tíma að þurfa að útskýra samband sitt í þaula og uppskera fátt annað en undrun fólks. Það kæmi líklega flestum gagnkynhneigðum pörum í opna skjöldu ef viðbrögðin við orðunum „við erum saman“ væru: „HA? Eruð ÞIÐ saman? En bíddu... Það getur ekki verið!“
Það getur því yfirleitt verið betra að spyrja fyrirfram og gera ekki ráð fyrir neinu. „Hver er tengingin ykkar?“ gæti til að mynda komið ýmsum frá vandræðalegu „nei, sko þetta var ekkert illa meint eða neitt þannig“ stundinni eftir að hafa spurt tvo stráka hvort þeir séu bræður, tvær konur hvort þær séu vinkonur eða eldri mann hvort hann sé afi ungu konunnar sem hann er með. Eins óvenjulegar og mörgum þykja þessar samsetningar elskhuga eru þær nefnilega alveg jafn mikið til staðar og allar hinar.
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is