Það voru ekki aðeins jöklanna tindar sem voru fannhvítir í gær, líkt og Jónas Hallgrímsson orti í ljóði sínu Ísland, heldur var allt landið skjannahvítt að sjá utan úr himingeimnum. Hið nýja Nornahraun var þó eins og svartur blettur á hinni hreinu og björtu ásýnd landsins.
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birti á Facebook-síðu sinni hitamynd sem tekin var úr gervihnetti. Þar skar nýja hraunið sig úr grámanum sem blóðrauður blettur. Um 50 jarðskjálftar höfðu mælst í Bárðarbungu í gærmorgun frá því á svipuðum tíma í fyrradag. Stærsti skjálftinn mældist 4,6 klukkan 07.11 í gærmorgun og voru upptök hans við suðurjaðar öskjunnar.
Í gær var víða skýjað eða alskýjað og snjóaði sums staðar fyrir norðan. Veðurspáin gerði ráð fyrir vaxandi norðvestanátt og éljagangi en bjartviðri á sunnanverðu landinu.
Í dag var gert ráð fyrir að vindur yrði víða mun hægari en hann varð í gær og að það yrði snjókoma eða él. Norðantil á landinu átti að bæta í ofankomu síðdegis í dag og bæta átti í vind undir kvöldið.
gudni@mbl.is