Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Óttast er að hundruð manna, eða allt að 2.000 manns, hafi beðið bana í grimmilegum árásum vígamanna Boko Haram, samtaka íslamista, á tvo bæi í norðanverðri Nígeríu fyrr í mánuðinum, að sögn mannréttindasamtakanna Amnesty International.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að árásirnar væru „glæpur gegn mannkyninu“. „Þetta eru hryllileg fjöldamorð á saklausu fólki,“ sagði hann.
Amnesty og mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa birt loftmyndir úr gervihnöttum af bæjunum tveimur, Baga og Doron Baga, við Tsjad-vatn í Borno-ríki í norðaustanverðri Nígeríu. Myndirnar voru teknar 2. janúar – daginn áður en árásirnar hófust – og 7. janúar þegar bæirnir höfðu verið lagðir í rúst. Að sögn Amnesty voru 3.720 hús eyðilögð eða stórskemmd; 620 í Baga og 3.100 í Doron Baga.
Embættismenn í Borno-ríki segja að allt að 2.000 manns hafi verið drepin í árásunum en her Nígeríu segir að sú tala sé alltof há og geti ekki verið rétt. Talsmaður hersins sagði að samkvæmt upplýsingum hans hefðu allt að 150 manns látið lífið í árásunum, þeirra á meðal liðsmenn vígasveita Boko Haram.
Haft var eftir Adotei Akwei, talsmanni Amnesty í Nígeríu, að stjórnvöld í landinu gerðu alltof lítið úr blóðsúthellingunum og tala látinna væri miklu hærri en 150.
„Þeir drápu mjög marga,“ hafði Amnesty eftir manni sem varð vitni að árás vígasveitanna. „Ég sá kannski um það bil 100 manns drepin í Baga. Ég hljóp inn í skóg. Þegar við flúðum skutu þeir og drápu fólk.“
Amnesty hafði eftir sjónarvottum að vígamennirnir hefðu skotið á alla sem þeir sáu, m.a. lítil börn og konu sem var að fæða barn. „Helmingurinn af barninu var kominn út og konan dó þannig,“ sagði sjónarvottur.
Minnst 20.000 manns flúðu
Flóttamenn frá bæjunum sögðu að árásarmennirnir hefðu safnað saman 300 konum og haldið þeim í skóla í fjóra daga.Vígamennirnir slepptu elstu konunum, mæðrum og börnum þeirra en héldu öðrum ungum konum.
Kveikt var í að minnsta kosti 16 þorpum í grennd við Baga og a.m.k. 20.000 manns flúðu. Læknar án landamæra aðstoða nú um 5.000 manns sem lifðu árásirnar af. Yfir 11.300 manns flúðu yfir landamærin til Tsjad, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarher Nígeríu er sakaður um að hafa gert of lítið úr blóðsúthellingunum í norðaustanverðu landinu.
Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, hafði í gær ekkert sagt um árásirnar og svo virðist sem margir Nígeríumenn séu orðnir ónæmir fyrir fréttum af ofbeldinu, að sögn fréttaritara breska blaðsins The Guardian .
Forsetakosningar eiga að fara fram í Nígeríu í febrúar en fréttaskýrendur hafa vaxandi efasemdir um að hægt verði að halda þær í öllu landinu vegna blóðsúthellinganna.
„Vestræn menntun bönnuð“
Norður-Nígería (ásamt Níger og Suður-Kamerún) tilheyrði íslömsku ríki, Sokoto-kalífadæminu, sem Bretar náðu á sitt vald árið 1903. Mikil andstaða hefur verið meðal múslíma í þessum landshluta við vestræna menntun og margir þeirra hafa neitað að senda börn sín í ríkisskóla sem þeir segja gegnsýrða af vestrænum hugmyndum.Samtökin Boko Haram voru stofnuð árið 2002 í Maiduguri, höfuðborg Borno-ríkis. Nafnið þýðir „vestræn menntun er bönnuð“ á tungumáli Hausa-manna. Samtökin berjast gegn hvers konar vestrænum áhrifum, m.a. kosningum, vestrænum fatnaði og veraldlegri menntun. Þau hafa rekið íslamskan skóla fyrir börn fátækra múslíma í Nígeríu og grannríkjunum. Samtökin hófu vopnaða uppreisn árið 2009 til að stofna nýtt kalífadæmi og margir nemendur úr skólanum hafa tekið þátt í vopnuðu baráttunni og hryðjuverkum. Liðsmenn samtakanna hafa gert árásir á lögreglumenn, stjórnmálamenn, kristna trúboða, múslímaklerka sem hafa gagnrýnt samtökin og múslíma sem eru andvígir túlkun þeirra á íslam. Þeir hafa einnig gert sprengjuárásir á kirkjur, strætisvagna, bari, herstöðvar og réðust eitt sinn á höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Abuja, höfuðborg Nígeríu.
Samtökin rændu yfir 200 stúlkum í apríl á liðnu ári og leiðtogi samtakanna lýsti því yfir að þær yrðu seldar og neyddar í hjónaband.
„Nýt þess að drepa“
» Abubakar Shekau varð leiðtogi Boko Haram eftir að stofnandi samtakanna dó í júlí 2009 þegar hann var í haldi lögreglunnar. Samtökin urðu róttækari og herskárri eftir að Shekau tók við.
» Shekau mun vera í kringum þrítugt og honum er lýst sem blöndu af róttækum guðfræðingi og miskunnarlausum morðingja.
» „Ég nýt þess að drepa hvern þann sem Guð skipar mér að drepa – eins og ég nýt þess að slátra kjúklingum og hrútum,“ sagði Shekau í myndskeiði sem samtökin sendu frá sér eftir að þau urðu 180 manns að bana í árás í borginni Kano í janúar 2012.