Að þessu sinni verður leikið um átta efstu sætin á heimsmeistaramótinu í Katar en það var ekki gert á HM fyrir tveimur árum.

Að þessu sinni verður leikið um átta efstu sætin á heimsmeistaramótinu í Katar en það var ekki gert á HM fyrir tveimur árum. Ástæðan fyrir að leikið er um sætin átta er sú að liðin sem hafna í öðru til sjöunda sæti vinna sér inn keppnisrétt í forkeppni Ólympíuleikanna í Ríó 2016 sem fram fer fram í lok mars eða í byrjun apríl á næsta ári.

Heimsmeistararnir vinna keppnisrétt beint inn á HM en liðunum sem hafna í öðru til sjöunda sæti er raðað niður í riðla. Þannig verður liðið í öðru sæti með því sem hafnar í sjöunda sæti í riðli ásamt liði frá Evrópumeistaramótinu á næsta ári og einu liði frá Ameríku. Þriðja og sjötta sætið frá HM í Katar parast saman með silfurliði næstu Afríkukeppni og einnig þjóð frá EM á næsta ári.

Í þriðja riðlinum í forkeppni ÓL taka sæti liðin sem höfnuðu í fjórða og fimmta sæti á HM í Katar ásamt einu Asíuliði og einu frá Afríku.

Vegna þess að forkeppni Ólympíuleikanna er framundan mun öllu máli skipta að vinna leikinn í 16-liða úrslitum á HM í Katar. Sigur í þeim leik gefur keppnisrétt í 8-liða úrslitum. Tapliðin fara heim og vonir þeirra um sæti í forkeppni ÓL dofna þar af leiðandi verulega.

Hægt að komast í gegnum EM

Eins gefur þetta leiknum um sjöunda sætið á HM mikið vægi. Sigurliðið fer beint í forkeppni ÓL, tapliðið situr eftir með sárt ennið en sé um Evrópulið að ræða lifir enn veik von um að öðlast keppnisrétt í gegnum EM í Póllandi á næsta ári.

Síðast var leikið um átta efstu sætin á heimsmeistaramótinu 2011 í Svíþjóð enda var forkeppni Ólympíuleikanna árið eftir. Ísland hafnaði í sjötta sæti á HM 2011 eftir tap fyrir Króatíu í æsilegum leik um fimmta sætið, 34:33, í Malmö-Arena. iben@mbl.is