Spánn Ísland vann þrjá leiki af fimm í riðlakeppninni á HM 2013. Hér fagna Aron Pálmarsson, Ólafur Gústafsson, Sverre Jakobsson, Björgvin Páll Gústavsson og Guðjón Valur Sigurðsson sigri gegn Makedóníu, 23:19.
Spánn Ísland vann þrjá leiki af fimm í riðlakeppninni á HM 2013. Hér fagna Aron Pálmarsson, Ólafur Gústafsson, Sverre Jakobsson, Björgvin Páll Gústavsson og Guðjón Valur Sigurðsson sigri gegn Makedóníu, 23:19. — Ljósmynd/Hilmar Þór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upprifjun Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslenska landsliðið náði sér aldrei á almennilegt flug á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem haldið var á Spáni fyrir tveimur árum.

Upprifjun

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslenska landsliðið náði sér aldrei á almennilegt flug á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem haldið var á Spáni fyrir tveimur árum. Það hafði ekki jafnað sig eftir að Ólafur Stefánsson hætti að leika með landsliðinu, enda skarð hans afar vandfyllt. Alexander Petersson gaf ekki kost á sér vegna þrálátra meiðsla í vinstri öxl og Arnór Atlason var heldur ekki með. Hann sleit hásin nokkru fyrir mót.

Ólafur var reyndar í 28 manna hópi sem Aron valdi mánuði fyrir mótið en þegar nær dró jólum ákvað Ólafur að nóg væri komið og hann gæfi ekki kost á sér. Ólafur var þá án félags og hafði ekki leikið handbolta síðan á Ólympíuleikunum um sumarið en fór í febrúar til Katar og lék þar með félagsliði um nokkurra vikna skeið.

Nýr þjálfari var í brúnni, Aron Kristjánsson. Hann hafði tekið við þjálfun landsliðsins í ágúst árið áður. Landsliðið hafði farið vel af stað undir hans stjórn og tapaði ekki fjórum fyrstu leikjunum undir stjórn Arons. Fyrsta tapið varð hins vegar raunin gegn Svíum í vináttulandsleik skömmu fyrir mótið, 31:29, en auk þess hafði liðið mætt Túnisbúum í tvígang í vináttuleikjum á milli jóla og nýárs.

Auk þessa glímdi Guðjón Valur Sigurðsson við eymsli í hásin í aðdraganda HM og Stefán Rafn Sigurmannsson meiddist í fyrrgreindum leik við Svía. Þeir mættu þó sprækir og hressir til leiks í Sevilla þegar flautað var til leiks.

Nokkur ný andlit

Vegna þess að þrjá sterka leikmenn vantaði í hópinn varð ekki hjá því komist ný andlit birtust í leikmannahópnum. Ólafur Gústafsson tók þátt í sínu fyrsta stórmóti, nokkru vikum eftir að hafa farið út til Flensborgar og gert skammtímasamning við félagið þar sem meiðsli hrjáðu marga leikmenn í herbúðum liðsins, þar á meðal Arnór Atlason. Fannar Þór Friðgeirsson fékk að margra mati loksins tækifæri með landsliðinu eftir að hafa leikið í Þýskalandi um þriggja ára skeið. Ernir Hrafn Arnarson var kallaður inn í landsliðið eftir tvo leiki til þess að vera Ásgeiri Erni Hallgrímssyni til halds og trausts en þeim síðarnefnda var falið það vandasama hlutverk að leysa þá Alexander og Ólaf Stefánsson af hólmi. Arnór Þór Gunnarsson, Aron Rafn Eðvarðsson markvörður og Stefán Rafn Sigurmannsson voru allir að taka þátt í stórmóti í fyrsta sinn. Ljóst var að lítið mátti út af bera hjá liðinu með svo marga nýliða. Breidd landsliðshópsins af reynslumönnum var minni en oftast nær áður. Enda fór svo að árangurinn varð lakari en stundum áður og 12. sætið af 24 liðum varð niðurstaðan. Sennilega var síðasti leikur íslenska landsliðsins í mótinu, gegn Frökkum í 16-liða úrslitum, sá besti sem liðið sýndi.

Breyttir Rússar í fyrsta leik

Ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur í fyrsta leiknum gegn Rússum í Sevilla 12. janúar. Fyrirfram var vitað að brugðið gæti til beggja vona. Nokkrir leikmenn sögðust tilbúnir í slaginn en aðrir höfðu uppi viðvörunarorð fyrir mótið um að vegna breytinga væri rennt blint í sjóinn.

Eftir hrakfarir á EM í Serbíu árið áður varð uppstokkun hjá rússneska liðinu. Hinum rótgróna landsliðsþjálfara Vladimir Maximov var sagt upp og við tóku yngri menn með ferskari hugmyndir, Oleg Kuleshov og Alexander Rymanov. Svo fór að rússneska liðið var of stór biti fyrir íslenska liðið að þessu sinni. Rússar unnu sannfærandi sigur, 30:25, þar sem sóknarleikurinn varð Íslendingum að falli.

Þess utan fékk Róbert Gunnarsson línumaður afar slæma byltu í leiknum og meiddist á baki. Hann kom nær ekkert meira við sögu í leikjunum sem eftir voru á HM. Þótt á ýmsu gengi framan af datt botninn úr leik íslenska landsliðsins eftir rúmlega 10 mínútna leik í síðari hálfleik í stöðunni 20:20.

„Sóknarleikur liðsins sigldi í algjört strand og til marks um það skoraði það aðeins sex mörk á síðustu 22 mínútum leiksins á meðan Rússarnir skoruðu 14,“ sagði Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, m.a. í umfjöllun sinni.

„Ég spilaði alveg eins og asni á köflum og ég verð bara að biðjast afsökunar á frammistöðu minni,“ sagði Aron Pálmarsson vonsvikinn í leikslok en fleiri leikmenn brugðust.

Á eftir áætlun

Ekki var annað að gera en að herða upp hugann og halda ótrauðir í næsta leik sem var gegn Síle. Það átti að vera skyldusigur og sú varð og raunin, 38:22, þar sem óreyndari leikmenn íslenska liðsins fengu töluvert að láta ljós sitt skína. Á sama tíma fengu burðarásarnir Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson að kasta mæðinni lengst af síðari hálfleik.

„Við erum aðeins á eftir áætlun. Við ætluðum okkur sigur á móti Rússunum en því miður gekk það ekki upp hjá okkur. Þetta var ákveðið skylduverkefni hjá okkur á móti Síle en mér fannst við vinna vel úr leiknum og það er miklu betra að vinna svona mótherja á sannfærandi hátt en lenda í einhverju ströggli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið eftir sigurinn gegn Sílemönnum.

Ernir kallaður til Spánar

Daginn eftir leikinn við Síle var tekin sú ákvörðin að styrkja hægri vænginn í sóknarleiknum og kalla Erni Hrafn Arnarson frá Þýskalandi til Spánar og skipta honum út fyrir Ólaf Andrés Guðmundsson. Ólafur var þó áfram með hópnum út mótið. Var til taks ef á þyrfti að halda.

Lykilleikur gegn Makedóníu

Eftir eins dags frí frá leikjum tók við viðureign við Makedóníu sem var algjör lykilleikur fyrir íslenska landsliðið ef það ætlaði sér að halda í vonina um annað sæti í riðlinum, svo ekki sé talað um það þriðja.

Makedóníumenn höfðu mætt Síle og Katar í tveimur fyrstu leikjunum og þóttu ekki hafa leikið af fullum krafti og því lítið mark takandi á framgöngu þeirra. Þá höfðu þeir innan sinna raða skyttuna ógurlegu Kiril Lazarov sem gat á eigin spýtur unnið leiki ef sá gállinn var á honum.

Íslenska landsliðið kom vel undirbúið til leiks og gaf tóninn með því að komast í 4:0. Varnarleikurinn var frábær þar sem Sverre Jakobsson og Vignir Svavarsson fóru á kostum og einnig Björgvin Páll Gústavsson í markinu. Hraðinn var aldrei mikill í leiknum. Íslenska liðið hafði leikinn í hendi sér frá upphafi til enda og vann sannfærandi sigur. Þrátt fyrir öruggan sigur sagði Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, að sóknarleikur íslenska liðsins væri ennþá áhyggjumál.

Alltof sterkir Danir

Næstu andstæðingar voru frændur okkar Danir sem höfðu farið á kostum í fyrstu leikjum sínum og þóttu líklegir til að fara alla leið á mótinu.

„Nú er mikilvægt fyrir okkur að koma okkur strax niður á jörðina. Okkar bíður erfiður leikur við Dani. Þeir eru með frábært lið en við munum vonandi finna einhverjar leiðir til að snúa þá niður. Sigurinn í þessum leik er alla vega gott veganesti en við vitum vel að við þurfum toppleik til að leggja danska liðið að velli. Ég hlakka til að berja á Dönum,“ sagði Sverre Jakobsson í samtali við Morgunblaðið eftir sigurinn á Makedóníu. Sverre og félagar áttu eftir að finna til danska tevatnsins.

Réðu ekki við hraðann

Eftir að íslenska landsliðið skoraði fyrsta mark leiksins tóku Danir öll völd á leikvellinum og yfirspiluðu Íslendinga á löngum köflum í leiknum. Aldrei var vafi hvorum megin sigurin félli. Danir léku hraðan og skemmtilegan sóknarleik og tættu vörnina sundur. Þeir voru einnig drjúgir við að skora eftir hraðaupphlaup. Munurinn á liðunum var sjö mörk um miðjan síðari hálfleik og varð mestur níu mörk.

Eftir leikinn sögðu leikmenn íslenska landsliðsins að varnarleikurinn hefði brugðist, ekki sóknarleikurinn. Það var eiginlega sama hvað gert var í varnarleik íslenska landsliðsins; allt kom fyrir ekki.

„Danirnir voru bara klassa betri en við í þessum leik. Þeir áttu svör við öllum okkar varnarafbrigðum og við áttum hreinlega engin svör á móti þeim,“ sagði Aron Pálmarsson við Morgunblaðið eftir leikinn.

Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska liðsins, sagði það hafa verið rassskellt af frábæru dönsku landsliði. „Við náðum að hanga í Dönum í fyrri hálfleik en við byrjuðum seinni hálfleikinn afar illa og misstum þá allt of langt fram úr okkur.“

Frakkar töpuðu óvænt

Þar með var staðan sú að til þess að ná þriðja sæti riðilsins – annað var úr sögunni – varð íslenska landsliðið að vinna Katar í lokaumferðinni og treysta á að Makedóníumenn kræktu ekki í stig gegn Dönum.

Það gekk allt eftir. Íslenska landsliðið vann lið Katarbúa örugglega, 39:29, og Danir voru ekki í erfiðleikum með Makedóníumenn.

Íslenska liðið náði þriðja sæti í B-riðli en í A-riðli urðu þau óvæntu úrslit að Þjóðverjar unnu heims- og ólympíumeistara Frakka í lokaumferðinni sem varð til þess að franska liðið hafnaði í öðru sæti A-riðils, nokkuð sem fæstir reiknuðu með.

Þar með kom það í hlut íslenska landsliðsins að mæta Frökkum í 16-liða úrslitum. Nokkuð sem flestir hefðu viljað forðast á þessu stigi þar sem ljóst var að tapliðið myndi fara heim nánast að leiknum loknum.

„En það þýðir ekkert að skæla yfir þessu. Við búum okkur af krafti undir erfiðan leik og ég veit að strákarnir munu selja sig dýrt. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við þurfum að ná fram toppleik í alla staði til að eiga möguleika á að vinna Frakkana. En það eru veikleikar í franska liðinu og við ætlum að reyna að nýta okkur þá til hins ýtrasta,“ sagði Aron Kristjánsson um væntanlega mótherja.

Besti leikurinn í mótinu

Íslenska landsliðið lék sinn heilsteyptasta leik á mótinu gegn Frökkum í 16-liða úrslitum. Það dugði ekki til. Hver mistök vega þungt í jöfnum og spennandi leik við heims- og ólympíumeistarana. Frakkar voru með frumkvæðið í leiknum en litlu mátti muna og með vandaðri sóknarleik hefði íslenska landsliðið getað unnið leikinn.

Frakkar fögnuðu tveggja marka sigri að leikslokum, 30:28. Þeim tókst hins vegar ekki að fagna þegar upp var staðið á mótinu. Frakkar léku ekki einu sinni um verðlaun.

Mörg mistök reyndust dýr

„Það er erfitt að kyngja þessu. Við náðum að veita heims- og ólympíumeisturunum svakalega keppni. Vörnin gekk upp að mestu leyti sem við lögðum upp með en sóknarleikurinn hikstaði eins og hann hefur gert töluvert í mótinu. Tæknilegu feilarnir voru dýrir sem við gerðum og Frakkarnir voru fljótir að refsa okkur,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson við Morgunblaðið.

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var einnig vonsvikinn og skellti skuldinni vegna tapsins á sjálfan sig.

„Ég er ekki sáttur við mig sjálfan. Mér fannst ég gera allt of mörg mistök í leiknum og ég er þeirrar skoðunar að við hefðum unnið leikinn ef ég hefði staðið mig betur,“ sagði Guðjón Valur m.a. í samtali við Morgunblaðið.

Óheppni í 16-liða úrslitum

„Við settum okkur það markmið að ná öðru af tveimur efstu sætunum en tapið á móti Rússum gerði okkur erfitt að ná því. Það var óheppilegt að enda svo í leik á móti Frökkum í 16 liða úrslitunum en svona eru þessi stórmót. Við horfðum ekkert lengra fram en á að komast í 16-liða úrslitin og eftir það ætluðum við bara að taka einn leik í einu, enda útsláttarkeppni,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari þegar hann gerði mótið upp í fljótheitum í samtali við Morgunblaðið.

„Varnarleikurinn var í flestöllum leikjum mjög góður og það var mjög ánægjulegt. Fimm leikmenn voru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti og þeir fengu dýrmæta reynslu sem mun koma landsliðinu til góða á næstu árum. Sóknarleikurinn var ekki nógu beittur en í sumum leikjanna náðum við að spila mjög góð hraðaupphlaup og mér fannst vera stígandi í sóknarleiknum hjá okkur á mótinu. Í erfiðu leikjunum fengum við ekki nægilega mörg mörk utan af velli og áttum oft erfitt uppdráttar þegar Aron var tekinn í stífa gæslu. Liðið okkar var töluvert spurningarmerki þar sem það hafði tekið miklum breytingum. Markmiðið hefur verið að reyna að auka breiddina í landsliðinu og mér fannst það takast nokkuð vel á mótinu,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari ennfremur.