Fernando Torres, framherjinn sem hefur átt svo erfitt uppdráttar um langa hríð, skoraði bæði mörk Atlético Madrid í gærkvöld þegar liðið lauk við að slá út erkifjendur sína í Real Madrid í 16 liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar. Atlético hafði unnið fyrri leik liðanna, þann fyrsta eftir endurkomu Torres, 2:0 á heimavelli en liðin gerðu svo 2:2-jafntefli á Santiago Bernabéu í gær. Þar gerði Torres bæði mörk Atlético en Sergio Ramos og Cristiano Ronaldo jöfnuðu metin fyrir Real.
Atlético hefur haft ágætis tak á grönnum sínum undanfarin misseri en þetta var fimmti leikurinn í röð þar sem Real mistekst að fara með sigur af hólmi gegn „litla bróður“.
Atlético mætir Barcelona í 8 liða úrslitunum en Börsungar slógu út Elche í gær. sindris@mbl.is