Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Tryggingarleg staða starfsmanna á Íslandi vegna atvinnusjúkdóma er verri hér á landi en á hinum löndunum á Norðurlöndum. Mögulegt er og líklegt að hópur fólks hér á landi vinni í umhverfi sem getur valdið heilsutjóni án þess að það hafi verið tilkynnt sem atvinnusjúkdómur.
Ástæða þessa er sú að tilkynningakerfi vegna atvinnusjúkdóma hefur ekki verið virkjað nema að litlu leyti hér. Þetta kemur fram í umsögn Vinnueftirlitsins við frumvarp heilbrigðisráðherra um slysatryggingar almannatrygginga.
„Í dag hafa að meðaltali innan við 20 atvinnusjúkdómar verið tilkynntir árlega til Vinnueftirlitsins. Þetta þýðir mögulega og líklega að hópur manna er enn að vinna í umhverfi sem getur valdið heilsutjóni sem hægt er að fyrirbyggja með virku tilkynningarkerfi,“ segir í umsögn Vinnueftirlitsins.
19 þúsund tilkynningar í Danmörku á ári en 20 hér
„Með þessu eru starfsmenn á Íslandi settir skör lægra en starfsmenn annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum nágrannalöndum sem við viljum bera okkur saman við, þar sem virkar atvinnusjúkdómavarnir grundvallast á virku kerfi tilkynninga atvinnusjúkdóma.Jafnframt er tryggingarleg staða starfsmanna á Íslandi í dag m.t.t. atvinnusjúkdóma verri en á hinum löndunum á Norðurlöndum. Í Danmörku eru t.d. tilkynntir um 19.000 atvinnusjúkdómar á ári. Af þeim er um fimmtungur viðurkenndur sem atvinnusjúkdómur eftir skoðun yfirvalda. Ef við gerum ráð fyrir að danskur vinnumarkaður sé um 15 sinnum stærri en sá íslenski má gera ráð fyrir um 270 tilkynningum um atvinnusjúkdóm hér á landi. Við missum því mögulega af meira en 250 tilvikum þar sem koma má í veg fyrir atvinnutengt heilsutjón og mögulega örorku vegna þess,“ segir í umsögninni.
„Í dag berast mjög fáar tilkynningar um atvinnusjúkdóma til Vinnueftirlitsins,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins. Hann segir að á meðan ekki er kveðið skýrt á um bætur vegna atvinnusjúkdóma innan almannatryggingakerfisins, sé drifkrafturinn til tilkynninga mjög lítill.
Vinnueftirlitið leggur ríka áherslu að allt sé gert til að örva tilkynningarferli atvinnusjúkdóma og koma þannig í veg fyrir frekara atvinnutengt heilsutjón. Bent er á að ein leið til þess sé að allir tilkynningarskyldir atvinnusjúkdómar verði gerðir bótaskyldir með sama hætti og vinnuslys.
Fallslys eða ofraun ekki tryggð
Vinnueftirlitið gagnrýnir einnig þrönga skilgreiningu á vinnuslysum sem falla undir slysatryggingar almannatrygginga í frumvarpinu og telur orðalagið að um „skyndilegan utanaðkomandi atburð“ sé að ræða sem valdi slysum of þröngt. ASÍ og BSRB taka í sama streng og gagnrýna vinnuslysahugtakið í umsögnum við frumvarpið. Breyta verði því skilyrði að eingöngu utanaðkomandi atburður hafi valdið slysi.Þetta þýði að einstaklingar sem slasast t.d. í fallslysum vegna þess að þeim skrikar fótur eða vegna líkamlegrar ofraunar eru ekki tryggðir gegn tjóni sínu í gegnum almannatryggingar.
Þessi þrönga skilgreining á slysum með áherslu á utanaðkomandi atburði útilokar á hverju ári, að mati Vinnueftirlitsins, „vinnuslys þar sem ofraun verður á líkama en þau hafa frá árinu 2007 að telja verið á bilinu 55 til 97 á ári hverju.“
Bent er á sem dæmi um þetta slys sem verða með þeim hætti að maður sem er að rétta hurð finnur fyrir smell í vinstri öxl með þeim afleiðingum að hann tognar. Þetta slys er ekki vegna utanaðkomandi atburðar og er því ekki bótaskylt.