Reynsla Birgir Björnsson, til vinstri, lék með Íslandi á þremur fyrstu heimsmeistaramótunum og þjálfaði liðið og stýrði því á HM 1978 í Danmörku þegar ráðinn landsliðsþjálfari, Janus Czerwinski, til hægri, gat ekki sinnt því.
Reynsla Birgir Björnsson, til vinstri, lék með Íslandi á þremur fyrstu heimsmeistaramótunum og þjálfaði liðið og stýrði því á HM 1978 í Danmörku þegar ráðinn landsliðsþjálfari, Janus Czerwinski, til hægri, gat ekki sinnt því.
Í gegnum tíðina hafa átta leikmenn íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótum síðar orðið landsliðsþjálfarar eða stýrt landsliðinu á heimsmeistaramóti. Karl G. Benediktsson varð fyrstur til að ná þessum áfanga.

Í gegnum tíðina hafa átta leikmenn íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótum síðar orðið landsliðsþjálfarar eða stýrt landsliðinu á heimsmeistaramóti.

Karl G. Benediktsson varð fyrstur til að ná þessum áfanga. Hann lék fimm af sex leikjum íslenska landsliðsins á HM 1961 í Vestur-Þýskalandi. Þremur árum síðar þegar HM fór fram í Tékkóslóvakíu var Karl orðinn landsliðsþjálfari. Karl var einnig landsliðsþjálfari Íslands tíu árum síðar á HM sem haldið var í Austur-Þýskalandi.

Birgir Björnsson lék með íslenska landsliðinu á HM 1958, 1961 og 1964. Hann þjálfaði íslenska landsliðið ásamt fleirum fyrir HM 1978 og stýrði leikjum liðsins þótt Pólverjinn, Janus Czerwinski, væri landsliðsþjálfari að nafninu til.

Þorbergur Aðalsteinsson sem lék með íslenska landsliðinu á HM 1978 og 1986 var landsliðsþjálfari Íslands á HM 1993 og 1995.

Þorbjörn Jensson tók við af Þorbergi og stýrði landsliðinu á HM 1997 og 2001 en Þorbjörn var landsliðsmaður á HM 1986 í Sviss.

Guðmundur Þórður Guðmundsson var leikmaður íslenska landsliðsins á HM 1986 og 1990. Hann tók síðar við þjálfun landsliðsins og stýrði liðinu á HM 2003 og aftur átta árum síðar.

Viggó Sigurðsson lék með íslenska landsliðinu á HM 1978 og var landsliðsþjálfari á HM 2005 í Túnis.

Alfreð Gíslason tók við þjálfun landsliðsins eftir að Viggó lét af störfum. Alfreð var landsliðsþjálfari á HM 2007 í Þýskalandi. Hann var leikmaður landsliðsins á HM 1986 og 1990.

Aron Kristjánsson fetaði síðan í spor forvera sinna þegar hann stýrði íslenska landsliðinu á HM 2013 á Spáni og aftur nú í Katar í þeirri keppni sem stendur fyrir dyrum. Aron tók þátt í tveimur heimsmeistaramótum sem landsliðsmaður, 2001 og 2003, undir stjórn Þorbjörns Jenssonar í fyrra skiptið og Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í seinna skiptið.

Þessu til viðbótar bætist að núverandi landsliðsþjálfarar Austurríkis, Danmerkur og Þýskalands, Patrekur Jóhannesson, Guðmundur Þórður og Dagur, hafa leikið á HM fyrir Íslands hönd eins og rakið er annars staðar í þessu blaði.

iben@mbl.is